Beðahreinsun Nóg var um arfann í beðinu sem iðin ungmenni kepptust við að hreinsa á fyrsta degi Vinnuskólans.
Beðahreinsun Nóg var um arfann í beðinu sem iðin ungmenni kepptust við að hreinsa á fyrsta degi Vinnuskólans. — Morgunblaðið/Unnur Karen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Unnur Freyja Víðisdóttir unnurfreyja@mbl.is Dugmiklir nemendur Seljaskóla í Breiðholti kepptust við að klára dagsverkið á fyrsta degi Vinnuskólans í Reykjavík þegar blaðamann Morgunblaðsins bar að garði í gær. Góð stemning var í hópnum sem mundaði af krafti hin ýmsu verkfæri sem þurfti til verksins sem var að þessu sinni beðahreinsun í grennd við skólann.

Unnur Freyja Víðisdóttir

unnurfreyja@mbl.is

Dugmiklir nemendur Seljaskóla í Breiðholti kepptust við að klára dagsverkið á fyrsta degi Vinnuskólans í Reykjavík þegar blaðamann Morgunblaðsins bar að garði í gær. Góð stemning var í hópnum sem mundaði af krafti hin ýmsu verkfæri sem þurfti til verksins sem var að þessu sinni beðahreinsun í grennd við skólann.

Meginhlutverk Vinnuskóla Reykjavíkur er að veita nemendum úr efstu bekkjum grunnskóla Reykjavíkur uppbyggileg sumarstörf ásamt fræðslu í öruggu starfsumhverfi. Öllum nemendum 8., 9. og 10. bekkja býðst að koma til starfa við fjölbreytt verkefni sem flest snúa að garðyrkju og umhirðu í borginni.

Ekkert mál að vakna snemma

Arnór Arnórsson, nemandi við Seljaskóla, er að eigin sögn vel stemmdur fyrir sumrinu og sérstaklega ánægður með launin sem hann fær fyrir vinnuna. „Þetta eru góð laun sko. Sex hundruð kall á tímann,“ segir hann. Aðspurður segist Arnór ætla að kaupa sér föt fyrir aurana í uppáhaldsfatabúðunum sínum, Polo og Levis. Hann segir lítið mál að vakna snemma á morgnana til að mæta í vinnuna enda hafi hann verið vaknaður klukkan sex þennan morguninn. Þá segist hann lítið stressa sig yfir veðrinu. „Það er bara að klæða sig vel,“ segir hann galvaskur.

Spara fyrir framtíðinni

Vinkonurnar Eygló Kristinsdóttir og Bryndís Guðnadóttir taka undir með Arnóri og segjast sáttar við að byrja að vinna beint eftir skóla. „Þá er auðveldara að vakna því við þurfum líka að vakna snemma til að mæta í skólann,“ segir Bryndís. Þá segja þær launin fyrir vinnuna ágæt. „Ég ætla bara að safna peningnum og spara hann fyrir framtíðina,“ segir Bryndís.