— Morgunblaðið/Árni Sæberg
En það var af bréfritara að segja að hann hafði verið í seinnisprautu-montrússi fram eftir degi. Þá rauk hitinn upp í 39 gráður og stóð þannig í tvo daga og er byrjaður að rjátlast niður þegar þetta er skrifað.

Veruleikinn er iðulega snúnari en okkur hentar. Síðustu misserin hefur hann verið heltekinn af veirunni og svo bólusetningum til að hindra skemmdarverk af hennar völdum.

Sé gengið fram á hópa fólks á miðjum aldri og eldri á kjaftatörn heyrast orðin AstraZeneca, Moderna, Janssen og Pfizer. Og umræðuefnin um efnin virðist óþrjótandi, þó vitum við satt best að segja flest næsta lítið um innihaldið og hvernig það kunni að haga sér þegar inn í skrokkinn er komið. Við höfum þó flest tekið eins konar sjálfvirka afstöðu með þeim ráðleggingum sem mæla með bólusetningum. Enginn hefur reynt að fela fyrir okkur að ekkert þessara efna og annarra slíkra er fullrannsakað, þótt margir hafi lagt hart að sér og margt sé vitað. Til þess að rannsókn væri lokið svo öruggt þætti þyrfti viðbótartíma. Jafnvel tvö ár að mati þeirra sem vita hvað mest.

En heimurinn hefur ákveðið í leynilegri atkvæðagreiðslu, sem fór þó ekki fram með neinum formlegum hætti, og hvergi var auglýst, að hann hefur ekki fjárhagslegt bolmagn til að bíða bóluefnalegrar fullkomnunar. Allur þorri fólks í okkar heimshluta hefur greitt attkvæði með þessari niðurstöðu, þótt þau atkvæði hafi hvergi verið talin. Og þessi niðurstaða varð þótt dunið hafi á mannskapnum fréttir um margvíslegar aukaverkanir, sem sumar eru jafnvel meiri og endanlegri en svo að sakleysislegt orð geti lýst.

Áttu á endanum ekkert val

Hinn kosturinn, að láta veiruna yfir sig ganga, gekk hreinlega ekki upp. Heiminum var nánast skellt í lás í heilt ár þótt engan hafi þá grunað að lokunin stæði svo lengi. En það var einmitt sannfæringin um að bóluefnin væru skammt undan sem tryggði bærilega sátt um slíkar aðgerðir, sem eru í anda þess sem stjórnvöld leyfa sér þegar þau glíma við styrjaldarástand. Það var þó ekki eins og veiran sjálf væri ekki nægileg ógn, heldur hefur verið reynt að auka við óttann með margvíslegu og æði óljósu tali um hin og þessi afbrigði, sem gjarnan eru skírð eftir löndum sem þau eru sögð hafa komið upp hjá, sem eykur enn á alla bölvun. Því var haldið að fólki í fjölmiðlum að „afbrigðin“ væru mun hættulegri og smitin fljótari í förum en gamla móðurveiran og látið að því liggja að bólusetning gæti orðið lítil vörn vegna þessa og annarra afbrigða sem kæmu hugsanlega frá öðrum svæðum heims.

Það tók langan tíma að leiða þetta furðutal í jörð á ný og nú virðist það vera sameiginlegt álit nægjanlega margra, sem vita nægjanlega mikið, að afbrigðin muni litlu breyta eða engu um varnargetu bóluefnanna. Þessi tilraun til æsinga eða skemmdarverka er því að mestu úr sögunni, og hún var ekki endilega illa meint og í mörgum tilvikum borin áfram í meinleysislegri fleytingu trúgjarnra um þær gáttir sem eru galopnar á þessum síðustu og verstu tímum.

Upplagðir fyrir aukaverkanir?

Ekki liggur fyrir, svo augljóst sé, hvers vegna sumir eru móttækilegri fyrir „aukaverkunum“ en aðrir og er þá ekki átt við alvarlegustu dæmin, þau sem liggja á mörkum lífs og dauða, en þau hafa eðli málsins samkvæmt verið rækilega rannsökuð. En þeim dæmum sem eru minni háttar er ekki endilega haldið til haga, þótt einhver tilraun sé gerð til að ná utan um þau.

Bréfritari greindi frá því hér að hann sótti sér sprautu með AZ-efninu í Höllina föstudaginn 26. mars sl. og bar þá að verðleikum mikið lof á hversu gott skipulagið var á því verki öllu. Daginn eftir kom bréfið til áskrifenda og þá var ritari þess orðinn illa haldinn með 39 stiga hita, sem stóð á annan sólarhring. Þá tóku við ógleði og uppköst sem stóðu lítið skemur og voru ekki endilega upplífgandi. Í vikunum sem fóru í hönd voru vinir og kunningjar á svipuðu reki spurðir frétta og undantekningarlítið höfðu þeir komist frá sinni sprautu, eins og hún hefði aldrei farið fram. Einn hafði talið daginn eftir sprautu tilvalinn til þess að rölta að gosstöðvunum og gerði það eins og að drekka vatn og flestir hinna virtust hafa verið í færum til hins sama. En eftir lufsugang undirritaðs í nokkra daga urðu margir til þess að nefna í huggunarskyni að það væri einkenni AZ að seinni sprautan væri mun léttvægari en sú fyrri og hefði hún það fram yfir önnur nafngreind bóluefni.

Sú seinni

Leið nú tíminn og einum 11 vikum síðar var að því komið að fá seinni sprautuna. Þangað var horfið glaðbeittur í krafti fyrrgreindra upplýsinga. Þegar glitti í Laugardalshöllina, sem er eins og hálf-bóla í djúpum dal, og minnir þannig á þennan gerning núna, varð ekki betur séð en að bólusetningin hefði blandast við fótboltakappleik af stærri gerðinni. Þegar portúgalski kappinn Eusébio keppti með Benfica hér 1968 voru 18.000 gestir á vellinum og bréfritari var á meðal þeirra. Biðröðin nú minnti hann helst á þennan atburð. Frúin lét bréfritara út úr bíl uppi á Suðurlandsbraut til að koma sér í röðina. Veðrið var bærilegt framan af, en svo tók að rigna nokkuð, þótt ekki væri það úrfelli. Það var reyndar notalegt hvað fólkið, sem komið var í seinni sprautuna sína, tók því vel að bíða í klukkutíma og 20 mínútur til að komast í hús og í langþráða sprautu. Það góða fólk, sem var næst bréfritara, tók þessu öllu eins og einu af lífsins skemmtiatriðum og sló öllu upp í glens. Ekki kæmi á óvart þótt ýmsir þarna hafi, eins og bréfritari, verið í nokkur ár í Austurbæjarskóla og biðu því sátt og rauluðu í hljóði: „Prúð og frjálsleg í fasi, fram nú allir í röð,“ eins og gert hafði verið upphátt þar.

Og þegar inn í stóra salinn var komið var allt í fínum og leikandi skorðum, rétt eins og seinast svo þakkarefni var. En það var af bréfritara að segja að hann hafði verið í seinnisprautu-montrússi fram eftir degi. Þá rauk hitinn upp í 39 gráður og stóð þannig í tvo daga og er byrjaður að rjátlast niður þegar þetta er skrifað.

En bónusinn var að maginn var ekki í uppreisnarástandi eins og seinast, sem munaði verulega um.

Eins og fyrr sagði hefur bréfritari ekki grænan grun um það hvers vegna félagar og vinir á líkum aldri sluppu svona vel síðast. Einhverjir gætu getið sér þess til að bréfritari hafi átt þetta skilið umfram hina, en þótt góðir séu verður sú niðurstaða ekki keypt sem vísindi.

Bréfritari heyrði í góðum vini út af öðru, sem lærður er í fræðunum, og hann orðaði það sem svo að viðkomandi gæti velt fyrir sér hvernig hann sem sjúklingur hefði brugðist við veirunni hefði hún komist að. Líkaminn væri jú að bregðast við bólusetningunni með svipuðum hætti og hann myndi hafa brugðist við veirunni sjálfri hefði hún komist ótrufluð að. Og hún hefði ekki látið neitt stoppa sig, öfugt við bóluefni. Þetta var mjög huggunarrík athugasemd og gerði gott. Var nú komin enn ein röksemd og sérstakt tilefni til að þakka sprauturnar tvær og láta sér líka bærilega við varnaraðgerðir vakandi líkama gagnvart óvæntum óvini.

Að öðrum óværum

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra menntamála og dómsmála, gerir einkennilega tvöfeldni stjórnmálaflokks að umræðuefni. Honum þykir sláandi hve sveiflan í afstöðu Samfylkingarinnar í dægurumræðunni fari eftir því hvaða stórfyrirtæki eigi í hlut: „Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, flutti ræðu undir liðnum „störf þingsins“ miðvikudaginn 2. júní. Snerist hún um „framgöngu forsvarsmanna fyrirtækisins [Samherja] gagnvart lykilstofnunum samfélagsins“. Fyrirtækið hefði meðal annars krafist þess með bréfi að menntamálaráðherra gæfi skýringar á ummælum sínum í ræðustól þingsins.

Hún sagði stóra málið „að við [yrðum] með einhverjum hætti að geta tekist á við svona framgöngu sem samfélag“. Það yrði að tryggja „vernd fjölmiðlafólks betur gegn ágangi stórfyrirtækja og tryggja nægjanlegar fjárheimildir til lögreglu, saksóknara og annarra eftirlitsstofnana til að hefja rannsókn ef upp kemur grunur um refsivert athæfi“. Hún sagði að „kerfið okkar“ yrði „nefnilega að virka og löggjafinn“ yrði „að veita starfsfólki grunnstofnana samfélagsins vernd fyrir svona ásókn“.

Menn skulu bugta sig og beygja

Rósa Björk krafðist auðmýktar af Samherja, ríkari ástæða en ella væri (fyrir) fyrirtækið að sýna auðmýkt vegna þess að það hefði heimild til að nýta auðlind sem væri í „eigu þjóðarinnar allrar“. Slík fyrirtæki yrðu „líka að standa undir meiri kröfum en aðrir til samfélagslegrar ábyrgðar“. Vinna í sátt við samfélagið, fylgja lögum og reglum „og ekki bara að greiða fullt gjald til eigandans fyrir nýtinguna heldur líka sýna eigandanum, sem er íslenskt samfélag, virðingu og auðmýkt“.“

Og Björn bendir á: „Fingri er víða beint að stórfyrirtækjum. Í þessa veru er talað um stórfyrirtæki um heim allan. Má til dæmis ekki segja að netheimar séu sameign okkar allra, mannkynsins alls? Nú er hvarvetna leitað leiða til að koma böndum á „big tech“-fyrirtækin – eða Tech Giants, tæknirisana fimm, Amazon, Apple, Facebook, Google og Microsoft. Fyrirtækin sem hagnast mest á nýtingu nýrrar tækni og netheima. Málaferlin eru óteljandi og jafnframt tilraunir til að koma á fyrirtækin skattaböndum, nú síðast af G-7-ríkjunum.

Sérkennilegt við umræðurnar hér er sveiflan í afstöðu Samfylkingarinnar eftir því hvaða fyrirtæki á í hlut. Á tíma Baugsmálsins töluðu þingmenn Samfylkingarinnar á allt annan veg en Rósa Björk talar núna. Þá býsnuðust þeir yfir hverri krónu sem rann úr ríkissjóði til að standa straum af rannsókn efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra á málefnum Baugs. Þeir vorkenndu einnig eigendum Baugs vegna þess kostnaðar sem þeir urðu að bera til að standa undir vörn sinni. Baugsmenn þurftu ekki að skrifa bréf til ráðherra til að krefja hann skýringa á orðum sínum í þingsal. Þingmenn Samfylkingarinnar sáu um að ganga hart að ráðherrum í þágu Baugsmanna. Her álitsgjafa og Baugsmálgagnið Fréttablaðið auk annarra miðla fyrirtækisins sá um allt sem sneri að fjölmiðlum og þótti þá fáheyrður dónaskapur að ráðherra leyfði sér að nota orðin Baugsmiðill eða Baugspenni. Var þá rokið upp til handa og fóta af svipaðri hneykslun og sækir nú á marga vegna þess að Samherji nýtir sér netið og nýja margmiðlunartækni vegna þess sem fyrirtækið telur óvandaðan fréttaflutning.

Um hve ótrúlega langt var gengið til varnar Baugi á stjórnmála- og fjölmiðlavettvangi má lesa í bók minni Rosabaugur yfir Íslandi frá 2011. Þá settu embættismenn sig ekki í kvörtunarstellingar vegna árása fjölmiðlamanna eða kröfðust sérstakrar lögverndar. Síðan eftir kollsteypuna í hruninu var látið eins og allt eftirlit hefði skort!“

Málsvarnarmenn

Þarna er ekkert ofmælt af Birni Bjarnasyni en bók hans „Rosabaugur“ gefur gleggri mynd af þessum þætti en annað skrifað efni til þessa. En það er vissulega athyglisvert, sem Björn bendir á, að þingmaðurinn sem hann nefnir til sögunnar lítur á það sem óheimilt athæfi og sýni skort á „auðmýkt“ gagnvart yfirvöldum, og ekki bara þjóðinni, heldur „þjóðinni allri“ sem virðast tvö ólík hugtök í munni þingmannsins. Ekki verður betur séð en að í þessu tilviki og kannski endranær líti þingmaðurinn svo á að Ríkisútvarpið komi fram sem yfirvald sem almenningi (öllum almenningi?) beri að sýna auðmýkt! Sjálfsagt er ekki útilokað að þessa skrítna skilnings gæti óþægilega oft á fréttastofu þessa stjórnlausa fyrirtækis, en varla víða annars staðar.

Hingað til hefur það aldrei þótt gagnrýnisefni að menn sem telja sig, með réttu eða röngu, hafa setið undir röngum eða ómálefnalegum sakargiftum taki til andsvara vegna þess. Þeir Gunnar Smári Egilsson og Jón Ásgeir Jóhannesson voru ekki aðeins samferðamenn í hefðbundnum skilningi heldur litu þeir á sig sem fjármálalega stórvesíra, sem stráðu um sig annarra manna lánsfé hérlendis sem erlendis og virtust iðulega fara af óvarkárni orðum um persónur þeirra sem þeim virtist í nöp við. Þeir þekktu því hvor annan betur en aðrir menn þekktu þá eða kærðu sig um að gera. Það er því óneitanlega sérstakt að þegar þessir samherjar ákveða seint (JÁJ) eða snemma á ferlinum (GSE) að nú þurfi að bera myndarlega blak af sér, þá gefi þeir félagar báðir út bók undir sama heitinu! Bók Jóns heitir Málsvörn og bók Gunnars heitir líka Málsvörn, en þar er hafður, með smærra letri, undirtitill „mannorðsmorðingja“.

Bréfritari hefur hvoruga bókina lesið og getur því ekki lagt mat á það hvort undirtitillinn hefði hæft báðum bókunum jafn vel.

En því svipar bersýnilega saman innræti bókarefnanna, hvernig sem það er svo að öðru leyti, eins og hjörtunum tæru í Súdan og Grímsnesinu.

En kannski hefur almennur hugmyndaskortur ráðið mestu um að þannig fór.