[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á nýlegu netstjákli villtist ég inn á gamlan málfarspistil Gísla Jónssonar úr þessu blaði og hnaut þar um góðan mola.

Á nýlegu netstjákli villtist ég inn á gamlan málfarspistil Gísla Jónssonar úr þessu blaði og hnaut þar um góðan mola. Árið var 1982 og þættinum hafði borist bréf:

„Það sem vakir helst fyrir mér þessa stundina, er hvort maður eigi að segja, þegar gestir koma að kvöldlagi á skemmtistaði hér í borg: „Góða kvöldið“ eða „Gott kvöld“. Ég vinn sem dyravörður í Hollywood, ég býð ávallt „gott kvöld“, en gestirnir flestir „góða kvöldið“. Við erum með einn íslenskukunnáttumann þar við vinnu, og hann segir að „gott kvöld“ sé réttara, en hann veit ekki hvers vegna né af hverju. Þess vegna leita ég til þín í þeirri von að þú getir upplýst þetta fyrir okkur, svo að við getum leiðrétt sem flesta, íslenskunni til halds og trausts.“

Hér myndi einhver setja broskall, ef það tíðkaðist á þessum síðum. Hinir samviskusömu dyraverðir vildu sumsé – og álitu jafnvel þátt í starfslýsingunni – leiðrétta gesti sem heilsuðu með orðalagi sem ekki hlyti náð fyrir augum fræðinga. Ég reyndi að ímynda mér senuna. Það var minna mál hvort fólk stæði í röð eða þvögu, væri skakkdrukkið eða allsgáð; aðalmálið var hvernig það orðaði kveðju sína! Og áfram ímyndaði ég mér að svona hefði málhreinsun kannski einmitt virkað á sinni tíð – þar hefðu beinlínis verið að störfum e.k. útkastarar íslenskrar tungu sem sáu til þess að enginn kæmist inn í paradís siðaðra nema fara rétt með orðasambönd, beygja rétt, þéra rétt, skrifa rétt ... Ég man nefnilega að þegar áhugi minn á málinu var að kvikna töluðu sumir um að málfarsfasistar væru að ganga af tungunni dauðri, sem mér fannst raunar þversögn enda hlytu þeir að vera drifnir af ástríðu fyrir málinu. En þeir voru óvinsælir, umvöndunarsinnarnir, og lærðu víst með tímanum að spara rauða tússið, málóttinn ógurlegi er þannig (vonandi) á undanhaldi, valdið dreifðara meðal notenda, o.s.frv. Þó er varla annað hægt en dást að hinum einlæga dyraverði sem árið 1982 þráði að vera útvörður „íslenskunnar“ á kvöldvaktinni. Um leið er gaman að sjá hvernig pistlar um tungutak endurspegla tíðarandann (sem vér skrifarar skyldum kannski hafa í huga – broskall), þessi saga er í öllu falli heimild um samskiptamynstur, tísku, áhuga á tjáningu.

Annars er því við að bæta að okkar maður Gísli skipaði í svari sínu hvorki fyrir um niðurstöðu, né útmálaði neinn sem málsóða, enda yrði í svo flóknu dæmi „smekkur okkar að koma til og hefð málsins“. Blæbrigðamunur gæti verið á því hvort sagt væri gott kvöld eða góða kvöldið, og þar skipti tónninn miklu. Hann mæltist því ekki til þess að dyravörðurinn breytti um stíl, heldur benti honum á að svar gesta, þ.e. „orðmyndirnar með greini, góðan daginn og góða kvöldið, geta innifalið meiri alúð og jafnvel lítils háttar glettni“. Þannig lét Gísli andrúmsloftinu í Hollywood eftir að marka hvað væri við hæfi. Það var merkilega hressandi.

Sigurbjörg Þrastardóttir sitronur@hotmail.com