Hans Joensen í Líðini var fæddur í Vági á Suðuroy í Færeyjum 19. janúar 1955. Hans lést í Kaupmannahöfn 6. júní 2021.

Hann lauk skipstjórnarprófi frá Föroya Sjómannaskúla árið 1979 og var eftir það skipstjóri á færeyskum og grænlenskum togurum fram yfir aldamót. Þegar hann síðan fer í land árið 2003 stofnar hann og gerist framkvæmdastjóri fyrirtækisins Rock Trawldoors í Vági. Hans var mjög virkur í félagsmálum í Vági og kom að fjölda framfaramála byggðarlagsins. Eftirlifandi eiginkona hans er Margrét Joensen í Líðini frá Norðfirði. Þau eignuðust dæturnar Karinu, Guðrúnu og Thildu. Útför hans fer fram í Vági á morgun, sunnudaginn 13. júní 2021.

Lítil byggð í Færeyjum, Vágur á Suðuroy, er harmi slegin. Einn besti sonur byggðarinnar er horfinn á braut. Hans í Líðini var kletturinn í hafinu, allt í öllu í að byggja upp og skapa. Eftir farsælan skipstjóraferil þar sem hann sótti sjóinn við Færeyjar, Ísland, Grænland og Kanada, vel þekktur af sjómönnum þessara landa, hefst ótrúlegur ferill hans í Vági árið 2003. Í heimi togara um víða veröld eru færeysku Rock-toghlerarnar þekktir (f. Rock trollemmar). Allir sem hafa slakað Rock-hlerum í hafið vita að á bak við þá stendur nafnið Hans í Líðini, maðurinn sem vissi hvað toghlerar eru mikilvæg tæki til að tryggja að allt annað virki. Þess vegna treysta skipstjórar í fimm heimsálfum Rock-hlerum framleiddum í 1.400 manna byggð á syðstu eyju Færeyja.

Þó að þetta eitt nægði til að halda nafni Hans í Líðini á lofti fór því víðs fjarri að hann léti það nægja. Hann var virkur þátttakandi í að gera heilnæmt vatn Suðuroyar að útflutningsvöru, ein af driffjöðrum þess að byggja í Vági sundhöll sem er ótrúlegt mannvirki og jafnast á við þær bestu á öllum Norðurlöndum byggt fyrir þriðjung af áætluðu kostnaðarverði með mikilli sjálfboðavinnu og örlátum framlögum margra. Lionsmenn í Lionsklúbbi Suðuroyar þekkja vel hvernig Hans í Líðini hafði forystu um að umbreyta verðlitlu kjöti í milljóna verðmæti sem gerði klúbbnum kleift að vera sú hjálpandi hönd sem honum er ætlað. Að gera djásn úr skútunni Jóhönnu TG 326, byggðri á Englandi árið 1884, var eitt af verkum hans og mikið stolt. Önnur áhugamál hans voru listmálun, söngur í kórum og ekki síst sú aldagamla hefð þjóðarinnar að eiga kindur í túni.

Það voru okkar forréttindi að fá að kynnast Hans í Líðini. Hann sýndi okkur, eins og íslenskum sjómönnum áður, fram á að þegar Íslendingar og Færeyingar ræða saman þá talar hvor sitt tungumál og það „gengur fínt“ eins og hann orðaði það.

Að leiðarlokum viljum við þakka þá ógleymanlegu gestrisni sem við nutum á fallegu heimili hans og Margrétar, hans indælu íslensku eiginkonu frá Norðfirði, er við heimsóttum Suðuroy á afmælishátíð Lionsklúbbs Suðuroyar. Við sendum Margréti, dætrum þeirra Karinu, Guðrúnu og Thildu og öðru venslafólki innilegar samúðarkveðjur. Þeirra missir er mestur en samfélagið allt í Vági og á Suðuroy syrgir þennan góða dreng. Megi góður Guð varðveita minningu allra þeirra verka sem Hans í Líðini skilur eftir.

Ólafur Bjarni Halldórsson og

Salbjörg Jósepsdóttir.