Á árum áður mátti gera greinarmun á tveimur tilraunum til að endurskapa skipulagið, rússneskum vinnubúðasósíalisma og sænskum vöggustofusósíalisma.

Á árum áður mátti gera greinarmun á tveimur tilraunum til að endurskapa skipulagið, rússneskum vinnubúðasósíalisma og sænskum vöggustofusósíalisma. Rússnesku sósíalistarnir vildu breyta þjóðskipulaginu í risastórar vinnubúðir, þar sem þeir segðu sjálfir fyrir verkum. Þeir, sem óhlýðnuðust, voru skotnir eða sveltir til bana. Sænskir sósíalistar sáu hins vegar þjóðskipulagið fyrir sér eins og vöggustofu, þar sem þeir væru hinar umhyggjusömu fóstrur, en borgararnir væru börnin. Þeir beittu ólíkt mannúðlegri ráðum en Rússar, aðallega fortölum, en gerðu líka hiklaust þær konur ófrjóar, sem taldar voru myndu ala af sér vanhæf afkvæmi. Alls voru framkvæmdar 62.888 ófrjósemisaðgerðir í Svíþjóð árin 1935-1975.

Báðar tilraunirnar mistókust hrapallega, enda ræður engin ríkisstjórn yfir sömu þekkingu og dreifist á borgarana og nýtist best í frjálsum viðskiptum þeirra. Ráðstjórnarríkin leystust upp í árslok 1991, og um svipað leyti hurfu Svíar þegjandi og hljóðalaust frá vöggustofusósíalisma. En innan kapítalismans hefur orðið til ný tegund sósíalisma, styrkjasósíalisminn. Þeir, sem hann stunda, ætla sér ekki að velta kapítalismanum um koll, heldur reyna að sjúga út úr honum alla þá fæðu, sem þeir geta. Þeir vilja taka án þess að láta. Rússnesk-bandaríska skáldkonan Ayn Rand greindi best styrkjasósíalismann í skáldsögunni Undirstöðunni , en hún skipti fólki í framleiðendur og þiggjendur og spurði, hvað myndi gerast, ef afburðamennirnir þreyttust á að skapa það, sem afæturnar hirtu jafnóðum.

Á Íslandi lifir styrkjasósíalisminn góðu lífi, sérstaklega í Reykjavík 101. Þar safnast það fólk, sem gerir góðverk sín á kostnað annarra, iðulega saman á kaffihúsum og krám og skálar fyrir því, hversu langt því hefur tekist að seilast í vasa skattgreiðenda. Sérstaklega nýtur þetta fólk sín vel í kosningum, sem eru stundum lítið annað en uppboð á fyrirframstolnum munum.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is