Árásirnar á Tvíburaturnana 11. september 2001 var augljós áminning fyrir Bandaríkjamenn um að dauðinn getur látið á sér kræla án nokkurs fyrirboða. Í kjölfarið varð George W. Bush forseti gríðarlega vinsæll.
Árásirnar á Tvíburaturnana 11. september 2001 var augljós áminning fyrir Bandaríkjamenn um að dauðinn getur látið á sér kræla án nokkurs fyrirboða. Í kjölfarið varð George W. Bush forseti gríðarlega vinsæll. — Reuters
Öll vitum við að við munum einn daginn deyja. Það er einfaldlega ein af staðreyndum lífsins sem flestir hafa sætt sig við.

Öll vitum við að við munum einn daginn deyja. Það er einfaldlega ein af staðreyndum lífsins sem flestir hafa sætt sig við. Af hverju ætli fólk líki þá betur við samlanda sína, verr við útlendinga, keyri hraðar, taki meiri áhættu, refsi af meiri hörku og verðlauni betur þegar það er minnt á þessa saklausu staðreynd? Böðvar Páll Ásgeirsson bodvarpall@mbl.is

Árið 2016 var hópur fólks í Bandaríkjunum beðinn um að skrifa niður hugleiðingar sínar um dauða sinn og dauðleika. Annar hópur leysti svipað verkefni er varðaði sársauka, ekki dauða. Eftir á var fólk í fyrri hópnum líklegra til að sýna neikvætt viðhorf til innflytjenda, vera á móti byggingu mosku í hverfi þess og styðja Donald Trump sem þá bauð sig fram sem forseta gegn Hillary Clinton. Hvað í ósköpunum getur útskýrt þessar niðurstöður?

Sköpum okkur tilgang

Sheldon Solomon var ungur sálfræðiprófessor þegar hann fyrir slysni rakst á bók mannfræðingsins Ernest Becker, The Denial of Death , sem hlaut hin virtu Pulitzer-verðlaun í flokki fræðibóka árið 1974. Í bókinni færir Becker rök fyrir því að siðmenning manna hafi verið sett á fót til að vernda fólk gegn hugsunum um dauðann. Solomon varð heltekinn af kenningu Beckers og benti tveimur öðrum ungum sálfræðingum á verk hans, þeim Tom Pyszczynski og Jeff Greenberg.

Eftir að hafa legið yfir skrifum Beckers í nokkurn tíma settu þeir Solomon, Pyszczynski og Greenberg fram kenningu sína byggða á skrifunum sem síðar hlaut nafnið óttastjórnunarkenningin (e. terror management theory). Í bók sinni, The Worm at the Core , frá árinu 2015 ræða þeir félagar kenninguna og áralanga rannsóknarvinnu sem rennir stoðum undir hana.

Í kenningunni gera höfundarnir ráð fyrir að vegna vitneskju okkar um að við munum einn daginn deyja höfum við tekið ástfóstri við sameiginlega menningarlega heimssýn sem kemur í veg fyrir að við metum líf okkar sem tilgangslaust. Í gegnum þessa heimssýn sjáum við okkur sem hluta af stærra samhengi sem, ólíkt okkur, hverfur ekki eftir dauða okkar. Líf okkar og við sjálf höfum því tilgang.

Augljósasta dæmið um þetta er hugmyndin um líf eftir dauðann sem finna má í einhverju formi í nánast öllum trúarbrögðum. En önnur samfélagsleg gildi, jafnvel þau sem hafa lítið sem ekkert að gera með dauðann, sinna þessu hlutverki einnig. Þar má nefna þjóðarstolt, kynjahlutverk og þá hugmynd að við lifum áfram í gegnum afkomendur okkar.

Dauðinn og þjóðernishyggja

Solomon og félagar settu saman vísindagrein þar sem þeir útlistuðu kenninguna en henni var hafnað af hverju einasta sálfræðiriti sem þeir reyndu við. Ástæðan var einföld: þeir höfðu, ekki frekar en Becker á undan þeim, engin gögn sem bentu til þess að þeir hefðu rétt fyrir sér. Kenningin, sama hversu góð hún var, var einungis byggð á innsæi og rökfærslu. Tilrauna sem prófuðu kenninguna var þörf. Í þeirri fyrsta voru ákvarðanir dómara í dómsmálum skoðaðar. Einn hópur dómara var minntur á dauðleika sinn, annar ekki. Allir dómararnir voru svo beðnir um að skoða upplýsingar um konu sem var ásökuð um vændi og kveða upp peningaupphæð sem konan þyrfti að leggja út til að sleppa við fangelsisvist þar til farið yrði með mál hennar fyrir dóm. Þeir sem voru minntir á dauðleika sinn kváðu upp tryggingu sem var að meðaltali níu sinnum hærri en þeir sem voru það ekki. Þegar dómararnir voru spurðir sögðu þeir útilokað að hugsanir um dauðann gætu haft áhrif á dómgreind þeirra.

Hvernig tengist þetta óttastjórnunarkenningunni? Jú, þegar dómararnir hugleiddu dauðleika sinn var varnarviðbragð þeirra að halda fastar í þau samfélagslegu gildi sem þeir nota til að verja sig gegn hugsunum um dauðann. Dómararnir litu svo á að vændi bryti gegn þessum gildum og því voru þeir reiðubúnari en ella til að refsa konum sem stunda vændi þegar þeir höfðu hugann við dauðann.

Til að renna sterkari stoðum undir kenningu sína gerðu Solomon og félagar aðra tilraun. Aftur var einn hópur minntur á dauðleika sinn, annar ekki. Því næst las fólk grein um mann sem komið hafði í veg fyrir bankarán og var spurt hversu hárri fjárhæð ætti að verðlauna manninn með. Hópurinn sem var minntur á dauðann lagði að meðaltali til þrisvar sinnum hærri upphæð en hinn. Fólk sem hafði nýlega hugleitt dauðann vildi frekar verðlauna þá sem sýndu af sér hegðun sem var í samræmi við þeirra samfélagslegu gildi.

Fleiri rannsóknir eru í samræmi við kenninguna. Í einni þeirra voru Þjóðverjar annaðhvort stöðvaðir fyrir framan útfararstofu þar sem stundum mátti sjá smurð lík í gluggunum eða 100 metra frá henni. Þeir sem voru stöðvaðir fyrir framan útfararstofuna vildu frekar kaupa þýska matvöru, stitja nær öðrum Þjóðverjum og fjær tyrkneskum innflytjendum.

Deyjum því við hræðumst dauðann

Innan heimssýnar okkar eru því ákveðin gildi sem við og aðrir í kringum okkur meta sem mikilvæg og við höldum fastar í þessi gildi þegar við erum minnt á dauðleika okkar. Þar sem sjálfsmynd okkar er skilgreind út frá því hversu vel okkur finnst við falla að þeim gildum sem við metum mikilvæg liggur beinast við að við reynum að bólstra sjálfsmyndina þegar við erum minnt á dauðleikann.

Þessi rökfærsla hefur verið prófuð með rannsóknum. Ein slík skoðaði akstur ísraelskra hermanna eftir að þeir höfðu verið minntir á dauðleika sinn. Þeir hermenn sem byggðu sjálfsmynd sína á því hversu góðir þeir væru að keyra keyrðu hraðar og af meiri glannaskap. Önnur rannsókn sýndi að þeir sem meta hæfileika sína í körfubolta mikils hitta frekar úr vítaskotum eftir að hafa hugsað um dauðleika sinn. Enn ein rannsóknin sýndi að kafarar sem kafa án súrefniskúts eru tilbúnir að kafa í verra veðri og halda lengur í sér andanum hugsi þeir um dauðann áður.

Rannsóknirnar á köfurunum og ísraelsku hermönnunum sýna að hugsanir um dauðann leiða ekki endilega til hegðunar sem kemur í veg fyrir að við deyjum. Hegðunin snýr að því að koma í veg fyrir að hugsanir um dauðann, og hræðslan sem þeim fylgir, læðist að. Stundum aukum við því líkur okkar á því að deyja til að forða okkur frá þeirri óþægilegu tilhugsun sem dauðinn er.

Náðarvald undir ógn dauðans

En hvað með Trump? Af hverju er hann vinsælli hjá þeim sem hafa verið minntir á dauðleika sinn? Í kenningu Solomons og félaga er gert ráð fyrir að leiðtogar sem búa yfir því sem félagsfræðingurinn Max Weber kallaði náðarvald séu vinsælli hjá fólki sem hefur verið minnt á dauða sinn. Slíkir leiðtogar leiða hóp fólks sem er svo hrifið af þeim að það eignar þeim jafnvel yfirnáttúrulega hæfileika.

George W. Bush, þáverandi forseti Bandaríkjanna, varð gríðarlega vinsæll meðal landa sinna eftir hryðjuverkaárásirnar á Tvíburaturnana 11. september 2001 og sömu sögu má segja um Donald Trump, þáverandi forsetaframbjóðanda, eftir árásirnar í París í nóvember 2015.

Auðvitað eru ekki allir sammála um hversu stórt hlutverk hræðsla okkar við dauðann spilar í lífi okkar. Margir mótmæla og segjast ekki hugsa um dauðleika sinn dags daglega. Af ofantöldu er þó ljóst að þessi hræðsla hefur mun meiri áhrif en margan grunar.