Hetjan Einar Þorsteinn Ólafsson horfir á eftir Hákoni Daða Styrmissyni sem skoraði tíu mörk í leiknum á Hlíðarenda í gærkvöld.
Hetjan Einar Þorsteinn Ólafsson horfir á eftir Hákoni Daða Styrmissyni sem skoraði tíu mörk í leiknum á Hlíðarenda í gærkvöld. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handboltinn Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Einar Þorsteinn Ólafsson tryggði Valsmönnum sæti í úrslitaeinvíginu gegn Haukum um Íslandsmeistaratitil karla í handknattleik í dramatískum leik Vals og ÍBV á Hlíðarenda í gærkvöld.

Handboltinn

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Einar Þorsteinn Ólafsson tryggði Valsmönnum sæti í úrslitaeinvíginu gegn Haukum um Íslandsmeistaratitil karla í handknattleik í dramatískum leik Vals og ÍBV á Hlíðarenda í gærkvöld.

Valsmenn unnu fyrri leikinn í Eyjum, 28:25, en þeir voru undir, 27:29, og Eyjamenn með boltann í lokasókninni. Mark hefði komið ÍBV í úrslitaeinvígið en Einar Þorsteinn gerði sér lítið fyrir og komst inn í sendingu Eyjamanna og eyðilagði fyrir þeim sóknina og möguleikann á að senda Valsmenn í sumarfríið.

Einar á ekki langt að sækja handboltahæfileikana en hann er sonur Ólafs Stefánssonar , besta handboltamanns Íslandssögunnar.

Þar með eru það Valur og Haukar sem leika til úrslita og fyrri úrslitaleikurinn fer fram á Hlíðarenda á þriðjudaginn kemur en sá seinni, þar sem úrslitin ráðast, fer fram á Ásvöllum næsta föstudagskvöld.

Eyjamenn virtust vera með pálmann í höndunum þegar þeir náðu boltanum á lokamínútunni. Endurtekið efni frá FH-hasarnum í átta liða úrslitunum virtist í uppsiglingu. En augnablikshik varð þeim að falli, Einar nýtti sér það, náði af þeim boltanum og skaut yfir allan völlinn – í stöngina og út. Það skipti ekki máli, Valsmenn stigu stríðsdans en Eyjamenn voru úr leik.

* Finnur Ingi Stefánsson skoraði 6 mörk fyrir Val, Róbert Aron Hostert 5 og Anton Rúnarsson 4.

* Hákon Daði Styrmisson skoraði 10 mörk fyrir ÍBV, Kári Kristján Kristjánsson 6 og Theodór Sigurbjörnsson 4.

Stjarnan vann upp forskotið

Haukar lentu í miklu basli með Stjörnuna á Ásvöllum þrátt fyrir að mæta til leiks með fimm marka forskot eftir sigur, 28:23, í fyrri leiknum í Garðabæ.

Stjörnumenn unnu forskotið upp fyrir hlé þegar þeir skoruðu sjö mörk í röð og komust í 15:10. Enn munaði fimm mörkum laust fyrir miðjan síðari hálfleik, 22:17, en Haukar náðu þá að jafna metin í 24:24. Stjarnan komst aftur þremur mörkum yfir en Haukar héldu sínum hlut naumlega.

* Björgvin Páll Gústavsson varði 17 skot í marki Hauka. Brynjólfur Snær Brynjólfsson skoraði 6 mörk og þeir Darri Aronsson og Stefán Rafn Sigurmannsson 4 hvor.

* Tandri Már Konráðsson skoraði 10 mörk fyrir Stjörnuna, Starri Friðriksson 6 og þeir Björgvin Þór Hólmgeirsson og Leó Snær Pétursson 4 hvor.