Kilmarnock Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir við hlið Barassie-golfvallarins eftir að hafa tryggt sér sæti í úrslitaleik Opna breska áhugamannamótsins í gær.
Kilmarnock Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir við hlið Barassie-golfvallarins eftir að hafa tryggt sér sæti í úrslitaleik Opna breska áhugamannamótsins í gær. — Ljósmynd/Lúðvík
Golf Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Hin átján ára gamla Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir er einum leik frá því að komast inn á fjögur af stærstu golfmótum heims í kvennaflokki eftir ótrúlega frammistöðu á Opna breska áhugamannamótinu í Kilmarnock í Skotlandi.

Golf

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is Hin átján ára gamla Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir er einum leik frá því að komast inn á fjögur af stærstu golfmótum heims í kvennaflokki eftir ótrúlega frammistöðu á Opna breska áhugamannamótinu í Kilmarnock í Skotlandi.

Jóhanna hafnaði í 53. sæti í höggleik mótsins en hefur síðan farið á kostum í útsláttarkeppninni þar sem 64 bestu eftir tvo hringi tóku þátt og leika holukeppni. Hún fór í gegnum fyrstu þrjár umferðirnar á þriðjudag og miðvikudag og náði síðan hápunktinum í gær. Hún sigraði þá Kate Lanigan frá Írlandi í átta manna úrslitum og lagði síðan Shannon McWilliam frá Skotlandi að velli í æsispennandi undanúrslitaleik í gær þar sem leika þurfti bráðabana því þær voru jafnar eftir 18 holur.

Það sem meira var, McWilliam náði þriggja holu forskoti á seinni hringnum en Jóhönnu tókst að vinna það upp á síðustu fimm holunum og vinna síðan á fyrstu holu í bráðabana.

Louise Duncan frá Skotlandi er mótherjinn í úrslitaleiknum og sigurvegarinn á mótinu fær keppnisrétt á fjórum risamótum hjá atvinnukylfingum, AIG-mótinu, Opna bandaríska meistaramótinu, Evian-meistaramótinu og Augusta National-meistaramótinu.

Stúlkurnar eru örþreyttar

„Við erum varla farin að átta okkur á þessu því þetta hefur verið lyginni líkast og frekar óraunverulegt allt saman,“ sagði Lúðvík Bergvinsson faðir Jóhönnu við Morgunblaðið í gær en hann er kylfusveinn hennar á mótinu í Kilmarnock.

„Þegar komið er fram í svona langt mót reynir mikið á bæði andlegan og líkamlegan styrk og það hefur satt best að segja komið mér á óvart hve öflug hún hefur reynst á því sviði. Hún hefur haldið sínu striki og tekið öllu með stóískri ró og einbeitt sér að því að taka eitt högg í einu og eitt skref í einu. Stúlkurnar eru meira og minna örþreyttar eftir gríðarlega erfitt mót, og svo eru fram undan tveir hringir á morgun því það verða leiknar 36 holur í úrslitaleiknum,“ sagði Lúðvík en keppni hefst klukkan 8.30 að breskum tíma í dag, 7.30 að íslenskum tíma.

„Við erum að sjálfsögðu spennt og það verður gaman að sjá hvernig þetta fer. Hún mætir mjög öflugum andstæðingi og það er mikið í húfi þótt við séum varla farin að gera okkur grein fyrir því enn þá.“

Þáttur Ólafíu og Valdísar

„En það sem er að skila sér hjá Jóhönnu á þessu móti er mikil vinna með frábæru fólki og þjálfurum í GR og öllum sem þar starfa. Hinar íslensku stúlkurnar sem tóku þátt í mótinu hafa líka staðið vel við bakið á henni og hvatt hana.

Síðan endurspeglar þetta þá uppsveiflu sem er í kvennagolfinu á Íslandi og sérstaklega hjá yngri kynslóðinni. Þær Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir eiga gríðarlega mikinn heiður skilinn. Þær hafa lyft kvennagolfinu upp á nýtt þrep og nú eru aðrar stúlkur byrjaðar að njóta ávaxtanna af þeirra vinnu,“ sagði Lúðvík Bergvinsson.