Eldgos Glóandi hraun flæðir yfir sífellt stærra svæði í Geldingadölum og nágrenni og lokar gönguleiðum og bestu útsýnisstöðunum.
Eldgos Glóandi hraun flæðir yfir sífellt stærra svæði í Geldingadölum og nágrenni og lokar gönguleiðum og bestu útsýnisstöðunum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Hönnuð hefur verið ný gönguleið að gosstöðvunum í Geldingadölum. Hún liggur nálægt leiðinni sem stundum hefur verið notuð og kölluð er gönguleið B.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Hönnuð hefur verið ný gönguleið að gosstöðvunum í Geldingadölum. Hún liggur nálægt leiðinni sem stundum hefur verið notuð og kölluð er gönguleið B. Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, tekur fram að eftir sé að kostnaðargreina framkvæmdina, kynna hana og leita fjármögnunar.

Ef Geldingadalir fyllast getur hraun flætt eftir gönguleið A og vestur í Nátthagakrika. Erfitt er að spá hvenær það getur gerst, hvort það verður eftir vikur eða mánuði, en ljóst er að núverandi aðalleið getur orðið hættuleg gangandi fólki og jafnvel lokast. Fannar telur þessvegna nauðsynlegt að útbúa nýja leið í tíma.

Varanleg lausn

Fannar segir að ekki þyki skynsamlegt að leggja í kostnaðarsamar breytingar á gönguleið sem svo gæti farið að spillast eftir örfáa mánuði. Niðurstaðan hafi verið að leggja til nýja gönguleið, nálægt gönguleið B. Hún liggur vestur fyrir Fagradalsfjall og inn á útsýnisstað norðan eða norðvestan við gosstöðvarnar.

Fannar segir nauðsynlegt að gera göngustíg þarna til að draga úr hættu á slysum. Tekur hann fram að þessi leið sé heldur lengri og erfiðari en leið A, undirlagið sé ekki eins slétt, en með lagfæringum, svipuðum og gerðar voru á núverandi leið, mætti gera hana ágætlega greiðfæra.

Erlendir ferðamenn sækja mjög að gosstöðvunum í Geldingadölum. Fannar segir að menn meti stöðuna þannig að það myndi ekki draga úr áhuga þeirra að komast í návígi við gosið þótt breytt yrði um leið. Hann segir þó mikilvægt að ráðast í framkvæmdir, áður en umferðin verði enn meiri. Fannar reiknar með að málið muni skýrast í næstu viku. Jafnframt er verið að undirbúa aðgerðir til að stýra hraunrennsli út úr Nátthaga, þannig að það valdi sem minnstu tjóni á Suðurstrandarvegi og Ísólfsskála. Það verkefni er á sama stigi og gönguleiðin, engar ákvarðanir hafa verið teknar.