Vogabyggðin Hinn nýi skóli mun rísa á Fleyvangi skammt frá Snarfarahöfninni, sem sést neðst á myndinni. Fyrir miðri mynd er Ketilbjarnarsíkið, en það verður brúað í tengslum við skólann.
Vogabyggðin Hinn nýi skóli mun rísa á Fleyvangi skammt frá Snarfarahöfninni, sem sést neðst á myndinni. Fyrir miðri mynd er Ketilbjarnarsíkið, en það verður brúað í tengslum við skólann. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Vogabyggð við Elliðaárvog hefur verið að byggjast upp undanfarið en fullbyggt mun hverfið telja allt að 1.900 íbúðir.

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Vogabyggð við Elliðaárvog hefur verið að byggjast upp undanfarið en fullbyggt mun hverfið telja allt að 1.900 íbúðir. Á þessu svæði stóðu áður gömul og úr sér gengin atvinnuhús sem smám saman hafa vikið fyrir nýjum íbúðablokkum.

Til dæmis þurftu átta byggingar, sem stóðu á Gelgjutanga, að víkja fyrir íbúðabyggð, svokallaðri Vogabyggð 1. Gelgjutangi er smánes sem skagar út í Elliðaárvog á móts við Grafarvog.

Nú er komið að þeim tímapunkti að huga þarf að uppbyggingu skólamannvirkja og því hefur borgarráð samþykkt að efna til opinnar hönnunar- og framkvæmdasamkeppni um samþættan leik- og grunnskóla með aðstöðu fyrir starfsemi frístundaheimilis og félagsmiðstöðvar. Gert er ráð fyrir áfangaskiptingu byggingarinnar eftir því sem íbúum í Vogabyggð fjölgar. Samkeppnin mun ennfremur ná til nýrrar göngu- og hjólabrúar í Vogabyggð.

Samkeppnin verður haldin í samstarfi við Arkitektafélag Íslands. Gert er ráð fyrir að samkeppnin verði tveggja þrepa. Skipuð verður dómnefnd sem semur samkeppnislýsingu, annast yfirferð tillagna og skilar niðurstöðum sínum til Reykjavíkurborgar. Áætlað er að niðurstaða samkeppninnar geti legið fyrir í byrjun árs 2022.

Áður lítt þekkt örnefni

Örnefni sem fáum hafa verið kunn koma nú til sögunnar. Þau eru tengd sjónum og útgerð. Nýr skóli verður á tanga í Elliðaárósum sem kallaður er Fleyvangur (Vogabyggð 5). Ný göngu- og hjólabrú yfir Ketilbjarnarsíki mun tengja börn og aðra íbúa Vogabyggðar við nýja byggingu, útivistarsvæðið á Fleyvangi og aðra borgarhluta. Á Fleyvangi verður útbúið nýtt torg, Vörputorg.

Brúin verður helsta samgönguleiðin og jafnframt nýtt kennileiti í borgarlandslaginu. Staðsetningin á nýjum mannvirkjum er einstök í borginni með sjávarströnd til beggja hliða, nálægð við smábátahöfnina, Elliðaárnar og útivistarsvæði Elliðaárósa og Elliðaárdals, segir í greinargerð um samkeppnina.

Í gildi er deiliskipulag, Vogabyggð svæði 5, samþykkt í borgarráði 10. janúar 2019. Hugsanlegar breytingar á deiliskipulagi munu taka mið af niðurstöðu samkeppninnar. Byggingarnar verða umhverfisvottaðar og í samræmi við áherslur Græna plansins.

Gert er ráð fyrir því að ný samþætt bygging fyrir leik- og grunnskóla með aðstöðu fyrir starfsemi frístundaheimilis og félagsmiðstöðvar verði byggð í þremur áföngum. Heildarfjöldi nemenda á leik- og grunnskólastigi er nú áætlaður allt að 600 nemendur. Áhersla er lögð á sveigjanleika byggingarinnar þannig að möguleiki verði á frekari stækkun skólans m.t.t. hugmynda um frekari uppbyggingu íbúða á svæðinu. Áætluð heildarstærð byggingarinnar er um 7.200 fermetrar. Í byggingunni verður íþróttasalur fyrir nemendur skólans.

Nýlega eru hafnar viðræður við íþróttafélög í nágrenni Vogabyggðar um að hasla sér völl í hinu nýja hverfi. Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur samþykkti að Þrótti, Fjölni, Ármanni, Fylki og Víkingi yrði gefið tækifæri til að kynna hugmyndir sínar varðandi íþróttastarf í nýju hverfunum Vogabyggð og Ártúnshöfða. Meðal annars verði litið til óska félaganna um innviðauppbyggingu í hinum nýju hverfum og samnýtingu með þeim svæðum þar sem þau starfa.

Síkið er við hann kennt

Götur í Vogabyggð draga nafn af bátum, svo sem Kugguvogur, Arkarvogur, Bátavogur og svo framvegis. Sama má segja um Fleyvang. Vörputorg vísar til veiðarfæris.

Ketilbjarnarsíki vísar til Ketilbjarnar gamla Ketilssonar sem var landnámsmaður sem kom til Íslands frá Noregi. Í Landnámabók segir að Ketilbjörn hafi komið til landsins þegar land var víða byggt með sjó og lent skipi sínu, Elliða, í ósum þeirra áa sem síðan heita Elliðaár og allir þekkja.