[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég elska allt við bækur; að snerta pappírinn, horfa á hönnunina, finna vigtina í hendi, tilhlökkunina að opna nýja bók. Ég held hins vegar stöðugt fram hjá því ég er yfirleitt með margar bækur í takinu í einu.

Ég elska allt við bækur; að snerta pappírinn, horfa á hönnunina, finna vigtina í hendi, tilhlökkunina að opna nýja bók. Ég held hins vegar stöðugt fram hjá því ég er yfirleitt með margar bækur í takinu í einu. Allir mínir dagar enda á yndislestri eða yndishlustun því ég er nýlega farin að hlaða upp góðu safni í gegnum audible-smáforritið.

Núna eru tvær bækur efstar í bunkanum– afar ólíkar en báðar heillandi. Önnur er How The World Thinks eftir Julian Baggini. Þetta er saga hugmynda og heimspeki sem gerir atrennu að því að kortleggja helstu heimspekistefnur heimsins auk þess að varpa áhugaverðu ljósi á samspil og mismun ólíkra menningarheilda, svæða og tímabila í sögunni. Ég bað son minn um að velja eina bók handa mér þegar hann var á leið heim frá Bretlandi um daginn og hann hefði ekki getað valið girnilegri konfektkassa af hugmyndum, pælingum og innsæi.

Hin bókin í kvöldlestri er Uppreisn Jóns Arasonar eftir Ásgeir Jónsson. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á þessari litríku persónu sem var bæði afar óvenjulegur maður og mætti að auki þessum dramatísku örlögum. Ásgeir er svo einstaklega fróður og flinkur sögumaður.

Eftir því sem líður á lífið eykst áhugi minn á ljóðum. Ég er einlægur aðdáandi listaskáldsins Gerðar Kristnýjar og hef ljóðasafnið hennar við höndina til að næra andann. Önnur skáldkona sem ég var að uppgötva svo seint að skömm er frá að segja er Mary Oliver. Náttúrustemmningar, tærleiki og andlegur tónn í verkum hennar heilla mig upp úr skónum. Þetta er úr bókinni Blue Horses .

Fyrirgefðu mér

Englar eru dásamlegir en þeir eru svo, sko, fjarlægir.

Það er frekar það sem ég skynja í drullunni og rótum

trjánna, eða brunninum, eða hlöðunni, eða grjótinu með sitt

skærgula landakort skófa sem fær fætur mínar til að staldra við og

kveikir blik í augum mínum, þegar ég finn nærveru einhvers

anda, einhvers lítils guðs, sem leynist þar.

Ef ég væri fullkomin manneskja myndi ég stöðugt vera að hneigja mig.

Ég er það ekki, en ég staldra við í hvert sinn sem ég finn fyrir þessum

heilagleika, sem er ástæða þess að ég er oft svo sein

til baka þaðan sem ég fer.

Fyrirgefðu mér.

(Þýðing Melkorka Ólafsdóttir)

Önnur bók sem liggur alltaf á stofuborðinu hjá mér er Year of Wonder – Classical Music for Every Day eftir Clemency Burton-Hill. Nældi mér í hana í þeim dásemdarstað Foyles í London fyrir nokkrum árum og gæti ekki án hennar verið. Uppspretta daglegrar gleði með hjálp Spotify og bætir þekkinguna á klassískri tónlist þar eð hver dagur á sitt tiltekna verk sem sett er í áhugavert samhengi.