Jakkar á allar kynslóðir Þorsteinn E. Arnórsson, safnstjóri Iðnaðarsafnsins, með jakka sem Elín Sigríður Axelsdóttir frá Ásláksstöðum í Hörgársveit saumaði úr Gefjunarefni á son sinn, Þórð Ingimarsson, þegar hann var þriggja ára árið 1952. Sýningin Terra fyrir herra er til heiðurs Jóni E. Arnþórssyni, sem hóf söfnun iðnminja á Akureyri árið 1993, en mynd af Jóni er á veggnum fyrir aftan Þorstein.
Jakkar á allar kynslóðir Þorsteinn E. Arnórsson, safnstjóri Iðnaðarsafnsins, með jakka sem Elín Sigríður Axelsdóttir frá Ásláksstöðum í Hörgársveit saumaði úr Gefjunarefni á son sinn, Þórð Ingimarsson, þegar hann var þriggja ára árið 1952. Sýningin Terra fyrir herra er til heiðurs Jóni E. Arnþórssyni, sem hóf söfnun iðnminja á Akureyri árið 1993, en mynd af Jóni er á veggnum fyrir aftan Þorstein. — Morgunblaðið/Margrét Þóra
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sýningin Terra fyrir herra verður opnuð á Iðnaðarsafninu á Akureyri á þjóðhátíðardaginn 17. júní og er þar vísað í slagorð saumastofu Gefjunar sem framleiddi vinsælan herrafatnað á sinni tíð.

Margrét Þóra Þórsdóttir

Akureyri

Sýningin Terra fyrir herra verður opnuð á Iðnaðarsafninu á Akureyri á þjóðhátíðardaginn 17. júní. Terra fyrir herra var slagorð fyrrum saumastofu Gefjunnar, sem var ein af verksmiðjum Sambandsins á Akureyri. Sýningin sem er inni í almennri sýningu safnsins er sett upp til að heiðra minningu Jóns S. Arnþórssonar frumkvöðuls og stofnanda Iðnaðarsafnsins. Síðar á þessu ári verða 90 ár liðin frá fæðingu Jóns. Hann lést árið 2011.

„Við ákváðum að þema þessarar sýningar yrði tengt framleiðsluvörum saumastofunnar Gefjunar, en fyrstu störf Jóns fyrir Sambandið voru einmitt þar,“ segir Þorsteinn E. Arnórsson safnstjóri Iðnaðarsafnsins. Á sýningunni má sjá karlmannafatnað, jakkaföt, frakka og fleira.

Jón gegndi síðar ýmsum störfum fyrir Sambandið, var m.a. sölustjóri og markaðsfulltrúi og eins var hann fulltrúi forstjóra, deildarstjóra og verksmiðjustjóra. Hann var framkvæmdastjóri iðnsýningar samvinnumanna á árunum 1957 til 1973 og sá um verkefnið Handverk heimilanna sem síðar varð að Hugmyndabankanum.

Útibú stofnað í Reykjavík

Á Gefjun var framleitt fataefni og í þó nokkuð stórum stíl þegar umsvifin voru mest, en einnig teppi og allt band. Þorsteinn segir að á saumastofunni hafi verið saumuð herraföt, jakkaföt, frakkar og stakar buxur.

„Þessi fatnaður naut mikilla vinsælda á sinni tíð, þeir voru ansi margir karlarnir sem klæddust þessum fötum“ segir hann, en sem dæmi um vinsældir fatnaðarins má nefna að útibú frá saumastofu Gefjunar á Akureyri var sett upp í Reykjavík.

Slagorðið Terra fyrir herra var notað um tíma, „ekki mjög lengi, en það má sjá þetta slagorð inni í flíkum sem saumaðar voru á ákveðnu tímabili. Okkur þótti upplagt að nota þetta sem heiti sýningarinnar,“ segir Þorsteinn.

Fékk fálkaorðuna

Jón var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2009 fyrir framlag til varðveislu íslenskrar verkkunnáttu og safnamenningar. Hann hóf markvisst að safna saman munum sem tengdust verksmiðjurekstrinum árið 1993. Iðnaðarsafnið var stofnað fáum árum síðar, á þjóðhátíðardaginn 17. júní árið 1998. Það var í fyrstu til húsa í fyrrum fataverksmiðju Heklu á Gleráreyrum en flutti síðar í Sjafnarhúsið við Austursíðu þar sem það hafði um 300 fermetra sýningar- og geymsluhúsnæði til umráða. Jón og eiginkona hans, Gisela Rabe-Stephan, báru lengi framan af hita og þunga af rekstri safnsins og ráku það á eigin vegum með styrkjum.

Núverandi húsnæði Iðnaðarsafnsins er við Krókeyri 6 þar sem áður var áhaldahús umhverfisdeildar Akureyrarbæjar. Þangað flutti safnið árið 2004 og var um leið gert að sjálfeignarstofnun.