Þór Sigfússon
Þór Sigfússon
Þór Sigfússon: "Sigþrúður Ármann er kraftmikil og bjartsýn. Hugmyndarík og jákvæð. Hún er hörkuduglegur nagli sem gustar af."

Einhvern tímann heyrði ég landsliðsþjálfara kvenna í fótbolta útskýra hvers vegna Margrét Lára Viðarsdóttir væri alltaf valin í liðið en í spurningunni fólst sú gagnrýni að hún væri ekkert sérstök í vörninni. Þjálfarinn brosti vingjarnlega og útskýrði að markahæsta landsliðskonan þyrfti ekki að vera best í varnarleiknum. Það dygði liðinu að enginn skoraði fleiri mörk en hún.

Hvert lið þarf að vera samansett af ólíkum einstaklingum með mismunandi hæfileika. Þingflokkur sjálfstæðismanna er þar ekki undanskilinn. Í honum þurfa að vera þeir sem eru góðir í vörn og aðrir sem eru frábærir í sókn. Í honum þurfa að vera einstaklingar sem eru hoknir af reynslu og aðrir sem bera með sér ferska strauma. Í honum þurfa að vera einstaklingar sem hafa reynslu af pólitik og aðrir sem skynja púlsinn í atvinnulífinu.

Ég fagna því að Sigþrúður Ármann gefur kost á sér í þriðja sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Hún er kraftmikil og bjartsýn. Hugmyndarík og jákvæð. Hún er hörkuduglegur nagli sem gustar af. Vel menntuð og með umfangsmikla reynslu úr atvinnulífinu. En umfram allt er Sigþrúður góður liðsmaður. Stálheiðarleg og falleg sál sem gaman er að vinna með.

Fram undan er tímabil uppbyggingar í íslensku samfélagi þar sem mikilvægast er er draga úr atvinnuleysi. Til að koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang er mikilvægt að spila sóknarleik. Sækja óhrædd fram. Sigþrúður Ármann er mikilvægur hlekkur í liðinu sem á að leiða þá sókn. Ég styð hana í þriðja sæti í prófkjörinu og hvet alla þá sem taka þátt til að gera það líka.

Höfundur er stofnandi Sjávarklasans.

Höf.: Þór Sigfússon