Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Vopn í hendi vera kann. Vel í eldstó logar hann. Eldur líka er með sann. Ástir við menn kenndu þann. Eysteinn Pétursson svarar: Njáll víst aldrei brandi brá. Ég brand í arni loga sá.

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Vopn í hendi vera kann.

Vel í eldstó logar hann.

Eldur líka er með sann.

Ástir við menn kenndu þann.

Eysteinn Pétursson svarar:

Njáll víst aldrei brandi brá.

Ég brand í arni loga sá.

Brandur eldur er með sann.

Ástar-Brand ég nefna kann.

Guðrún B. á þessa lausn:

Brandur sverð er svakalegt.

Sviðinn brandur lá í stó.

Bergþóra lést í brandi tregt.

Brandur Ástar gjarnan hló.

Bergur Torfason frá Felli leysir gátuna svona:

Brandur í hendi bana vann,

brandur í eldstó loga kann,

brandur er eldur og með sann,

Ástarbrand, þekktan Dalamann.

Þá er það lausnin frá Helga R. Einarssyni:

Brugðu kappar bröndum hér.

Brand í arininn ég lét.

Brandur nafn á eldi er.

Ástar-Brandur var og hét. (Guðbrandur)

Þessi er skýring Guðmundar á gátunni:

Biturt vopn er brandurinn.

Brandur glæða loga kann.

Orðið brand um eld svo finn.

Ástar-Brand menn nefndu þann.

Þá er limra:

Fótfimi rómuð hans Refs er,

en raunar mér stórum til efs er,

að framar hann standi

Stuðlakots-Brandi,

sem stekkur oft upp á nef sér.

Síðan er ný gáta eftir Guðmund:

Tíminn líður furðu fljótt,

fyrr en varir kemur nótt,

hvort góður dagur gefist mér,

gáta sú mér hulin er:

x

Siðleysingja hýsir hann.

Hringsnúast oft sé ég þann.

Nafni þessu nefni mann.

Nánast óður vera kann.

Gömul vísa í lokin:

Þó mig treginn þjái síst

þess ég feginn beiði

að sjórinn deyi og verði víst

Vestmanneyja leiði.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is