[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Golf Gunnar Egill Daníelsson gunnaregill@mbl.is Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir, 18 ára kylfingur úr GR, braut blað í íslenskri golfsögu um helgina þegar hún komst alla leið í úrslit Opna breska áhugamannamótsins, fyrst Íslendinga.

Golf

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir, 18 ára kylfingur úr GR, braut blað í íslenskri golfsögu um helgina þegar hún komst alla leið í úrslit Opna breska áhugamannamótsins, fyrst Íslendinga. Hið sögufræga mót fór fram í 118. sinn á Barassie-vellinum í Kilmarnock í Skotlandi 8.- 12. júní.

„Mér líður bara ótrúlega vel og það tók alveg smá tíma að átta mig á því að ég hefði í alvörunni náð svona langt en þetta er eiginlega búið að setjast inn núna,“ sagði Jóhanna Lea í samtali við Morgunblaðið í gær.

Jóhanna Lea tapaði í úrslitum fyrir hinni skosku Louise Duncan en til að komast þangað þurfti hún að slá fimm kylfinga út, og reyndust allar viðureignirnar æsispennandi.

Mótið byrjaði á höggleik sem voru tveir hringir, þar sem Jóhanna Lea komst í gegnum niðurskurðinn. Í fyrstu umferð holukeppninnar mætti hún Huldu Clöru Gestsdóttur, kylfingi úr GKG, og vann hana á 18. holu. Í annarri umferð mætti hún Skotanum Hazel MacGarvie og vann hana á 17. holu.

Í 16-manna úrslitum mætti Jóhanna Lea sigurvegara mótsins árið 2019, Englendingnum Emily Toy og vann hana á 18. holu. Í átta-manna úrslitum vann hún svo Írann Katie Lanigan á 17. holu. Í undanúrslitunum hafði hún svo sigur í bráðabana gegn Skotanum Shannon McWilliam.

Háskóli vestanhafs í haust

Jóhönnu Leu gekk ekki jafn vel í úrslitaleiknum og var svekkt með það en þó vitanlega ánægð með að hafa komist þetta langt á mótinu.

„Þetta var bara svo nálægt því að vera tæpari leikur því ég púttaði svo rosalega illa í honum, sem er alveg svekkjandi en ég er samt sátt með mína frammistöðu,“ sagði hún.

Í haust hefur hún nám í Northern Illinois-háskólanum í Bandaríkjunum. „Ég verð í golfliðinu þar og ætla að standa mig. Svo ætla ég líka að standa mig í sumar á Íslandi,“ sagði kylfingurinn bráðefnilegi einnig í samtali við Morgunblaðið í gær.