Loksins var hafist handa við niðurrif á Bræðraborgarstíg 1 í vikunni en húsið brann fyrir tæpu ári, 25. júní í fyrra.
Loksins var hafist handa við niðurrif á Bræðraborgarstíg 1 í vikunni en húsið brann fyrir tæpu ári, 25. júní í fyrra. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
G uðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra varð hlutskarpastur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík eftir æsilega baráttu við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra sem varð í öðru sæti.

G uðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra varð hlutskarpastur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík eftir æsilega baráttu við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra sem varð í öðru sæti. Nýliðinn Diljá Mist Einarsdóttir varð þriðja og Hildur Sverrisdóttir fjórða en þær eru báðar aðstoðarmenn ráðherra. Tveir þingmenn flokksins, Sigríður Á. Andersen og Brynjar Níelsson , náðu á hinn bóginn ekki tilsettu marki og verða ekki á lista flokksins fyrir þingkosningarnar í haust.

Kókaínneysla jókst mikið á Íslandi frá 2017 til 2020, að því er fram kemur í nýrri rannsókn. Ein helsta heimildin eru holræsi en sýni eru tekin úr frárennslisvatni í skolphreinsistöðvum borgarinnar. Neyslan dróst saman á seinasta ári enda flóknara að flytja efnið inn til landsins í heimsfaraldrinum.

Akureyringar eignuðust sína fyrstu Íslandsmeistara í handbolta kvenna en KA/Þór vann einvígið við Val 2:0. Þetta er aðeins í annað sinn sem titillinn hafnar utan höfuðborgarsvæðisins.

Sveitarstjórn Langanesbyggðar skoðar möguleika á því að flytja og setja upp Þórsstofu á Þórshöfn en stofan er helguð dr. Þór Jakobssyni veðurfræðingi og leiðöngrum hans um norðurslóðir og Norður-Íshaf.

Sjónvarpssnúrur og -fjarstýringar mega muna sinn fífil fegri en fram kom í byrjun vikunnar að fólk geti hér eftir klæðskerasniðið eigin upplifun á sínu notendaviðmóti snjallsjónvarpa og þarf ekki að sækja sjónvarpsefni í sérstök öpp mismunandi veitna. Þá eru gömlu myndlyklarnir að verða óþarfir.

·

Eldhúsdagsumræður fóru fram á Alþingi að kvöldi mánudags. Talsmenn stjórnarflokkanna hældu sér af verkum sínum og vöruðu við hugmyndum stjórnarandstöðunnar. Bjart væri fram undan yrði haldið áfram á sömu braut. Stjórnarandstaðan fann ríkisstjórninni aftur á móti allt til foráttu og sagði flest stefna hér í óefni, meðal annars í heilbrigðiskerfinu. Þá hefðu stjórnarflokkarnir ítrekað hafnað eigin gildum og jafnvel stefnu. Fæstum brá vegna málflutnings fylkinganna.

Forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid fóru í sína fyrstu opinberu heimsókn frá því heimsfaraldurinn skall á. Sveitarfélagið Ölfus varð fyrir valinu og báru heimamenn hjónin á höndum sér. Guðni kvaddi með tillögu að nýju slagorði sveitarfélagsins: „Velkomin í Ölfus. Næg bílastæði.“

Manni nokkrum í Flatey brá í brún þegar dráttarvélin sem hann var að fara að nota verpti skyndilega eggjum. Er betur var að gáð kom í ljós að það var í raun æðarkolla sem átti eggin. Hafði gert sér hreiður undir dráttarvélinni.

Menn hleyptu ekki síður brúnum þegar golfkúla fannst í æðarhreiðri á golfvellinum í Grindavík . Það átti sér þó líka eðlilegar skýringar en kylfingurinn Ari Leifsson hafði slegið lítið eitt út fyrir brautina og sumsé farið hreiður í höggi. Stugga þurfti við æðarkollunni til að endurheimta kúluna enda taldi hún hana sína.

Rómantískir söngvar feðraveldisins , gjörningur eftir myndlistarmanninn Ragnar Kjartansson verður fluttur í hinu þekkta Guggenheim-safni í New York 2.-5. júlí.

Ljóst er að KR ver ekki Íslandsmeistaratitil sinn í körfubolta karla en Keflavík sópaði þeim röndóttu út úr undanúrslitum mótsins. Annað lið en KR varð síðast Íslandsmeistari 2013.

·

Landsbankinn gerir ráð fyrir að tekjur af ferðaþjónustunni aukist um 120 milljarða á þessu ári, meðal annars út af lengri dvalartíma ferðamanna. Jafnframt telur bankinn að ferðamönnum fjölgi um 67% frá síðasta ári. Ný spá bankans gerir ráð fyrir 800 þúsund ferðamönnum til landsins í ár.

Hlutdeild íslenskrar tónlistar er nú aðeins 21% af heildarsölunni hér á landi. Sölutekjur innlendra tónlistarrétthafa vegna ársins 2020 eru aðeins fjórðungur tekna þeirra árið 2006 að raunvirði. Bríet var sá íslenski tónlistarmaður sem mest var streymt í fyrra.

Einu partíin hér á landi, þar sem lyf eru höfð um hönd og eitthvað kveður að, fara enn þá fram í Laugardalshöllinni . Örtröð var í höllinni í vikunni og fram kom að lýðurinn væri sólgnastur í Pfizer og brögð að því að menn mættu jafnvel óboðnir í samkvæmið þegar það efni var í boði. Þarf að ráða útkastara að hirðinni?

Eldgosið í Geldingadal þykir ekki lengur eins tilkomumikið og áður og gígurinn lokast smátt og smátt.

Landsmenn eru aftur byrjaðir að fjölmenna í bíó og sáu 3.700 manns íslensku kvikmynda Saumaklúbbinn fyrstu helgina.

Frumvarp ríkisstjórnarinnar um að setja á fót hálendisþjóðgarð verður ekki samþykkt á þessu þingi. Umhverfis- og samgöngunefnd segir mikla vinnu eftir við frumvarpið. Þá verður stjórnarskrárfrumvarp Katrínar Jakobsdóttur ekki rætt á vorþinginu.

Ísland gerði jafntefli, 2:2, við Pólland í vináttulandsleik karla ytra. Robert Lewandowski komst ekki á blað í leiknum sem alltaf sætir tíðindum.

·

Heppinn fjölskyldufaðir á fertugsaldri sem tók þátt í Víkingalottóinu vann á miðvikudagskvöld hæsta vinning sem sést hefur á Íslandi en hann nam rúmlega 1,2 milljörðum króna. Fyrstu viðbrögð vinningshafans voru að fara í góðan göngutúr.

Andleg líðan ungs fólks á aldrinum 18 til 34 ára virðist hafa þróast til verri vegar á umliðnum mánuðum samkvæmt lýðheilsuvísum embættis landlæknis.

Framkvæmdastjórn Landspítala fundaði stíft í vikunni vegna stöðunnar á bráðamóttökudeild spítalans og snerust fundirnir helst um viðbragð til þess að mæta manneklu, sérstaklega á meðal lækna.

Áformað er að hefja framkvæmdir við verksmiðju Íslandsþara á Húsavík næsta vor og verður jarðhiti notaður til að þurrka þarann við vinnsluna. Rætt hefur verið um að fjárfestingin sé á þriðja milljarð króna .

Meirihluti íbúa Borgarbyggðar er hlynntur því að sett séu upp vindorkuver á Íslandi, ef marka má skoðanakönnun. Áhuginn er þó heldur minni á að staðsetja slík mannvirki í sveitarfélaginu sjálfu.

Tónlistarmenn landsins sprikla nú af eftirvæntingu enda sér loksins fyrir endann á samkomutakmörkunum. Mikið er auglýst af stórtónleikum í haust og sumir óttast offramboð.

Ef vel var að gáð sást deildarmyrkvi á sólu að morgni fimmtudags. Tunglið skyggði á 69% af þvermáli sólar þegar myrkvinn var mestur.

·

Hallveig Thorlacius og Þórhallur Sigurðsson hlutu heiðursverðlaun Sviðlistasambands Íslands árið 2021 fyrir ómetanleg störf í þágu íslenskrar barnamenningar og leikhúslífs þegar Gríman var afhent. Vertu Úlfur eftir Héðin Unnsteinsson og Unni Ösp Stefánsdóttur hlaut flestar Grímur, sjö talsins.

Atvinnulausum hefur fækkað mikið eða um 3.400 á átta vikum. Atvinnuleysi er nú 9,1%.

Þrjú hundruð milljónum króna verður bætt við fjárveitingar til hjúkrunarheimila landsins á þessu ári, verði tillögur meirihluta fjárlaganefndar Alþingis samþykktar.

Í einu af fimm dauðsföllum sem voru til rannsóknar hjá óháðum aðilum var metið ólíklegt til mögulegt að bólusetning hafi leitt til andláts. Í hinum fjórum tilfellum var það metið ólíklegt.

Frumvarp félags- og barnamálaráðherra um hundrað þúsund króna eingreiðslu til þeirra sem hafa verið atvinnulausir í 14 mánuði eða lengur var samþykkt á Alþingi .

Ríkisstjórn Svíþjóðar hefur ákveðið að lána Íslendingum 24 þúsund skammta af bóluefninu Janssen .

Óttarr Proppé , bóksali, tónlistarmaður og fyrrverandi heilbrigðisráðherra, tók við sem formaður stjórnar UNICEF á Íslandi á ársfundi félagsins.

Alls hafa 128.645 einstaklingar verið fullbólusettir við kórónuveirunni hérlendis. Bólusetning er hafin hjá 86.326 til viðbótar.

Evrópumeistaramót karla í knattspyrnu, kennt við árið 2020, er loksins hafið. Góða skemmtun!