Aino Freyja Järvelä
Aino Freyja Järvelä
Fimm tónskáld hafa verið valin til að semja hljóðverk fyrir Salinn og tengjast yrkisefnin öll á einhvern hátt Kópavogi.

Fimm tónskáld hafa verið valin til að semja hljóðverk fyrir Salinn og tengjast yrkisefnin öll á einhvern hátt Kópavogi. Má af þeim nefna hljóðheim pípulagna, innri og ytri hljóðheim kvennafangelsisins, raddir gamalla og nýrra Kópavogsbúa og Hamraborgar-bóleró fyrir tíu trommuleikara. Tónskáldin eru Gunnar Gunnsteinsson, Ingibjörg Friðriksdóttir, Ríkharður H. Friðriksson, Úlfur Eldjárn og Þóranna Dögg Björnsdóttir og voru þau valin úr hópi 28 umsækjenda.

Þetta er annað árið í röð sem Salurinn kallar eftir umsóknum fyrir ný verk en í maí voru fjórir strengjakvartettar frumfluttir á Tíbrártónleikum sem voru hluti af þessu verkefni Salarins. Markmiðið er að stuðla að frumsköpun í tón- og hljóðverkagerð og að kynna íslensk tónskáld, segir í tilkynningu. Tónskáldin munu semja tíu til fimmtán mínútna hljóðverk innblásin af sögu og/eða samtímahljóðheimi Kópavogs. Héraðsskjalasafn Kópavogs verður þeim innan handar við aðgengi að gögnum, gerist þess þörf. Aino Freyja Järvelä er forstöðumaður Salarins.