Í Ramskram Eva Schram sýnir lokaerindi sjónljóðsins Ortu.
Í Ramskram Eva Schram sýnir lokaerindi sjónljóðsins Ortu.
Sýning skáldsins og myndlistarmannsins Evu Schram, Orta III , verður opnuð í Ramskram Gallery að Njálsgötu 49 í Reykjavík í dag. Verður þar flutt þriðja og síðasta erindi sjónljóðsins Ortu , eins og segir í tilkynningu.

Sýning skáldsins og myndlistarmannsins Evu Schram, Orta III , verður opnuð í Ramskram Gallery að Njálsgötu 49 í Reykjavík í dag. Verður þar flutt þriðja og síðasta erindi sjónljóðsins Ortu , eins og segir í tilkynningu. Fyrsta erindi sjónljóðsins var flutt í Ljósmyndasafni Reykjavíkur sem útskriftarverk Evu frá Ljósmyndaskólanum og annað erindið á einkasýningu hennar í Núllinu Gallery undir Bankastræti. Þriðja erindið samanstendur af níu myndum og einnig vídeóverki.

„Í Ortu dvelur Eva á mörkum ljóð- og myndlistar. Hún er skuldbundin tveimur listformum sem eiga dulúðina sameiginlega. Fegurð ljóðsins felst í hinu óorðaða og óútskýrða og hið sama gildir um myndlistina. Orta er persónulegt verk sem segir sögu án þess styðja sig við línulega frásögn. Efniviðurinn er ekki síst samband Evu við föður sinn. Bæði standa feðginin á tímamótum. Eva kveður föður sinn sem er að glata minninu og hverfa inn í eigin huga en sjálfur kveður hann lífið sem hann áður þekkti og skildi,“ segir í tilkynningu og að samtímis séu Evu hugleikin tengslin milli kynslóða, hvað flétti þær saman og hvað togi þær í sundur.

„Hvernig mætast þær og hvernig kveðjast þær. Það er ekki hægt að fyllilega skilja tengslin eða útskýra tímamótin, en það er hægt að skynja þau. Skynjunin kemur á undan skilningnum, og skynjunin lifir skilninginn. Verkið er leit eftir því að sættast við missinn og umkomuleysið sem felst í nándinni og ástinni. Við varðveitum tilfinningar okkar ekki með því að skilgreina þær, heldur með því að finna fyrir þeim. Öll sem elska þurfa að standa á tímamótum, og þurfa einhvern tímann að vera í kafaldsbyl og þoku. Það er áttleysið sem gerir hlutskipti manneskjunnar ljóðrænt. Hver einasta manneskja er ljóð,“ segir í tilkynningunni og að Eva sæki innblástur í kveðskap Steins Steinars.

Opnunin verður í dag kl. 17.