[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Laugardal Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Agla María Albertsdóttir var besti leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu þegar liðið vann 3:2-sigur gegn Írlandi í vináttuleik á Laugardalsvelli í gær.

Í Laugardal

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is Agla María Albertsdóttir var besti leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu þegar liðið vann 3:2-sigur gegn Írlandi í vináttuleik á Laugardalsvelli í gær.

Agla María kom íslenska liðinu yfir strax á 11. mínútu með frábæru marki eftir laglega sendingu frá Glódísi Perlu Viggósdóttur út úr vörn íslenska liðsins en Agla tók afar vel á móti boltanum og vippaði honum snyrtilega yfir Grace Moloney í marki Íra. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir bætti við öðru marki íslenska liðsins fjórum mínútum síðar en Karólína Lea Vilhjálmsdóttir átti þá fyrirgjöf frá hægri sem Agla María flikkaði á fjærstöngina þar sem Gunnhildur var mætt. Dagný Brynjarsdóttir bætti við þriðja marki íslenska liðsins á 39. mínútu þegar hún fylgdi eftir frábæru stangarskoti Alexöndru Jóhannsdóttur og staðan 3:0 í hálfleik.

Heather Payne og Ambert Barrett skoruðu mörk Íra í síðari hálfleik.

Það er óhætt að segja að leikurinn á Laugardalsvelli hafi verið leikur tveggja hálfleika.

Íslenska liðið gjörsamlega valtaði yfir Írana í fyrri hálfleik enda með mikinn meðvind í bakið og hefði forskot íslenska liðsins hæglega getað verið stærra í hálfleik.

Að sama skapi var seinni hálfleikurinn arfaslakur og leikmenn liðsins voru ekki mættir til leiks þegar Írum tókst að minnka muninn í 1:3 á 50. mínútu.

Vissulega var um vináttuleik að ræða en það er ekki í boði að vanmeta andstæðing sinn í landsleikjum, jafnvel þótt maður sé þremur mörkum yfir í hálfleik.

Margir leikmenn íslenska liðsins tóku stórt skref síðasta vetur þegar þær héldu út í atvinnumennsku en það sást á leik margra þeirra að þær eru ekki búnar að spila jafn mikið og þær hefðu eflaust viljað.

Það var ekki sama sjálfstraust yfir þeim og í landsleikjaglugganum síðasta haust þar sem þær léku á als oddi eftir stórkostlega spilamennsku með Íslandsmeisturum Breiðabliks.

Þorsteinn Halldórsson er að reyna að setja sitt handbragð á liðið en það er viðbúið að það muni taka tíma. Þjálfarinn gerði fjórar breytingar í leiknum, allt leikmenn sem hann hefur þjálfað hjá Breiðabliki og vita hvað landsliðsþjálfarinn vill, en það er lykilatriði fyrir íslenska liðið að aðrir leikmenn liðsins verði fljótir að temja sér hugmyndafræði þjálfarans, því skiptingarnar í gær höfðu lítil sem engin áhrif á leikinn.