Og þar sem ég sit þarna og bíð í hátt í þrjá tíma þá rifjast það upp fyrir mér að svona hefur þetta alltaf verið. Nánast hver einasta ferð hefur kostað nokkurra klukkutíma bið.

Ég held að ég hafi verið fimm ára þegar ég fór í fyrsta sinn á slysavarðstofuna. Þá var ég nýfluttur í Hlíðargerðið, var að leika við krakka í götunni og tókst að handleggsbrjóta mig. Það var reyndar ekki alslæmt því það þótti býsna svalt á þeim árum að mæta í gifsi fyrsta skóladaginn.

Þetta er ein af fyrstu minningum mínum frá þessu nýja hverfi. Reyndar eru mjög margar minningar mínar frá þessum árum af heimsóknum á slysavarðstofuna. Eða slysó eins og hún er yfirleitt kölluð. Þangað mætti ég reglulega með allt frá gati á hausnum yfir í fótbrot. Mamma talaði stundum um að hún ætti að fá afslátt af því ég væri svo tíður gestur.

Örlögin háttuðu því svo til að ein dóttir mín tók upp á þessu líka og hún sýndi jafnvel meira hugmyndaflug í meiðslum sínum sem náðu hámarki þegar hún hoppaði á kjöthitamæli. Það hlýtur eiginlega að vera einhvers konar met.

Ég endurnýjaði kynnin um daginn. Datt eins og bjáni í sundi, af öllum stöðum. Og var aftur mættur á slysó. Að bíða. Og þar sem ég sit þarna og bíð í hátt í þrjá tíma þá rifjast það upp fyrir mér að svona hefur þetta alltaf verið. Nánast hver einasta ferð hefur kostað nokkurra klukkutíma bið. Og þá hefur engu máli skipt á hvaða tíma sólarhrings maður mætir.

Svo gerist það, nokkrum vikum seinna, að dóttir mín (ekki kjöthitamælahopparinn) fer upp á slysó og bíður þar í sex klukkutíma. Og það var ekki fyrr en þá að ég fór að velta því fyrir mér hvort þetta væri alveg eðlilegt fyrirkomulag í tæplega hálfa öld og mögulega lengur.

Þetta var reyndar eðlilegra hér á árum áður. Þá var vel sloppið ef árleg skoðun á bílnum tók bara hálfan dag hjá Bifreiðaeftirliti ríkisins. Þá þótti eðlilegt að þurfa að bíða í röðum eftir öllu mögulegu og sækja um leyfi einhverra stofnana fyrir innflutningi á einföldustu hlutum.

Nú vil ég taka það fram að ég hef alltaf fengið afbragðsþjónustu (svona fyrir utan biðina) á slysó. Þar er fólk sem vill allt fyrir mann gera og alveg bullandi fagmennska. En ég skil bara ekki alveg af hverju þetta þarf að vera svona.

Og maður verður að fara varlega í að gagnrýna heilbrigðiskerfið. Það er innprentuð í okkur virðing fyrir þessari stétt sem læknar og lagar okkur. Og skýringin sem við fáum er örugglega fjárskortur. Eins og venjulega. En getur það verið að það hafi haldist óbreytt í 50 ár?

Getur verið að kerfið sé kannski eitthvað aðeins of mikið kerfi? Eins og við heyrðum um í vikunni þegar barn fær ekki aðstoð talmeinafræðings vegna þess að hann útskrifaðist. Það er nefnilega alveg jafn brjálað og það hljómar.

Sjö ára stúlka á Austurlandi fær ekki niðurgreidda þjónustu talmeinafræðingsins sem hún hefur verið hjá vegna þess að sá er að útskrifast. Og reglurnar segja að talmeinafræðingar þurfi að vinna í tvö ár eftir útskrift til að sjúkratryggingar fáist til að greiða fyrir þjónustu þeirra! Þannig að aðeins þeir sem eiga pening geta nýtt sér þjónustu þeirra þessi tvö ár.

Þetta er náttúrulega jafn gáfulegt og að ríkið telji betra að fólk bíði verkjað og frá vinnu mánuðum saman eftir því fá að skipta um hné- og mjaðmarliði. Þegar til er fyrirtæki í Reykjavík sem einmitt sérhæfir sig í slíkum aðgerðum en fær ekki niðurgreiðslu frá ríkinu. Því það má ekki skipta við einkafyrirtæki í íslenska heilbrigðiskerfinu.

Þess vegna er fólk sem bíður of lengi sent í rándýrt ferðalag til Svíþjóðar til að framkvæma þessar aðgerðir hjá sænsku einkafyrirtæki. Er þetta skynsamlegt?

Maður spyr sig ...