Réttar- og öryggisgeðdeildir Landspítalans eru til húsa á Kleppi.
Réttar- og öryggisgeðdeildir Landspítalans eru til húsa á Kleppi. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Geðhjálp segir pott víða brotinn í geðheilbrigðiskerfinu og hefur komið ábendingum á framfæri við þar til bæra aðila.

Geðhjálp segir pott víða brotinn í geðheilbrigðiskerfinu og hefur komið ábendingum á framfæri við þar til bæra aðila. Héðinn Unnsteinsson formaður samtakanna og Grímur Atlason framkvæmdastjóri þeirra settust niður með Sunnudagsblaðinu til að gera nánari grein fyrir þessum brotalömum og ræða hvað sé til ráða. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Stjórn landssamtakanna Geðhjálpar sendi í vikunni fjölmiðlum og Alþingi bréf með ábendingum sínum vegna þess sem hún lítur á sem mannréttindabot í heilbrigðiskerfinu. Tilgreind eru fjögur atriði.

Í fyrsta lagi veltir Geðhjálp fyrir sér getu landlæknisembættisins til að sinna eftirliti með heilbrigðisstofnunum.

Í öðru lagi hefur Geðhjálp áhyggjur af viðbrögðum stjórnenda Landspítalans vegna gagnrýnna ábendinga sem settar hafa verið fram um starfsemi móttöku-, öryggis- og réttargeðdeilda spítalans.

Í þriðja lagi leggur Geðhjálp til að kannað verði hvernig fyrirbyggja megi mannréttindabrot og lögbrot gagnvart notendum geðheilbrigðisþjónustu.

Og í fjórða lagi velta samtökin því upp, hvort öryggis- og refsimenning innan geðsviðsins hafi, á kostnað mannúðar og skilnings, litað þróun og hugmyndafræði þjónustunnar á liðnum árum og geri enn.

Forsaga málsins er sú að í nóvember á síðasta ári leituðu fimm þáverandi og fyrrverandi starfsmenn öryggis- og réttargeðdeilda Landspítalans á fund Geðhjálpar. „Þeir sögðu frá alvarlegum atvikum í starfsemi deildanna gagnvart notendum þjónustunnar er, að mati lögfræðings Geðhjálpar o.fl., kunna varða við hegningarlög. Starfsmennirnir lýstu einnig skoðunum sínum og undrun á utanumhaldi mannauðsmála á geðsviði spítalans og að á þá væri ekki hlustað. Vegna þessa leituðu þeir til Geðhjálpar þar sem ítrekaðar ábendingar þeirra um árabil hefðu ekki skilað neinum árangri hvorki hjá geðsviðinu né innan stéttarfélaga. Það að starfsfólk, bæði fyrrverandi og núverandi, skyldi leita til samtaka eins og Geðhjálpar kom okkur svolítið á óvart en segir sína sögu um mögulega viðbragðsþurrð innan kerfisins,“ segir í bréfinu.

Takmörkuð viðbrögð

Geðhjálp tók í framhaldinu saman greinargerð um málið og sendi til yfirstjórnar Landspítalans og geðsviðsins auk þess að senda einnig til eftirlitsaðila heilbrigðisþjónustu, embættis landlæknis. „Það kom stjórn Geðhjálpar á óvart hve viðbrögð eftirlitsaðilans og yfirstjórnar spítalans voru takmörkuð enda um alvarlegar ábendingar að ræða. Frá því í nóvember hafa fjölmargir aðrir núverandi og fyrrverandi starfsmenn geðsviðs Landspítalans komið ábendingum til Geðhjálpar auk notenda þjónustunnar og aðstandenda.. „Þeirra vitnisburðir eru samhljóma því sem kom fram í ábendingum þeirra starfsmanna sem leituðu fyrst til Geðhjálpar,“ segir enn fremur.

Á mbl.is þann 1. júní sl. svaraði upplýsingafulltrúi embættis landlæknis spurningu blaðamanns um vinnslu málsins innan embættisins með eftirfarandi hætti: „Þetta er náttúrulega svolítið sérstakt af því að upphaflega er málið sett fram í greinargerð og undir nafnleynd og síðan stíga konur fram sem lýsa sinni upplifun. Þá breytist dæmið, þá viljum við fá frekari upplýsingar frá þeim.“

Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, og Héðinn Unnsteinsson, formaður samtakanna, furða sig á þessu svari í samtali við Sunnudagsblaðið. Skilja megi það sem svo að eftirlitsaðilinn taki ekki fyllilega mark á alvarlegum ábendingum, er kunna að varða lög og eru settar fram með trúverðugum hætti í samstarfi við hagsmunasamtök notenda, vegna þess að þau sem benda á koma ekki fram undir nafni.

„Við hittum þetta fólk nokkrum sinnum og frásögn þess er mjög trúverðug og sannfærandi. Það óttaðist hins vegar afleiðingarnar, meðal annars að missa hreinlega starf sitt, og þess vegna kaus fólkið að koma fram undir nafnleynd. Rík ástæða er fyrir því. Við höfum heyrt af því að mannauðssvið Landspítalans tekur alla jafna ekki vel í gagnrýni og að það séu dæmi um að starfsmenn hafi hrökklast úr starfi fyrir að gagnrýna,“ segir Grímur.

Hann telur þetta með nafnleyndina bara fyrirslátt „Þessar ábendingar eru mjög alvarlegs eðlis og annars staðar á Norðurlöndunum yrðu þær án nokkurs vafa teknar alvarlega enda hefur embætti landlæknis eftirlitsskyldu samkvæmt lögum. Það ætti með réttu að vera löngu búið að rannsaka þessar ásakanir og setja fram áætlun um úrbætur.“

Þetta er að mati stjórnar Geðhjálpar alvarlegt og þykir henni eðlilegt að spyrja hvort embætti landlæknis hafi sinnt eftirlitshlutverki sínu með fullnægjandi hætti og hvort ekki hefði mátt telja rétt af embættinu að leita skýringa hjá Geðhjálp, spyrja hvort þeir starfsmenn sem lögðu ábendingarnar fram væru reiðubúnir að koma fram undir nafni í samtali við embætti landlæknis og hefja ítarlega rannsókn í ljósi alvarleika ábendinganna.

Svo því sé til haga haldið þá hefur deildarstjóri réttargeðdeildarinnar verið sendur í tímabundið leyfi eftir að ábendingar um illa meðferð sjúklinga á deildinni komu fram í téðri greinargerð Geðhjálpar. Málið er nú til rannsóknar hjá Landspítalanum og embætti landlæknis.

Nauðung á að vera undantekning

Í bréfi sínu ítrekar Geðhjálp ábendingar um frumvarp heilbrigðisráðherra um lög og réttindi sjúklinga sem nú liggur fyrir Alþingi. Í því frumvarpi endurspeglast að mati samtakanna afturför þegar kemur að beitingu þvingunar og nauðungar. „Geðhjálp skorar á þingheim og samfélagið allt að hverfa frá hugmyndafræði valds og þvingana þegar kemur að meðferð tengdri geðrænum áskorunum og endurvekja aukna mannúð og skilning. Horfum til framtíðar og hugsum: Hvernig ætli fólk árið 2050 meti það sem við gerum árið 2021,“ segir í bréfinu.

„Vald, þvingun og nauðung þykja ekki lengur boðleg í geðlækningum,“ segir Grímur. „Það er auðvitað útópísk pæling að slíku verði aldrei beitt en það á svo sannarlega að vera undantekningin. Nauðungarvistun og valdbeiting getur hæglega leitt til áfallastreituröskunar, að ekki sé talað um allar vondu minningarnar sem slíkt hefur í för með sér. Landspítalinn gerir á hinn bóginn lítið til að hjálpa fólki gegnum áföll af þessu tagi enda þótt þar vinni fjöldi sálfræðinga sem einmitt eru sérhæfðir á því sviði. “

Byggir á skaðalögmálinu

„Frumvarpið byggir eins og önnur er lúta að frelsisskerðingum á skaðalögmáli Johns Stuarts Mills,“ segir Héðinn og bætir við að frumvarpið hafi einungis verið unnið í samráði við geðsvið Landspítalans. „Verði framangreindar heimildir þess lögfestar mun það veita starfsfólki heilbrigðisstofnana víðtæka heimild til þess að beita nauðung og þvingun við meðferð einstaklinga, sem samrýmist ekki lengur þeim gildum sem ríkja um meðferð sjúklinga í nútíma samfélagi. Kom sú hugmyndafræði sterkt fram þann 28. maí 2021 þegar sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna í mannréttindum beindu því til Evrópuráðsins að draga til baka drög að viðbótarákvæði við Ovieda-samþykktina og skoruðu á Evrópuráðið að hafna áframhaldandi lögleiðingu þvingunar við geðmeðferð. Það skýtur skökku við að fara fram með frumvarp sem víkkar verulega heimildir heilbrigðisstarfsfólks til beitingu nauðungar án samráðsferlis við fulltrúa notenda og aðstandenda. Til þess að lagabreytingin sem felst í frumvarpinu samrýmist stjórnarskrá og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum, sem Ísland er aðili að, er það grundvallarforsenda að efnisákvæði þeirra kveði ekki á um heimild til að víkja frá banni við beitingu nauðungar með jafn víðtækum hætti og gert er í frumvarpinu. Stríðir það gegn mannréttindum og mannhelgi einstaklinga að heimila nauðung sem fyrirbyggjandi aðgerð sem ætlað er að forða því að aðstæður komi upp sem geti leitt til tjóns, eða í þeim tilgangi að uppfylla grunnþarfir viðkomandi, svo sem varðandi mat, heilsu og hreinlæti eða til þess að draga út hömluleysi. Þá er nauðung heimil í neyðartilvikum til þess að koma í veg fyrir tjón. Orðalag framangreindra ákvæða frumvarpsins gefur ástæðu til að ætla að beiting þeirra verði að meginreglu frekar en undantekningu. Jafnframt stríðir það gegn mannhelgi einstaklinga að heimila nauðung fyrir fram í allt að þrjá mánuði í senn. Eina markmið laganna virðist vera að gera það löglegt sem áður var ólöglegt – það er að gefa starfsmönnum valdheimildir til að beita fólk nauðung.“

Í OPCAT-eftirlitsskýrslu umboðsmanns Alþingis í tengslum við heimsókn á réttar- og öryggisgeðdeildir, sem kom út haustið 2019, kom eftirfarandi fram: „Ljóst er að fullnægjandi lagaheimildir eru ekki til staðar í íslenskri löggjöf til að taka ákvarðanir gagnvart frelssisviptum einstaklingum á geðheilbrigðisstofnunum sem geta falið í sér inngrip í réttindi sem varin eru í stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum. Þótt sjúklingur sé frelsissviptur á grundvelli lögræðislaga eða dóms veitir það starfsmönnum geðheilbrigðisstofnana ekki sjálfkrafa heimild til þess að skerða skík réttindi sjúklinga.“

Grímur og Héðinn segja að greinargerð starfsmannanna og þær veiku raddir notenda þjónustunnar sem heyrast bendi til að enn sé verið að brjóta á réttindum þessara einstaklinga. Ábendingar starfsmanna séu á hinn bóginn miklu alvarlegri en athugasemdir umboðsmanns.

Ný nálgun tímabær

En hvað er til ráða?

Þeir benda á framfarir í geðlækningum á heimsvísu sem felist meðal annars í lyflausum deildum, opnu samtali (open dialouge) og því að vinna með raddir sem fólk kann að heyra í höfðinu á sér. „Hérlendis þora margir ekki að segja frá röddunum sem þeir heyra af ótta við afleiðingarnar. Aðrir óska þess frekar að vera settir í spennitreyju en að vera sprautaðir niður. Við það er auðvitað ekki hægt að una og tímabært að koma með nýja nálgun,“ segir Grímur.

Svo því sé til haga haldið þá eru lyflausar deildir ekki með öllu lyflausar en fólk getur á hinn bóginn afþakkað lyfin.

Í þessu sambandi segja Grímur og Héðinn vandamál hversu illa sé haldið utan um atvik sem snúi að þvingun eða nauðung á Landspítalanum. „Það hefur verið reynsla Geðhjálpar að skráningar og utanumhald tilvika þar sem notandi þjónustu er beittur nauðung eða þvingunum sé í ólestri. Samtökin hafa ítrekað kallað eftir slíkum gögnum í gegnum tíðina en aldrei fengið nákvæma tölfræði. Í greinargerð fyrrverandi starfsmanns á geðsviði LSH við Hringbraut kemur fram að samkvæmt hans reynslu þá séu ekki öll tilvik skráð niður. Þetta vekur upp frekari spurningar og telur Geðhjálp fullt tilefni fyrir landlækni til athugunar,“ segir orðrétt í bréfi sem Geðhjálp skrifaði embætti landlæknis í nóvember á síðasta ári. Afrit var sent forstjóra Landspítalans og forstöðumanni geðsviðs spítalans.

Á sér stað alla daga

Þá segja Grímur og Héðinn boð og bönn, sem hæglega megi sneiða hjá, geta haft slæmar afleiðingar; svo sem ef fólki er bannað að reykja, drekka kaffi eða fara út og hreyfa sig, eins og brögð séu að. Það séu í reynd mannréttindabrot. „Skemmst er að minnast umræðunnar um sóttvarnahótelin okkar um daginn, þar sem fólk skiptist í tvo hópa og sumir ætluðu hreinlega að fara af hjörunum. En þetta á sér stað alla daga á Íslandi, hér er fólk lokað inni svo mánuðum skiptir. Hvaða læknir sem er getur sett þig inn í 72 klukkutíma,“ segir Grímur. Næsta stig er 21 dags nauðungarvistun og þar á eftir sjálfræðissvipting.

Talið berst að réttindum fólks sem er beitt harðræði og jafnvel ofbeldi á geðdeildum. Grímur og Héðinn segja þau í reynd hin sömu og hjá fólki sem beitt er ofbeldi úti í samfélaginu en samt geri bæði Landspítalinn og embætti landlæknis alla jafna lítið í slíkum málum. Sjálfur hefur Héðinn reynslu af því að kvarta til embættisins sem sá ekkert athugavert í því tilfelli. Umboðsmaður Alþingis gerði á hinn bóginn athugasemdir og snupraði kerfið.

„Við erum með lögfræðing í vinnu núna við að fara yfir margvísleg mál en margir hafa leitað til okkar í framhaldi af umfjöllun fjölmiðla um Arnarholt á síðasta ári,“ upplýsir Grímur. „Líkja má kerfinu við síróp eða hunang, það er seigfljótandi og fólk mætir ekki nægilega miklum skilningi og mannúð. Kerfið litast of mikið af þessari öryggismenningu.“

Fátt hefur líklega háð fólki með geðraskanir meira gegnum tíðina en fordómar og mismunun. Bæði úti í samfélaginu og inni í kerfinu. Árið 2021 eru þeir enn til staðar, um það eru Grímur og Héðinn ekki í nokkrum vafa. „Það vantar alla framtíðarsýn, þar sem dregið verður úr þvingun, árekstrum og ofbeldi. Og meira fé varið í málaflokkinn,“ segir Grímur.

Það er að bera í bakkafullan lækinn að ræða um vanfjármögnun Landspítalans, en Grímur og Héðinn benda á, að ætlað umfang geðþjónustunnar í heild sé um 30%, en fjármögnunin á hinn bóginn áætluð 12% af heildinni. Það gangi vitaskuld ekki til lengdar.

Héðinn segir áberandi að meira sé um fjármagn á afleiðingaenda kerfisins sem þýði í reynd að meiri áhersla sé á að bregðast við en að reyna að freista þess að komast fyrir vandann. Þannig voru öryrkjar 7.500 árið 1990 en 23.000 í dag. Það er 200% fjölgun á meðan þjóðinni hefur ekki fjölgað nema um 40%. Ef við tökum bara geðhlutann þá er fjölgun öryrkja á þessu tímabili 250%.

„Það er líka sláandi,“ segir Héðinn, „að meðan 4,4% barna og unglinga í Evrópu eru með geðgreiningar þá er hlutfallið 16,4% hér. Getur það verið eðlilegt? Að mínu viti stendur kerfið ekki bara frammi fyrir fjárhagslegri krísu, heldur ekki síður hugmyndafræðilegri. Það gengur ekki að lofa fjölbreytileikann á sama tíma og við viljum steypa alla í sama mót.“

Grímur grípur boltann á lofti. „Það er umhugsunarvert að við erum alltaf að færa okkur frá orsökunum. Við erum sýknt og heilagt að fást við afleiðingar. Margir fara með merkimiða gegnum lífið og umhverfið bregst við þér út frá því hvað stendur á þér en ekki vegna þess hver þú ert. Sumir byrja meira að segja á því að taka fram með hvaða greiningu þeir eru áður en þeir kynna sig með nafni.“

Lífslíkur manna á Íslandi eru um 80 ár. Héðinn tekur dæmi af manni sem býr við röskun á geði í átta ár, það er 10% lífs hans. „Eiga þessi 10% að lita allt hans líf út fyrir gröf og dauða? Á greiningin alltaf að hanga yfir honum? Hvað með hin 90% lífs hans? Fjölmargir búa við „eðlilegt“ lundarfar þó útaf fari um stutta stund. Þó þú hafir fengið kvef í fyrra þá ertu ekki kvef.“

Héðinn bendir á, að þrennt sé einkum tilgreint í fræðunum sem skýring á fjölgun greininga og vaxandi vanlíðan barna og vitnar þar í Björn Hjálmarsson barna- og unglingageðlækni. Í fyrsta lagi að ekki eru lengur þrjár kynslóðir á heimilum og fyrir vikið eru amma og afi ekki eins virk í uppeldinu og áður. Í öðru lagi er rætt um aukna þátttöku kvenna á vinnumarkaði og að karlar hafi ekki stigið nægilega vel inn í uppeldið í staðinn. Í þriðja lagi er það snjalltækjavæðingin sem dæmin sýna að getur valdið mikilli streitu og vanlíðan. Grímur bætir við að ein birtingarmynd þessa vanda sé að börn séu hvergi eins lengi sólarhringsins á leikskóla eins og hér enda þótt þéttbýli hér sé lítið og til þess að gera stutt milli staða, alltént með hliðsjón af fjölmennari þjóðfélögum.

Eins og Héðinn gat um eru það ekki bara peningarnir. Þeir Grímur segja geðsviðið einnig standa illa faglega, mjög margir starfsmenn séu ófaglærðir og læknar í mörgum tilfellum í allt of litlum samskiptum við skjólstæðinga sína. „Það líta allt of margir bara á geðdeildirnar sem geymslu, því miður,“ segir Grímur. „Ég hef heyrt menn segja að þeir vilji frekar vera á Hólmsheiði eða Litla-Hrauni en á öryggis- og réttargeðdeildunum á Kleppi. Það segir sína sögu.“

„Ójafnvægi“ en ekki „jafnvægi“

Réttargeðdeildin var áður á Sogni í ríflega tvo áratugi en fluttist á Klepp árið 2014, þar sem hún er við hliðina á öryggisgeðdeildinni. „Það er gríðarleg öryggismenning á báðum deildum og umhverfið mjög fráhrindandi og ómanneskjulegt. Húsnæðið er líka úrelt og deildin hefði aldrei átt að flytja þarna inn. Svona deild þarf að vera á jarðhæð, þar sem t.d. húsnæðið umlykur garð fyrir miðju, þar sem fólk getur notið útivistar og næðis,“ segir Grímur.

Þarf ef til vill frekar að leggja áherslu á að greina styrkleika manneskjunnar á tímum þegar mennskan virðist eiga undir högg að sækja í gervigreindarsniðnum veruleika samfélagsmiðla? Árið 1874 voru sex geðgreiningar á skrá hjá Emil Kreplin, guðföður geðlæknisfræðinnar, en í dag eru þær orðnar um 600. „Markaðs- og fjármagnsöflin hafa hagsmuni af því að sem flestir glími við ójafnvægi – séu skilgreindir veikir. Það myndast því þversögn þar sem markmið kerfisins er að fólk nái bata en ákveðinn hvati er til að halda fólki veiku. Því virðast fleiri og fleiri falla undir hatt geðsjúkdóma enda huglægt mat hver það geri,“ segir Héðinn.

Hann segir gífurlega fjármuni í geðlyfjaiðnaðnum sem skapi að hluta þennan hvata. Geðlyfjaiðnaðurinn veltir um 103.000 milljörðum á ári, þannig að engir smáræðis hagsmunir eru í húfi. „Það mætti byggja býsna margar Kárahnjúkavirkjanir fyrir það fé,“ segir Grímur. Þetta gæti þó verið að breytast enda eru margir farnir að sjá fyrir sér að vitundarvíkkandi lyf komi í náinni framtíð til með að leysa mörg núverandi geðlyfja af hólmi. „Það tók tvö til þrjú ár að koma þessari umræðu á dagskrá og slá á fordómana. Til að byrja með var stjórn Geðhjálpar ekki hlynnt þessari byltingu en eftir gott málþing sem við héldum seint á síðasta ári kom annað hljóð í strokkinn. Þetta ferli mun taka nokkur ár en eftir svona sex til átta ár verður hlutdeild vitundarvíkkandi lyfja á markaðnum orðin mjög mikil,“ telur Héðinn.

Raunsæir er kemur að lausnum

Við komum aftur að athugasemdum Geðhjálpar til fjölmiðla og Alþingis, sem getið var um hér að framan. Hvorki Héðinn né Grímur telja að hlutirnir breytist hratt en vonandi mjakast þeir í rétta átt. „Við bindum ekki of háar vonir við kerfið, því miður. Til þess er það allt of flókið og samspil milli ríkis og sveitarfélaga ekki nógu gott,“ segir Héðinn. „Auðvitað vonumst við eftir auknum skilningi og mannúð en við erum líka raunsæ og stillum væntingum í hóf. Við sem lögðumst inn á geðdeild seint á síðustu öld erum sammála um að staðan sé verri í dag og allt of oft sett samasemmerki milli þess að vera geðsjúkur og hættulegur. Á meðan líkurnar á því að maður með alvarlegan geðsjúkdóm beiti ofbeldi eru lítillega meiri en aðrir þá eru tíu sinnum meiri líkur á því að sá hinn sami verði sjálfur beittur ofbeldi. Og við skulum muna að allt líf í þessum heimi þrífst og mótast af þeim aðstæðum sem það býr við.“

Að þeirra dómi er það líka sláandi staðreynd að starfsmenn Landspítalans skuli leita til Geðhjálpar með áhyggjur sínar eftir að hafa talað fyrir daufum eyrum á vinnustað sínum og jafnvel stéttarfélagi. Þá virðist embætti landlæknis erfitt að sinna eftirlitshlutverki sínu og eina eftirlitið sem virki sé umboðsmaður Alþingis en þar sé alla jafna mikið undir. „Það vantar öfluga mannréttindaskrifstofu á Íslandi og geðráð – opinberan samráðs- og ráðgefandi vettvang haghafa.“

Kórónuveirufaraldurinn hefur snert okkur öll og verið stór áskorun fyrir samfélagið, ekki síst fyrir þá sem eiga við geðrænan vanda að etja. Grímur segir að Geðhjálp hafi bent á, að mikilvægt sé að safna gögnum við aðstæður sem þessar. „Hvers vegna líður framhaldsskólanemendum verr núna? Hvers vegna lengist biðlistinn eftir þjónustu á BUGL um 80% á milli ára? Hvers vegna sviptu 15 konur sig lífi á liðnu ári? Það er mikilvægt að halda utan um þessar upplýsingar o.m.fl. í rauntíma og geta þannig brugðist betur við og í tíma.“

Héðinn segir umræðuna þurfa að fara fram á breiðum grunni, ekki síst um hlutfall samfélagsþjónustu samhliða spítalaþjónustu enda hljóti það ávallt að vera markmiðið að hámarka lífsgæði notenda kerfisins og nýta opinbera fjármuni sem best. „Nóttin á geðsviði kostar hvern einstakling nú um 150.000 kr. samkvæmt því sem ég heyri innan úr kerfinu. Þessi umræða þarf að fara fram og við verðum að taka allt til samtals og meðferðar. Það vantar heildstæða umræðu um kerfið. Það getur ekki verið eðlilegt að kerfið skili alltaf fleiri og fleiri öryrkjum og lyfjanotkun færist í vöxt. Ég er búinn að vinna í kerfinu samhliða því að gagnrýna það í þrjátíu ár og of fátt hefur breyst; það eru enn þá sömu gardínur á geðdeildinni. Um leið og við á 21. öldinni hristum höfuðið yfir mörgum þeirra leiða og aðferða sem geðlæknisfræðinnotaðist við fyrir fimmtíu árum er næsta víst að afkomendur okkar munu gera slíkt hið sama eftir fimmtíu ár,“ segir Héðinn og Grímur bætir við að Íslendingar sem þjóð geti ekki verið þekktir fyrir að hafa meira eftirlit með bensíndælum en geðheilbrigði.

Yfirfærsla á viðmóti

„Fyrir þrjátíu til fjörutíu árum komst kerfið upp með að veita bara ákveðna þjónustu. „Take it or leave it!“ Í dag sættir fólk sig ekki við það ástand lengur. Sú afstaða er ný fyrir kerfinu enda hefur það mótast af hagsmunum þess sem veitir þjónustuna en ekki þeirra sem hana þiggja,“ segir Héðinn. „Sjálfur lagðist ég inn á hjartadeild í fyrra og viðmótið þar var allt annað en á geðdeild. Sama á eflaust við um krabbameinsdeildir og handlækningadeildir sem dæmi. Það eru heilmikil tækifæri fólgin í yfirfærslu á viðmóti og þekkingu milli deilda, eins og við höfum ítrekað bent Landspítalanum á. Þegar nýtt húsnæði fyrir geðsvið verður opnað hlýtur það að verða forgangsmál.“

Markast af smánarlegum réttindabrotum

„Gleymd málefni leiða til þess að einstaklingar gleymast. Saga geðlæknisfræði og geðheilbrigðisþjónustu markast af smánarlegum réttindabrotum, s.s. hvítuskurðum (e. lobotomy), sem gerðir voru í nafni læknavísindanna. Frá lokum síðari heimsstyrjaldar og samþykkt mannréttindayfirlýsingarinnar, ásamt öðrum alþjóðlegum samningum, hefur sjónum í auknum mæli verið beint að mannréttindum í tengslum við geðheilbrigði og geðlækningar. Hvort alþjóðasamfélagið hefur hins vegar dregið einhvern lærdóm af þessari sársaukafullu fortíð er álitamál.“

Þannig kemst Danius Puras, geðlæknir frá Litháen og sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna í mannréttindamálum, að orði í skýrslu sem hann skrifaði árið 2017.

Þar segir hann geðheilbrigðisþjónustu um áratugaskeið hafa látið stjórnast af smættuðu líflæknisfræðilegu viðmiði sem hafi átt þátt í útilokun, vanrækslu, valdbeitingu og misnotkun einstaklinga með vitsmunalega, hugræna og sálfélagslega fötlun, sem og einhverfra, og þeirra sem í einhverju víkja frá ríkjandi menningarlegum, félagslegum og stjórnmálalegum hegðunarmynstrum. „Einkum er pólitísk misnotkun geðlæknisfræði áfram alvarlegt áhyggjuefni. Þó að geðheilbrigðisþjónusta búi við fjársvelti, verður að haga sérhverri aukinni fjárfestingu í ljósi reynslu fortíðarinnar til að tryggja að sagan endurtaki sig ekki.“

Nútímaskilningur á geðheilbrigði er, að dómi Puras, mótaður af breytingum á viðmiðum sem oft bera keim af blöndu endurbóta og mistaka við umönnun sem reist er á sannreyndri þekkingu og siðferðilegum sjónarmiðum. Upphafið megi rekja 200 ár aftur í tímann og til viljans til að losa þá „geðveiku“ í dýflissum fangelsanna úr hlekkjum og síðar til þess er sállækningar, raflostsmeðferðir og geðlyf voru innleidd á 20. öld.

„Pendúllinn hefur sveiflast milli tveggja öfga; „hugar án heila“ og „heila án hugar“ þegar fengist hefur verið við orsakir og eðli sjúkdóma. Undanfarið hefur verið gengist við takmörkunum þess að beina athygli einungis að sjúkdómafræði, í gegnum rammann um fötlun, og fötlun og góð líðan sett í víðara samhengi við persónulega, félagslega, stjórnmálalega og efnahagslega tilveru.“