Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is „Auðvitað vonumst við eftir auknum skilningi og mannúð en við erum líka raunsæ og stillum væntingum í hóf.

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

„Auðvitað vonumst við eftir auknum skilningi og mannúð en við erum líka raunsæ og stillum væntingum í hóf.“

Þetta segja Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar, og Grímur Atlason, framkvæmdastjóri samtakanna, um viðbrögð geðheilbrigðiskerfisins við ábendingum Geðhjálpar um mannréttindabrot í kerfinu.

Að þeirra áliti er kerfið allt of flókið og samspil milli ríkis og sveitarfélaga ekki nógu gott.

„Við sem lögðumst inn á geðdeild seint á síðustu öld erum sammála um að staðan sé verri í dag og allt of oft sett samasemmerki milli þess að vera geðsjúkur og hættulegur. Á meðan líkurnar á því að maður með alvarlegan geðsjúkdóm beiti ofbeldi eru lítillega meiri en aðrir þá eru tíu sinnum meiri líkur á því að sá hinn sami verði sjálfur beittur ofbeldi. Og við skulum muna að allt líf í þessum heimi þrífst og mótast af þeim aðstæðum sem það býr við,“ segir Héðinn.

Umræðan um geðheilbrigðiskerfið á Íslandi þarf að þeirra dómi að fara fram á breiðum grunni, ekki síst um hlutfall samfélagsþjónustu samhliða spítalaþjónustu enda hljóti það ávallt að vera markmiðið að hámarka lífsgæði notenda kerfisins og nýta opinbera fjármuni sem best.

„Nóttin á geðsviði kostar hvern einstakling nú um 150.000 kr. samkvæmt því sem ég heyri innan úr kerfinu. Þessi umræða þarf að fara fram og við verðum að taka allt til samtals og meðferðar. Það vantar heildstæða umræðu um kerfið. Það getur ekki verið eðlilegt að kerfið skili alltaf fleiri og fleiri öryrkjum og lyfjanotkun færist í vöxt,“ segir Héðinn.

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.


Nauðung úrelt
» Vald, þvingun og nauðung þykja ekki lengur boðleg í geðlækningum, að dómi Geðhjálpar.
» „Það er auðvitað útópísk pæling að slíku verði aldrei beitt en það á svo sannarlega að vera undantekningin,“ segir Grímur.
» Nauðungarvistun og valdbeiting getur hæglega leitt til áfallastreituröskunar.