Mótsstjórnin. Hallgrímur Steinsson formaður TV og Arnar Sigurmundsson við lokaathöfn minningarmótsins um Pál Árnason.
Mótsstjórnin. Hallgrímur Steinsson formaður TV og Arnar Sigurmundsson við lokaathöfn minningarmótsins um Pál Árnason. — Morgunblaðið/Óskar Páll Friðriksson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og Lenka Ptacnikova munu tefla einvígi um Íslandsmeistaratitil kvenna eftir spennandi keppni kvennaflokks sem lauk um síðustu helgi.

Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og Lenka Ptacnikova munu tefla einvígi um Íslandsmeistaratitil kvenna eftir spennandi keppni kvennaflokks sem lauk um síðustu helgi. Þær tvær voru í algerum sérflokki meðal keppenda sem sést best á því að þegar lokaumferð mótsins rann upp tefldu þær innbyrðis og höfðu unnið allar skákir sínar. Lenka fékk snemma betri stöðu og með skemmtilegri leikfléttu vann hún mann. Að Jóhanna myndi stöðva klukkuna og gefast upp hefði ekki komið á óvart. En hún kaus að halda áfram baráttunni manni og peði undir. Eitthvað vafðist úrvinnslan fyrir Lenku og þegar fram í sótti gaf hún eitt tækifæri sem Jóhanna lét sér ekki úr greipum ganga:

Íslandsmót kvenna 2021; 7. umferð:

Lenka Ptacnikova – Jóhanna Björg Jóhannsdóttir

Síðasti leikur svarts var . ...

56. ... Rc5xb3

... og lá beinast við að leika 57. Hxf7+ Kh8 (ekki 57. ... Kh6 vegna 58. Rg4+ Kh5 59. Hh7+ Kg5 60. h4+ Kf5 61. Hf7 mát) 58. Kf4 með auðunninni stöðu. En Lenka vildi stytta sér leið og lék ...

57. Rc2??

... sem Jóhanna svaraði óvænt með ...

57. ... Rd4+! 58. Rxa3 Rf5+ 59. Kf4 Rxe7.

Uppskipti á peðum tryggði svo jafnteflið.

Lokastaðan varð þessi: 1.-2.

Jó hanna Björg Jóhannsdóttir og Lenka Ptacnikova 5½ v.

(af 6) 3. Lisseth Mendez Acevedo 3 v. 4. Tinna Kristín Finnbogadóttir 2½ v. 5. Hrund Hauksdóttir 2 v. 6. Batel Goitom 1½ v. 7. Ulker Gasanova 1 v.

Í einvíginu sem fer fram þann 24. júní nk. verða tefldar skákir með styttri tímamörkum.

Vignir Vatnar sigraði á minningarmótinu um Pál Árnason í Eyjum

Minningarmótið um Pál Árnason múrara úr Vestmannaeyjum fékk strax góð viðbrögð og margir ferðaþyrstir skákmenn lögðu land undir fót til að geta teflt í Eyjum um sjómannadagshelgina. Páll var félagi í Taflfélagi Vestmannaeyja um áratuga skeið, tefldi fyrir félagið á Íslandsmóti skákfélaga, tók þátt í meistaramótum í Vestmannaeyjum, þ.á m. hinu sögufræga skákþingi 1973, og ótal öðrum keppnum. Hann lék á píanó og var hress og skemmtilegur maður sem glímdi við parkinsons-sjúkdóminn í meira en 20 ár. Við upphaf mótsins lék Örvar Guðni Arnason frá Ísfélaginu, helsta styrktaraðila mótsins, fyrsta leikinn fyrir son Páls, Guðmund Árna.

Upphaflega stóð til að minningarmótið færi fram í húsnæði Taflfélags Vestmannaeyja en þegar ljóst varð að fjöldi keppenda yrði meiri en húsnæðið þyldi var mótið fært yfir á 2. hæð Þekkingarseturs Vestmannaeyja þar sem áður var vinnslusalur Fiskiðjunnar. Það voru félagar í TV sem skipulögðu mótshaldið og fyrir hönd mótsstjórnar hélt Arnar Sigurmundsson skemmtilega ræðu þar sem hann kallaði fram stemningu þeirra daga þegar gengu um sali Fiskiðjunnar Stebbi Run., Ásta á sjöunni, Atli greifi og fleira gott fólk. Allt þetta mikla hús er enn í mótun.

Þar sem ferðir Herjólfs lágu niðri seinni hluta laugardagsins var mótið stytt um tvær umferðir og umhugsunartíminn settur á 10-5. En nýr alþjóðlegur meistari, Vignir Vatnar Stefánsson, vann glæsilegan sigur, hlaut 6½ vinning af sjö mögulegum. Helgi Áss Grétarsson varð í 2. sæti með 6 vinninga og í 3. sæti komu greinarhöfundur, Hannes Hlífar Stefánsson og Guðmundur Kjartansson með 5½ vinning. Skákstjóri var Þórir Benediktsson. Keppendur á öllum aldri voru 50 talsins.

Helgi Ólafsson (helol@simnet.is)

Höf.: Helgi Ólafsson (helol@simnet.is)