Beinagrindur frændanna liggja nú hlið við hlið í danska þjóðminjasafninu og verða til sýnis síðar í mánuðinum.
Beinagrindur frændanna liggja nú hlið við hlið í danska þjóðminjasafninu og verða til sýnis síðar í mánuðinum. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kaupmannahöfn. AFP. | Tveir víkingar úr sömu fjölskyldu voru sameinaðir í danska þjóðminjasafninu á miðvikudag eftir að hafa verið aðskildir í þúsund ár.

Kaupmannahöfn. AFP. | Tveir víkingar úr sömu fjölskyldu voru sameinaðir í danska þjóðminjasafninu á miðvikudag eftir að hafa verið aðskildir í þúsund ár. Skyldleiki þeirra var rakinn með erfðagreiningu, sem notuð hefur verið til að varpa ljósi á ferðir víkinga um Evrópu.

Annar víkingurinn lést á Englandi á þrítugsaldri af höfuðáverkum, einhvern tímann á 11. öld. Hann var grafinn í fjöldagröf í Oxford.

Hinn víkingurinn lést í Danmörku á sextugsaldri. Á beinagrind hans má sjá merki um áverka, sem gefa til kynna að hann hafi barist í orrustum.

Með því að kortleggja erfðaefni úr beinagrindum frá víkingatímanum, sem stóð frá áttundu fram á 12. öld, tókst fornleifafræðingum fyrir tilviljun að greina að mennirnir tveir hefðu verið skyldir. Notuð var svokölluð strontíumsamsætagreining.

„Þetta er mikil uppgötvun vegna þess að nú er hægt að rekja ferðir manna í tíma og rúmi í gegnum fjölskylduna,“ sagði Jeanette Varberg, fornleifafræðingur við safnið, við AFP.

Tveir starfsfélagar hennar voru rúma tvo tíma á miðvikudag að púsla saman beinagrind víkingsins frá Englandi sem var send frá Oxford.

Alls bárust 150 bein frá minjasafni Oxfordskíris og mun danska safnið hafa þau að láni næstu þrjú árin.

Sagnfræðingum ber saman um að danskir víkingar hafi byrjað að gera strandhögg í Skotlandi og á Englandi seint á áttundu öld.

Varberg segir að yngri maðurinn gæti hafa verið myrtur í árás víkinga, en einnig sé uppi kenning um að beinagrindurnar í fjöldagröfinni séu líkamsleifar fórnarlamba konunglegrar tilskipunar Aðalráðs II. hins ráðalausa, sem árið 1002 fyrirskipaði að allir Danir á Englandi skyldu drepnir.

Að sögn Varberg er fátítt að finnist beinagrindur, sem greina megi skyldleika á milli, en þó sé auðveldara að gera það þegar kóngafólk eigi í hlut.

Þótt staðfest sé að mennirnir tveir séu skyldir er ekki hægt að sjá hversu náinn skyldleikinn er.

Þeir gætu hafa verið hálfbræður, afi og barnabarn eða annar systkinabarn hins. Víst er hins vegar talið að þeir hafi hafið líf sitt á sama stað á Fjóni og er á heimasíðu danska þjóðminjasafnsins fullyrt að það hafi verið í Otterup.

„Það er mjög erfitt að segja til um hvort þeir voru samtímamenn eða hvort ef til vill sé kynslóð á milli þeirra vegna þess að ekkert var að finna í gröfum þeirra, sem nota má til að greina nákvæma dagsetningu,“ sagði Varberg. „Það getur því skeikað fimmtíu árum til eða frá.“

Rannsóknin á beinagrindunum tengist sýningu um víkingana, sem opnuð verður í danska þjóðminjasafninu 26. júní. Hún nefnist „Sláist í för með víkingunum – í strandhöggi“ („Tag með vikingerne – på togt“) og verða beinagrindurnar þar til sýnis.

Á heimasíðu safnsins um hina væntanlegu sýningu er vitnað í Varberg, sem er sýningarstjóri, um hvaða lærdóm megi draga af víkingum á okkar tímum: „Að grípa tækifærið. Þá þorðu menn að taka örlögin í eigin hendur. Menn trúðu á þeim tíma að skapanornirnar þrjár spynnu þráð lífsins við rætur trésins Yggdrasils og lífsþráðurinn réði örlögunum. Engu að síður hefðu menn trú á að þeir gætu haft áhrif á örlög sín. Við gætum kannski lært eitthvað af bjartsýni víkinganna og drifkrafti.“