Tómas Láruson
Tómas Láruson
Jóna og Sigrún voru nýkomnar heim úr mánaðarlega sunnudagsrápinu sínu. Þær fara í Kringluna eða Smáralind og svo eru Costco og Ikea heimsótt inn á milli. Gunnar er með aðra rútínu. Fer til Svans, eða Villa eins og flestir kalla hann.

Jóna og Sigrún voru nýkomnar heim úr mánaðarlega sunnudagsrápinu sínu. Þær fara í Kringluna eða Smáralind og svo eru Costco og Ikea heimsótt inn á milli. Gunnar er með aðra rútínu. Fer til Svans, eða Villa eins og flestir kalla hann. Villi er með í Kolaportinu „Grams og gæðadót“. Stundum dettur Gunnar á nýtilegt verkfæri en mestur tíminn fer í spjall við Svan. Þrennt kaupir hann í þessum Kolaportsferðum. Í mörg ár hefur hann keypt kleinur frá Kökugerð HP á Selfossi, en nú sér Depla um söluna. Hjá Deplu fær hann líka hákarl og hrossakjöt, ýmist hrossabjúgu eða saltað. Hann keypti hrossasperðla í þetta sinn. Mæðgurnar sátu með kaffibolla við eldhúsborðið. Gunnar breytti ekki út af vananum með mjólkurglas og nýkeypta kleinu.

Þær voru að tala um ellilaunaskerðinguna. Jóna var búin að finna út að í ellilaun fengju ömmur landsins rúmlega 210 þúsund krónur á mánuði, en afarnir um 185 þúsund í miðgildi, samkvæmt ellilífeyrismælaborðinu á vefsíðu TR. Ömmurnar hafa þá líklega í lífeyristekjur á mánuði um 100 þúsund krónur. Afarnir hafa væntanlega samsvarandi 160 þúsund.

Afar landsins (karlar) sem fá ellilaun voru, samkvæmt ársskýrslu TR, 15.380 árið 2019. „Tryggingastofnun lækkar ellilífeyrinn þeirra þá, samkvæmt mælaborðinu, um rúmlega einn komma þrjá milljarða á mánuði. Hjá ömmunum er það eitthvað lægra, í miðgildi.“ Jóna gerði svona gæsalappamerki með fingrunum og hló. „Á ársgrundvelli er þetta í nánd við samsvarandi fjármuni og framlag úr ríkissjóði er til lífeyrisskuldbindinga. Ellilífeyrir er skertur um 45% af lífeyrissjóðstekjum skjólstæðinga TR og notaður til að greiða lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs við opinbera starfsmenn. Ríkissjóður nær með tekjuskatti til viðbótar allt að 80% af ellilífeyrinum inn í ríkissjóð aftur. Þetta eru snilldarmillifærslukúnstir.“ Mæðgurnar skellihlógu að þessum brellum. Gunnar hristi hausinn. „Þú getur ekki stillt þessum tölum svona upp, elskan mín, og því síður hlegið að því og sagt vera bókhaldsbellibrögð.“

Tómas Láruson.