[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Esther Hallsdóttir esthe@mbl.is Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann jókst um 2,6 prósent á fyrsta fjórðungi ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Ráðstöfunartekjur heimilanna jukust um rúm átta prósent á tímabilinu.

Esther Hallsdóttir

esthe@mbl.is

Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann jókst um 2,6 prósent á fyrsta fjórðungi ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Ráðstöfunartekjur heimilanna jukust um rúm átta prósent á tímabilinu.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni vega þar þyngst auknar lífeyrisgreiðslur, meðal annars vegna úttektar séreignarlífeyrissparnaðar, og félagslegar bætur sem skýrast helst af auknu atvinnuleysi og aðgerðum stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldurins. Samanlagt jukust þessar greiðslur um 23 prósent og námu 18 prósentum af heildartekjum heimilanna á tímabilinu.

Þá jukust launatekjur heimilanna um 4,3 prósent og skýrist það helst af kjarasamningsbundnum launahækkunum. Þetta kemur fram í gögnum Hagstofunnar. Skattar á laun jukust um 4,5 prósent og tryggingagjöld atvinnurekenda og launafólks um þrjú prósent. Vaxtagjöld heimilanna jukust um 4 prósent.

Jákvæðar tölur

„Mín viðbrögð við þessum tölum eru að þetta séu ágætis fréttir, að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann sé stærð sem ekki fellur. Það er ljóst að sambland lífeyrisgreiðslna og félagslegra bóta er að halda uppi kaupmætti heimilanna. Það sýnir bæði að velferðarkerfið okkar og aðgerðir stjórnvalda hafi verið góðar. Það er það sem ég tek úr þessu,“ segir Arnaldur Sölvi Kristjánsson, hagfræðingur hjá ASÍ.

Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, tekur undir að tölurnar séu jákvæðar en varar við hættumerkjum. „Ástæðan fyrir þessari kaupmáttaraukningu er fyrst og fremst að miklar samningsbundnar hækkanir hafa gengið hér yfir. Á sama tíma hafa skattalækkanir, á lægstu laun, og vaxtalækkanir aukið ráðstöfunartekjur margra heimila,“ segir Ásdís.

„Það er jákvætt að tekist hafi að verja kaupmátt heimila í gegnum þennan faraldur. Það breytir því þó ekki að við teljum að þetta geti ekki verið sjálfbær staða til lengdar. Launahækkanirnar á undanförnum misserum eru algjörlega úr takti við aðrar stærðir í atvinnulífinu. Á síðasta ári dróst landsframleiðsla saman um 6,6 prósent sem er mikill tekjusamdráttur í sögulegu samhengi. Fyrirtæki hafa þurft að bregðast við þessum launahækkunum með því að hagræða og segja upp starfsfólki. Í dag eru 17 þúsund manns enn án atvinnu sem dæmi.

Atvinnuleysi er þegar mikið og verðbólga að aukast og við því hefur Seðlabankinn brugðist með vaxtahækkun. Til að verja kaupmátt heimila blasir við að hér verður að mælast mikill hagvöxtur til að atvinnulífið geti staðið undir þeim miklu launahækkunum sem framundan eru,“ segir Ásdís.

Áhyggjur af atvinnuleysi

„Það er verulegt áhyggjuefni að sjá hvernig nokkuð hátt atvinnuleysi virðist vera að festa sig í sessi,“ segir hún. „Forgangsverkefni fram á veginn er að skapa skilyrði svo fyrirtækin geti vaxið út úr þessari kreppu þannig að unnt sé að vinna til baka framleiðslutapið og þau störf sem hafa glatast eins hratt og hægt er.

Ísland er hálaunaríki í alþjóðlegum samanburði og ef við viljum áfram greiða há laun þarf verðmætasköpun og þar með tekjur þjóðarbúsins að aukast hraðar og meira. Að öðrum kosti munum við aðeins upplifa mikla verðbólgu, háa vexti og lakari lífskjör,“ segir hún.

Aðspurður hvort hann hafi áhyggjur af því að launahækkanir á síðustu mánuðum muni þrýsta upp verðbólgu segir Arnaldur að tölurnar frá Hagstofunni séu ekki til þess fallnar að draga slíkar ályktanir. „Þá þyrftirðu að skoða laun starfsfólks og verðmætasköpun hjá starfsfólki, og þá þarftu væntanlega að skoða almenna markaðinn út fyrir opinbera markaðinn. Þarna ertu með allt í einum potti, þannig að mér finnst þessar tölur ekki gefa vísbendingar til túlkunar á þessa vegu,“ segir hann.

„Ef þú skoðar launavísitöluna er dágóð hækkun bæði hjá hinu opinbera og á almenna markaðnum en ef þú skoðar almenna markaðinn er náttúrlega launaskrið ofan á kjarasamningsbundnar hækkanir og ég sé ekki endilega að það sé hætta á að það auki verðbólgu mikið, en það er erfitt að spá um það,“ segir Arnaldur Sölvi.