Ronaldo, Pepe, Eder og félagar með Evrópubikarinn eftir sigur á Frökkum í París 2016.
Ronaldo, Pepe, Eder og félagar með Evrópubikarinn eftir sigur á Frökkum í París 2016. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Evrópumeistaramót karla í knattspyrnu er hafið með trukki og dýfu vítt og breitt um álfuna, ári á eftir áætlun.

Evrópumeistaramót karla í knattspyrnu er hafið með trukki og dýfu vítt og breitt um álfuna, ári á eftir áætlun. Búast má við jöfnu og spennandi móti og trufluðum tilþrifum, líkt og venjan hefur verið í 61 árs sögu mótsins, þar sem framlengingar og varamenn skipa veglegan sess. Og lokaúrslit hafa stundum komið á óvart, eins og þegar Danir og Grikkir urðu hlutskarpastir. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Hvaða þjóð er ríkjandi Evrópumeistari í knattspyrnu karla? Ekki leyfa ykkur að láta minnimáttarkenndina ná heljartaki á ykkur enda þótt svarið komi ekki um leið. Ég meina, það eru fimm ár síðan mótið fór síðast fram. En jú, auðvitað er þetta rétt hjá ykkur: Portúgal!

Það blés raunar ekki byrlega fyrir þá rauðgrænu því erkikempa þeirra, Cristiano Ronaldo, haltraði af velli eftir aðeins 25 mínútna leik gegn heimamönnum á Frakkvangi sumarið 2016 sem fyrir leikinn voru taldir mun sigurstranglegri. Höfðu meðal annars lagt spútniklið Íslands á leið sinni í úrslit. Frökkum var á hinn bóginn fyrirmunað að koma tuðrunni í netið og á 109. mínútu tók varamaðurinn Ederzito António Macedo Lopes, eða bara Eder, til sinna ráða og setti sigurmarkið fyrir Portúgal með föstu skoti fyrir utan teig. „Mark sem á skilið að ráða úrslitum hvar og hvenær sem er,“ gall í geðhrærðum þuli sjónvarpsstöðvarinnar ESPN. Man ekki í svipinn hvernig Gummi Ben. orðaði þetta. Vonbrigðatárin á hvarmi Ronaldos erkikempu skraufþornuðu á augabragði og sælli mann var ómögulegt að finna er lokaflautið gall. Trylltur dans var stiginn.

Rótfastur á Íberíuskaganum

Skyldi engan undra; þetta var fyrsti stóri titill Portúgals á sparksviðinu. HM hefur þjóðin aldrei unnið. Raunar hefur Evrópubikarinn verið rótfastur á Íberíuskaganum í heil þrettán ár en Spánverjar unnu mótið 2008 og aftur 2012. Portúgal „átti“ raunar að vinna í eigin bakgarði 2004 en laut öllum að óvörum í gras gegn Grikkjum í úrslitaleik, 0:1. Eins og við munum hefur áferðarfögrum sóknarleik ekki í annan tíma verður gerður slíkur grikkur á stórmóti. En Grikkjum var sléttsama um það. Bikarinn var þeirra. Angelos Charisteas gerði markið. Hver man ekki eftir honum? Allt kom fyrir ekki þótt Ronaldo entist leikinn á enda.

Hvað er maðurinn eiginlega gamall? spyrja nú ugglaust einhverjir. Enda sautján ár liðin. Svarið er 36 ára; hann var sumsé 19 ára þarna.

Spánverjar og Þjóðverjar hafa oftast fagnað sigri á EM, þrisvar sinnum hvor þjóð. Fyrsti sigur Spánverja kom strax í öðru mótinu, 1964. Lögðu þá Sovétmenn, 2:1. Þjóðverjar kenndu sig sérstaklega við vestrið í fyrri skiptin tvö, 1972 og 1980. Svo tóku þeir þetta 1996 líka; með gullmarki Olivers Bierhoffs. Þá gilti sú regla að það lið sem fyrr skoraði í framlengingu vann. Bingó, búið, bless. Þungt högg fyrir tapliðið og þegar þetta gerðist aftur fjórum árum síðar, þegar annar varamaður, David Trezeguet, tryggði Frökkum sigur á Ítölum, var mönnum nóg boðið og afnámu regluna – í mannúðarskyni. Þá væri gamla góða vítaspyrnukeppnin illskárri leið til að knýja fram úrslit.

Mót varamannanna

Eins og þið sjáið þá er EM í og með mót varamannanna, Eder, Bierhoff, Trezeguet, og eflaust slást framherjar liðanna um að fá að sitja á bekknum í úrslitaleiknum á Wembley-leikvanginum í Lundúnum 11. júlí næstkomandi. Koma svo inn á og stela senunni.

Það var þó ekki varamaður sem tryggði Sovétmönnum sigurinn á fyrsta mótinu á Prinsvangi í París sumarið 1960. Enda voru þeir harðbannaðir á þeim tíma. Sömu ellefu sem hófu leik luku honum líka. Ekkert bruðl og kjaftæði. Eini sigur Sovétríkjanna sálugu á stórmóti. Markvörðurinn Lev Jashín var þeirra kappa frægastur og svo muna ábyggilega einhverjir eftir Igor Nettó fyrirliða; stofnanda Nettó-keðjunnar góðu. Eða þannig. Viktor Ponedelnik gerði sigurmarkið í framlengingu, eins og svo oft síðar. EM er mót háspennunnar.

Einu sinni hefur þurft að grípa til vítaspyrnukeppni, þegar annað sálugt ríki, Tékkóslóvakía, lagði Vestur-Þjóðverja 1976 í enn einu horfnu ríki, Júgóslavíu. Það var hinn góðkunni Antonín Panenka sem geirnegldi sigurinn eftir að Uli Hoeneß hafði brugðist bogalistin á punktinum. Segið svo að Þjóðverjar tapi aldrei í vítaspyrnukeppni!

Ekki var búið að innleiða vítaspyrnukeppnina 1968 þegar Ítalir og Júgóslavar glímdu. Þegar úrslit lágu ekki fyrir eftir framlengingu var því einfaldlega hent í annan leik tveimur dögum síðar. Þá unnu Ítalir, 2:0. Gengu frá andstæðingum sínum strax í fyrri hálfleik sem vitaskuld var ofboðslega ó-EM-legt af þeim. Sá frægi framherji Luigi Riva gerði annað markið en Pietro Anastasi, alltaf kallaður Tyrkja-Pési, hitt.

Kjöldráttur í Kænugarði

Ójafnasti úrslitaleikurinn fór fram í Kænugarði 2012, þar sem Spánverjar lögðu Ítali 4:0. Og, jú, jú, þar komust tveir varamenn á blað, Juan Manuel Mata og Fernando Torres. David Silva og Jordi Alba voru einnig á skotskónum. Millifyrirsögnin hér að ofan, kjöldráttur í Kænugarði, gæti hæglega verið heiti á tuðrusparksbók eftir Gunnar Helgason. Hvet hann raunar til að skrifa hana!

Sovétmenn áttu heldur ekki breik gegn Vestur-Þjóðverjum í Brussel 1972, þar sem sjálf Þjóðarsleggjan, Gerd Müller, gerði tvö mörk og Herbert Wimmer eitt í 3:0-sigri. Hvorugur þeirra kom af bekknum í leiknum. Það mátti svo sem alveg þá en Helmut Schön einvaldur var svo ánægður með Die Mannschaft að hann sá ekki ástæðu til að skipta neinum út af.

Jupp Derwall henti einum varamanni inn á í úrslitaleiknum gegn Belgum í Róm 1980, Bernhard Cullmann. Hann réð þó ekki úrslitum, heldur Horst Hrubesch sem gerði bæði mörkin í 2:1-sigri. Það seinna með kollspyrnu í blálokin, eins og menn hafa þegar getið sér til um í Mexíkóborg.

Frá 1984 til 1992 voru sigrarnir líka til þess að gera öruggir, allir leikirnir fóru 2:0. Frakkar unnu sinn fyrsta EM-titil á heimavelli 1984, með mörkum frá Michel Platini og Bruno Bellone. Sá fyrrnefndi fór hamförum á mótinu, gerði níu mörk í fimm leikjum, sem hlýtur að teljast besta frammistaða einstaks leikmanns í gjörvallri sögu EM.

Ég sá John Jensen skora!

1988 unnu Hollendingar sinn fyrsta og eina EM-titil, fyrst skoraði Ruud Gullit gegn Sovétmönnum og síðan Marco Van Basten eitt frægasta mark sparksögunnar úr ómögulegu færi. Þið munið á hvaða mínútu leiksins það kom? Auðvitað, 54. Einvaldur Hollands var enginn annar en Rinus Michels, höfundur alsparksins (h. totaalvoetbal). Enginn grískur harmleikur þar á ferð.

Síðast en alls ekki síst er það sigurinn sem mörgum Íslendingum er kærastur, þegar Danir lögðu Þjóðverja í Gautaborg 1992 með mörkum frá John „Faxe“ Jensen og Kim Wilfort. Mark þess fyrrnefnda var í senn óvænt og ánægjulegt enda Faxe kunnur fyrir allt annað á velli en markaskorun; gerði til dæmis aðeins eitt mark 146 leikjum í Búndeslígunni og ensku úrvalsdeildinni. Það var fyrir Arsenal og í framhaldinu seldust bolir með áletruninni „Ég sá John Jensen skora“ eins og heitar lummur enda líkurnar á þeim gjörningi samkvæmt veðbönkum minni en að horfast í augu við sjálft Loch Ness-skrímslið. Muniði hver reif dolluna upp að leik loknum? Jú, Lars gamli Olsen.

Þið þekkið þessa sögu. Danirnir áttu ekki að vera með á mótinu og voru allir sem einn í sólbaði á Mallorca þegar Júgóslavía liðaðist í sundur og kallið kom. Þá kom sér vel að vera „ligeglad“ að upplagi. Og lygilegur var sigurinn, sá óvæntasti í sögu EM. Grikkland og allt meðtalið.

Þátttökuþjóðum fjölgað

Danir eru ein af sex þjóðum sem unnið hafa EM en aldrei HM; hinar eru Sovétmenn, Portúgalar, Tékkar, Hollendingar og Grikkir.

Þjóðverjar, Spánverjar, Ítalir og Frakkar hafa allir orðið heimsmeistarar, eins Englendingar sem enn eiga eftir að vinna EM. Eins og við munum hafa Evrópuþjóðir unnið fjögur síðustu HM sem segir sitt um sparkstyrk álfunnar.

Þátttökuþjóðum á EM hefur fjölgað hressilega í tímans rás; á fyrstu fimm mótunum, til og með 1976, voru þær aðeins fjórar. Frá 1980 til 1992 voru þær átta og frá 1996 til 2012 sextán og frá og með síðasta móti, 2016, var þeim fjölgað í 24 og svo verður aftur nú og á næsta móti, í Þýskalandi 2024.

Verja Portúgalar titilinn?

En hvað gerist í sumar? Vandi er um slíkt að spá. Bæði fyrir ríka menn og reista og okkur, alþýðu manna. Eru Portúgalar þess umkomnir að verja titilinn? Hvers vegna ekki? Með rökum má halda því fram að þeir tefli fram sterkara liði nú en síðast. Ronaldo er enn í fullu fjöri og rótsterkir og bráðungir menn á borð við Rúben Dias, Bernardo Silva, Rúben Neves, Diogo Jota og João Félix hafa bæst í hópinn. Ef ekki nú þá er framtíðin alla vega þeirra; alltént þangað til Ronaldo leggur skóna á hilluna um fimmtugt!

Frakkar hafa án efa metnað til að breiða yfir vonbrigðin frá síðasta móti en þeir gerðu sér lítið fyrir og urðu heimsmeistarar í millitíðinni, í Rússlandi 2018. Lið þeirra ætti alls ekki að vera veikara í dag. N'Golo Kanté, Antoine Griezmann og Kylian Mbappé allir á góðu róli, Paul Pogba eitthvað að hressast og búið að draga Karim Benzema aftur á flot eftir meira en fimm ára fjarveru. 33 ára er hann enn 30 marka maður í spænsku úrvalsdeildinni.

Fleiri góðkunningjum EM er einnig spáð góðu gengi, það er Spánverjum og Þjóðverjum. Gleymum því ekki að Frakkar, Þjóðverjar og Portúgalar eru allir saman í riðli – riðlinum sem Ísland átti að vera í en Ungverjar stálu sem frægt er af okkur sætinu. Þvílík veisla sem það hefði orðið. En jæja, við sláum okkur bara þeim mun betur upp næst.

Gamla nían fallin úr tísku?

Við Íslendingar vitum allt um Þjóðverja eftir að þeir tóku okkur í létta kennslustund í forkeppni HM ytra síðasta vetur. Snarpt og léttleikandi lið sem unun er að horfa á. Það er helst að það vanti eitt stykki Robert Lewandowski til að binda endahnút á sóknirnar, eins og hjá Bæjurum, þar sem margir úr þýska landsliðinu leika, svo sem Joshua Kimmich, Serge Gnabry, Leroy Sané, Thomas Müller og Leon Goretzka. Lewandowski verður á hinn bóginn á sínum stað í pólska landsliðinu sem fáir spá Evróputign. Annars kemur miðherjaskorturinn sjálfsagt ekki að sök hjá Þjóðverjum enda gamla góða nían ekki í sérstakri tísku nú um stundir. Í því sambandi er skemmst að minnast úrslitaleiks Meistaradeildar Evrópu á dögunum, þar sem bæði Chelsea og Manchester City hófu leik með svokallaðar „falskar níur“. Sá hefur snúið sér við í gröfinni, okkar maður Ludwig van Beethoven, enda var níunda sinfónían hans langt í frá fölsk. Sjálfur Óðurinn til gleðinnar.

Spánverjar eru í aðgengilegri riðli á pappírunum, með Pólverjum, Slóvökum og Svíum. Þeir hafa verið að ummanna lið sitt á undanförnum árum. Aðeins Sergio Busquets og Jordi Alba eru eftir úr liðinu sem lék úrslitaleikinn 2012 og 14 af 26 mönnum hafa leikið 10 landsleiki eða minna. Álvaro Morata er eini maðurinn í hópnum yfir 10 landsliðsmörkum en vonir eru bundnar við kappa á borð við hinn unga Ferran Torres og Gerard Moreno. Hver veit svo nema Úlfurinn knái Adama Traoré taki einn eða tvo kraftspretti. Skemmtilega póstmódernískur leikmaður þar á ferð.

Ítalir ættu að rúlla sínum riðli upp en aldrei þessu vant búa þeir ekki að neinni ofurstjörnu. Skiptir svo sem ekki öllu máli enda liðsheild og fyrst og síðast agaður varnarleikur þeirra aðalsmerki sem fyrr. Markahæsti maður er aðeins með 13 landsliðsmörk, Ciro Immobile. Andrea Belotti hefur gert 12.

Hvað gera Gullbelgarnir?

Verði nýtt nafn grafið á Evrópubikarinn er líklegast að það verði Belgía. Hin víðfræga gullkynslóð þeirra tapaði í undanúrslitum á HM 2018 og mun leggja allt í sölurnar meðan kappar á borð við Eden Hazard, Romelu Lukaku og Kevin De Bruyne eru enn þá með báða fætur jafnlanga. Til að byrja með þurfa Belgar að kljást við frændur okkar Dani og Finna og svo Rússa.

Króatía kemur einnig til greina, silfurliðið frá síðasta HM. Lykilmenn eins og Ivan Perišic´, Luka Modric´, Marcelo Brozovic´ og Dejan Lovren eru vissulega teknir að reskjast en langt í frá karlægir.

Króatar eru í mjög áhugaverðum riðli með Englendingum, Skotum og Tékkum. Englendingar fara sem fyrr fullir bjartsýni inn á stórmót en þeir eru ófáir sparkskýrendurnir sem hafa enga trú á því að þeir eigi eftir að bæta öðrum bikar við HM-titilinn 1966. Þegar enn var vinstri umferð á Íslandi og Bítlarnir voru á hátindi frægðar sinnar. Það breytir ekki því að hópurinn sem Englendingar tefla fram í sumar er gríðarlega spennandi; mikið um unga og bráðefnilega leikmenn, eins og Phil Foden, Bukayo Saka, Jude Bellingham, Declan Rice, Mason Mount og Jadon Sancho. Þarna eru líka menn á toppaldri, eins og Harry Kane og Raheem Sterling. Það er helst að varnarleikurinn og markvarslan sé áhyggjuefni. Sumsé, ef ekki nú þá ábyggilega næst!

Síðan kemur kannski bara einhver allt önnur þjóð inn úr himinblámanum og tekur þetta, til dæmis Norður-Makedónía, Austurríki eða Wales. Ég meina, EM er þannig mót. Ekkert síður fyrir litla hljóðláta manninn en þann blaðskellandi stóra. Er það vel.