Skýr skilaboð um ábyrgð á húsnæði í útleigu

Loks var hafist handa í vikunni við að rífa brunarústir hússins á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu. Þær hafa staðið nánast óhreyfðar frá eldsvoðanum í fyrrasumar og hafa verið blettur á hverfinu auk þess að vera dapurleg áminning um harmleikinn, sem þar átti sér stað.

Þrír fórust í eldsvoðanum, sem var vegna íkveikju, en í skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá því í desember um brunann kemur fram að meginástæða þess að eldsvoðinn hafi verið jafnskæður og raun bar vitni hafi verið ástand hússins og lélegar brunavarnir.

Í vikunni féll einnig dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem eigandi starfsmannaleigunnar 2findjob var dæmdur til fimm mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir óviðunandi aðbúnað í húsnæði við Smiðshöfða, sem hann leigði starfsmönnum á sínum snærum. Lífi 24 erlendra verkamanna hefði verið stefnt í bráða hættu. Sakborningurinn hefði hvorki fengið tilskilin leyfi né gert nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja brunavarnir. Eftir lýsingunni að dæma var húsnæðið brunagildra.

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, var ómyrkur í máli þegar hann var spurður um dóminn.

„Því miður rifjast atburðurinn á Bræðraborgarstíg upp þegar maður les þennan dóm. Hann undirstrikar þá miklu ábyrgð sem eigendur bera þegar þeir leigja út húsnæði til þriðja aðila,“ sagði Jón Viðar í samtali við Morgunblaðið í gær. Bætti hann við að dómurinn, sem væri sá fyrsti sinnar tegundar hér á landi, sendi skýr skilaboð um ábyrgð eigenda.

Í frétt Morgunblaðsins í gær sagði að mál eigenda hússins við Bræðraborgarstíg væri enn til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Jón Viðar sagði að fleiri mál sambærileg við Smiðshöfðamálið kynnu að fara fyrir dóm á næstunni. Slökkviliðið hefði á sínum tíma skilað inn þremur málum og tvö önnur væru í farvegi. „Oft er beðið með mál til að fá fram fordæmi og síðan koma hin í kjölfarið,“ segir hann.

Nokkrum sinnum hefur verið ráðist í að kortleggja búsetu í óleyfilegu húsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Ávallt hefur komið í ljós að ástandið er óviðunandi. Það gengur ekki að þúsundir manna búi í húsnæði þar sem öryggi er virt að vettugi.

Á Smiðshöfða gistu verkamenn í svefnkössum án tilskilinna leyfa og voru engin brunahólf, flóttaleiðir ófullnægjandi og svo framvegis.

Á Bræðraborgarstíg voru herbergin mun fleiri en samþykkt var og hvert þeirra að auki í útleigu. Húsnæðið var skráð sem íbúðarhúsnæði, en virðist hafa verið gistiheimili, sem hefði kallað á öflugri brunavarnir. Þá hefði einnig fylgt eftirlitsskylda, en ekki var tilkynnt um breytingar á húsinu og því var ekkert eftirlit.

Síðast var gerð úttekt á óleyfisíbúðum á höfuðborgarsvæðinu árin 2017 og 2018. Þá kom í ljós að fimm til sjö þúsund manns bjuggu í 1.500 til 2.000 óleyfisíbúðum og hafði óleyfisbúseta aukist um 84% frá árinu 2008. Í haust verður ráðist í að kortleggja stöðuna að nýju og er engin ástæða til að ætla að mikil breyting hafi orðið.

Slökkviliðið hefur lengi hvatt til þess að tekið yrði á þessum málum. Það er hörmulegt að atburð eins og brunann við Bræðraborgarstíg skuli þurfa til að það gerist. Nefnd á vegum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar með Jón Viðar innan borðs skilaði fyrr á árinu tillögum að úrbótum. Þar er lagt til að íbúðarhúsnæði megi ekki taka í notkun nema úttekt hafi verið gerð á öryggi og eftirlit með brunavörnum tryggt.

Endurskoða þarf eftirlitshlutverk og ábyrgð húseigenda til að tryggja öryggi og koma í veg fyrir að mannslífum sé stefnt í hættu vegna þess að brunavörnum er áfátt.