Kaupmáttur hækkaði um 2,6% á sama tíma og landsframleiðsla dróst saman um 6,6%

Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann jókst á fyrsta fjórðungi ársins um 2,6% á milli ára, sem er gríðarlega mikil aukning á einu ári. Þetta er jákvætt fyrir launþega ef ekki er horft til annarra þátta, en í þessu sambandi er óhjákvæmilegt að horfa einnig til þróunar atvinnuleysis.

Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, benti á það í samtali við Morgunblaðið á laugardag að ástæða þessarar kaupmáttaraukningar væri fyrst og fremst miklar samningsbundnar launahækkanir. „Á sama tíma hafa skattalækkanir á lægstu laun og vaxtalækkanir aukið ráðstöfunartekjur margra heimila,“ bætti hún við.

Ásdís bendir þó einnig á að þó að jákvætt sé að tekist hafi að verja kaupmáttinn í gegnum faraldurinn þá geti þetta ekki gengið til lengdar. „Launahækkanirnar á undanförnum misserum eru algjörlega úr takti við aðrar stærðir í atvinnulífinu. Á síðasta ári dróst landsframleiðsla saman um 6,6 prósent sem er mikill tekjusamdráttur í sögulegu samhengi. Fyrirtæki hafa þurft að bregðast við þessum launahækkunum með því að hagræða og segja upp starfsfólki. Í dag eru 17 þúsund manns enn án atvinnu sem dæmi,“ segir Ásdís.

Allir sjá að þessi þróun getur ekki gengið áfram. Samhengi verður að vera á milli efnahagslegs veruleika og þróunar launa. Vandinn er sá að þó að allir sjái þetta og skilji þá vantar nokkuð upp á að allir viðurkenni þessar augljósu staðreyndir.