Jóhanna Hólmfríður Óskarsdóttir fæddist 19. desember 1947. Hún lést 29. maí 2021.

Jóhanna Hólmfríður var jarðsungin 10. júní 2021.

Elsku besta tengdamamma.

Ég var svo heppin að kynnast Tomma þínum fyrir tæpum áratug og þar með þér og Kára þínum. Þetta var í desember 2011. Ég man þegar við hittumst fyrst og mér var tekið opnum örmum ásamt Anítu og Eggerti mínum sem þá voru 15 og 10 ára. Á þessum tíu árum höfum við eytt miklum tíma saman og margt gerst og breyst síðan. Mér og börnunum leið eins og við hefðum alltaf verið hluti af fjölskyldunni og þau fóru strax að kalla ykkur ömmu og afa. Og það var nú oft að ég kíkti um helgar í heimsókn með börnin okkar Tomma þó að hann væri á sjó. Þú passaðir alltaf vel upp á þína og sást til þess að allir þínir væru jafnir og fengju jafnt. Þú varst alltaf glöð og kát og þér fannst ekkert betra en að vera með fólkinu sem þú elskaðir og elskaði þig. Ég hjálpaði til við að flytja með ykkur tvisvar og Aníta mín færði okkur tvo gleðigjafa á þessum árum, langömmubörnin Natalie og Nóa, sem þér þótti afar vænt um. Minningarnar eru ótal margar og mjög svo skemmtilegar og þær munum við ávallt geyma í hjartanu okkar og deila áfram til afkomenda okkar allra. Elskum þig alltaf. Takk endalaust fyrir allt og sjáumst síðar.

Þín

Rúrí, Aníta og fjölskylda og Eggert.

Elsku Jóhanna frænka.

Ég er ekki að ná því að þú sért farin, það voru nákvæmlega 55 dagar á milli ykkar systra. Þú varst mín stoð og stytta í gegnum útför mömmu, hélst í hönd mína og studdir mig, nú mun ég ekki einu sinni vera viðstödd þína útför. Ég vildi virkilega vera þar, það veist þú best af öllum, við áttum svo gott samtal fyrir nokkrum vikum síðan. Ég get bara ekki gengið í gegnum þá raun sem einangrunin á Íslandi hefur í för með sér. – Það veist þú. En ég mun sitja hérna megin Atlantshafsins og fylgjast með útförinni.

Þú varst mér alltaf svo góð – svona extra mamma, þær voru ófáar útilegurnar sem við fjölskyldurnar fórum saman, meira að segja eftir að við Bjarki byrjuðum að vera saman, þá var skundað í Galtalæk með mismikið óvelkomið öl með. Sterkar í minningunni eru líka allar ferðirnar í Þorlákshöfn, veðurspáin kannski ekki alltaf jafn bjartsýn og pabbi var, en þá var bara gist hjá ykkur í þær nætur sem þurfti til að komast heim - eftir að hafa kannski þurft tog-hjálp í þrengslunum, þetta var fyrir Suðurstrandarveginn.

Búðin þín, litla og sæta, með öllu sem litlum stelpum fannst spennandi. Að koma austur og fá að fara í búðina og skoða allt og stundum kaupa eitthvað eða ef þú gafst okkur eitthvað – bara frábært.

Eftir Suðurstrandarveginn er mér svo sterkt í huga eitt skipti þegar ég var í heimsókn hjá mömmu, þetta var þegar mamma átti enn þá bíl, þá sagði hún að hún hefði ekki farið austur í ár og daga. Þá ákváðum við bara að skella okkur í heimsókn og fara Suðurstrandarveginn. Kári var að vísu á sjó en þið Anna Magga voruð heima. Að sjálfsögðu tekið á móti okkur með skonsum og með þeim, einhverra hluta vegna þróaðist umræðan út í stærð, já eða smæð, á fólki, við mældum okkur allar, svo kom Tómas heim frá sjónum og skemmdi allt þar sem hann var svo langur.

Mikið óskaplega á eftir að vera tómt hjá Kára okkar, hann sem hugsaði svo vel um þig, hann var jú á sjúkrahúsi þegar útför mömmu var en þá hoppaði Tómas beint í skarðið, þið voruð og eruð svo heil sem fjölskylda, allir hugsa vel um alla.

Hér er kveikt á tveimur kertum allan sólarhringinn, englakertin fyrir ykkur tvær sem kvödduð með svo stuttum fyrirvara, þið eruð samt þrjár englasystur sem allar voru mér svo kærar, fyrir aftan kertin er mynd af ykkur þremur, þið áttuð líka bræður sem farnir eru. Fyrir mér er heil kynslóð farin sem var mér svo góð. Mamma sem var mér allt og hugsaði svo vel um stelpurnar, Björk sem var aukamamma fyrir mér, hún hugsaði líka vel um Matthildi og Guðnýju áður en þær fóru á leikskóla, og svo Jóhanna sem var gleðipinninn í hópnum.

Mig langar að skrifa mikið meir þar sem minningarnar eru óteljandi, eins og þegar Bjarki sagði mömmu sinni frá því að þú hefðir kvatt, þá kom strax upp hvað það var gaman þegar við vorum í Húsgagnahöllinni og hittum ykkur Kára og Önnu Möggu þar.

Þú varst svo góð við ömmu og afa, og já bara alla, þú varst best!

Kveðja frá

Kolbrúnu (Kollu) í Svíþjóð.