Árni Óli Ólafsson fæddist 24. mars 1945. Hann lést 29. maí 2021.

Útförin fór fram 12. júní 2021.

Nú kvarnast úr röðum Ofanbyggjara en svo eru þeir kallaðir sem búa og bjuggu fyrir „ofan Hraun“ í Vestmannaeyjum. Addi Óli eins og hann var alltaf kallaður var frá Suðurgarði, sonur Óla Þórðar og Svölu systur pabba míns (Súlla á Saltabergi) og við því systkinabörn. Addi Óli var glæsimenni, hraustmenni og ekki skemmdu fyrir honum persónutöfrar fullir af hlýju, glettni og gleði sem gerði samvistir við þennan mann svo einstaklega ljúfar.

Addi sem var 11 árum eldri en ég sagði alltaf að ég væri uppáhaldsfrændi hans. Líklega átti hann fullt af uppáhaldsfrændum og –frænkum en hann var klárlega uppáhaldsfrændi minn. Addi Óli helgaði sjónum ævistarf sitt. Fór hann þar fremstur meðal jafningja með ósérhlífni og dugnaði. Til margar sögur af honum sem styðja það en þær bíða betri tíma.

Síðustu ár þreytti frændi glímu við illvígan sjúkdóm sem að endingu lagði hann að velli.

„See you later aligator“ voru alltaf kveðjuorð hans forðum daga þegar við kvöddumst og svo hló hann þessum smitandi hlátri. Við eigum vonandi eftir að hittast aftur, frændi, kannski ekki alveg strax en það verður örugglega gaman þá. Það er sjónarsviptir að frænda og hans er sárt saknað en minninguna um góðan dreng geymum við í hjarta okkar.

Hönnu Birnu og krökkunum votta ég alla mína dýpstu samúð.

Haraldur Geir.

Addi Óli frændi okkar í Suðurgarði er einn af þessum karakterum sem aldrei gleymast. Ekki aðeins að Sigurgeir frændi okkar í Þorlaugargerði hafi ritað um hann ógleymanlegar lýsingar í nýútkominni bók hans um Vestmannaeyjar, heldur var upplifun okkar sem vorum 10-20 árum yngri einnig efni í góðar minningar.

Addi Óli var þannig úr garði gerður að við nutum alltaf óskiptrar athygli hans þegar við komum með fjölskyldunni í Suðurgarð. Oft er það svo að fullorðna fólkið hópar sig saman og börnin finna sér annan stað. En það var öðru nær þegar Addi Óli var heima. Hann hafði þetta einstaka lag á okkur krökkunum og var ávallt fyrstur til að fagna okkur þegar við stigum inn í eldhúsið í Suðurgarði. Síðan var ekki óalgengt að byrjað væri á að fara í sjómann við Óla í Suðurgarði og síðan tók sonurinn Addi Óli við. Það var því ákveðin tilhlökkun að koma í Suðurgarð á sunnudagsrúntinum með fjölskyldunni. Í „Cowboy“-leikjunum, sem upplagt var að leika á túnum, klettum og hlöðum umhverfis Suðurgarð, spurði Addi Óli alltaf hver væri „Lone Ranger“, en það var hans uppáhaldskarakter í kúrekamyndum. Við vorum því öll spenntust að taka það hlutverk að okkur í leikjunum.

Við vorum afar stolt af kvonfangi Adda Óla, Hönnu Birnu, þegar við fengum að sjá hana fyrst og heyra um ráðahaginn. Okkur þótti hún hæfa þessum uppáhaldsfrænda okkar einstaklega vel. Það var ekki verra að hún var systir Rannveigar og krumma úr þekktum sjónvarpsþáttum. Við vorum í för með fallegu og skemmtilegu fólki.

Þessi mannvinur, sjómaður og stýrimaður á aflaskipum átti ekkert nema gott í hjarta sínu.

Þegar Addi Óli og Hanna Birna fluttu á Höfðaveginn fækkaði reyndar komum okkar þangað því Suðurgarður var höfuðbólið. En til allrar hamingju tóku Addi Óli og Hanna Birna við Suðurgarði þegar Svala og Óli höfðu flutt í himingeima. Þótt heimsóknum fækkaði, þar sem við vorum flutt frá Eyjum, var þó alltaf gott að koma og finna hlýtt viðmót og gestrisni þeirra hjóna.

Á bernskuárum okkar, tengdum Suðurgarði, keppti olíueldavélin við þéttan sígarettureykinn í eldhúsinu þar sem mikið var hlegið og spjallað. Líklega hefur sú blanda ekki hjálpað til þegar tímar sóttu fram og kröfðu sinn toll af þessum vinum okkar. Addi Óli barðist við krabbamein síðustu árin þótt alltaf tækist hann á við það með æðruleysi, von og birtu.

Við minnumst þessa yndislega frænda okkar með virðingu og söknuði. Við finnum að birta hans og jákvætt viðmót lifir í frændum okkar Ólafi og Jóhanni Inga og ekki síst í Önnu Svölu. Megi guð styrkja Hönnu Birnu og ykkur öll í sorginni.

Árni, Margrét, Gylfi,

Sif og Þór

Addi Óli í Suðurgarði var ævintýri. Við hann átti lýsing á fornkappa forðum: Hann var hávaxinn, hnarreistur, beinnefjaður og fríður. Addi Óli var afbragðsdrengur. Við ólumst upp saman og vorum alla tíð eins og bræður. Hann var árinu yngri en ég, en við vorum systrasynir og ólumst upp fyrir ofan Hraun, í sveitinni í Vestmannaeyjum.

Það voru alltaf mikil tilþrif í Suðurgarði. Þar var gestkvæmara en almennt tíðkaðist. Gamla Sóló-eldavéin malaði í horninu á eldhúsinu við hliðina á eldhúsborðinu. Þar liðu margar spjallstundir í flæðandi kaffi. Við vorum þrír frændur. Ofanbyggjarar, knýttir saman. Við Addi Óli og Geiri í Þorlaugargerði. Það var í mörgu að snúast. Á túninu heima byggðum við alþjóðlegan íþróttavöll. Í Vilhjálmsvík úti í Klauf rákum við hafskipaútgerð þar sem við gerðum út kubbaskip og sigldum til allra heimsálfa. Þannig var margt að gerast og þetta var ótrúlegt umhverfi að alast upp í.

Í Suðurgarði ólumst við upp við að sinna kúnum, verka bjargfugla, stunda heyskap og ganga í þau verk sem þurfti. Addi Óli var mikill spjallari og hafði gaman af að skiptast á skoðunum við aðra, en hann var vel að sér í ótrúlega mörgu.

Ævistarf Adda Óla var sjómennska. Hann var hörkusjómaður, duglegur og vinsæll skipsfélagi. Hann gegndi skipstjórn og öðrum störfum um borð en var alltaf fyrst og fremst sjómaður. Ég hef alltaf dáð hann bróður minn því hann var alla tíð harðduglegur en ekki framhleypinn.

Hann hét fullu nafni Árni Óli Ólafsson og var sonur Ólafs Þórðarsonar rafvirkja og Önnu Svölu Árnadóttur Johnsen húsfreyju. Hanna Birna Jóhannsdóttir og Árni Óli giftust ung að árum. Hrygginn úr búskap þeirra hafa þau búið í Suðurgarði með pomp og prakt. Þau eiga þrjú glæsileg börn, Ólaf Árna, Jóhann Inga og Önnu Svölu.

Ég vil þakka honum bróður mínum samveruna. Það var gott að eiga hann að. Góður Guð verndi hann og gæti í sínum himnaranni.

Halldóra og Árni Johnsen.

Heimaey og Heimaklettur, þar sem ég finn svo mikinn samnefnara í Adda Óla. Heimahagar þar sem lífið kveikti ljós hvern einasta dag. Heimahagar þar sem brauðstrit varð að velmegun. Heimahagar þar sem stríðin voru til að sigrast á. Heimahagar sem hann aldrei yfirgaf. Addi Óli er heimaklettur sem elskaði fátt meira en frjálsræðið, sjómennskuna, fjölskylduna og lífið sjálft á eyjunni þar sem hann unni sér allra best. Adda leið aldrei vel í höfuðborginni og það kom yfirleitt í hlut Hönnu Birnu, eiginkonu, að keyra á þessum dýrslegu umferðaræðum, þar sem hver titturinn af fætur öðrum reyndi að troða á rétti þess sem hann átti. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að vera sendur 14 ára til Vestmannaeyja í hreinsunarvinnu sumarið´74 eftir gosið´73. Það þurfti aldrei að senda mig þangað aftur, ég fór sjálfviljugur næstu sumur og gat ekki beðið eftir að komast þangað. Því er ekki síst að þakka þeim Hönnu og Adda sem tóku mér sem sínu eigin og ég gat verið á mínum forsendum og upplifað allt sem Eyjar höfðu að bjóða, án nokkurra kvaða. Ég fékk reyndar mína eigin vekjaraklukku og var tilkynnt með viðhöfn að ég yrði ekki vakinn til vinnu. Ég svaf aldrei yfir mig í Eyjum. Eini óskundinn sem ég man eftir að hafa gert Adda, er að hafa gengið til liðs við Tý, sem var hitt og mun óæðra fótboltafélagið í Eyjum. Hann var Þórari og leit á þessa ákvörðun mína sem borgaralegt mótmælauppeldi sem ég kom með úr höfuðborginni. Ég jafnaði ágreininginn með mætingum á æfingar ÍBV. Addi upplifði sjálfur og yfirsteig hindranir sem litu út eins og óbrjótandi múr fyrir litlar sálir. Hann var skjól í stormi, gustur í gleði og sögumaður af guðs náð. Hinar ómerkilegustu frásagnir af veraldlegum verkum urðu eins og brennan í Herjólfsdal á besta degi, hlaðin spennu og eldsins glóð, þar sem frásögnin, stundum stórlega ýkt, fór fram úr sjálfri sér af engri ástæðu, þetta var bara Addi Óli að segja frá. Addi sagði margar sögur af sjó og allar báru þær Ægi konungi vel söguna og meira að segja þegar þeir misstu Ísleif í fjöruna við Ingólfshöfða í mars ´75, var það ekki Ægi að kenna. Um haustið ´76 kom Addi í heimsókn til okkar í Leirubakkann og leitaði eftir leyfi til að ráða mig í pláss næsta sumar, nú væri kominn tími til að gera dreng að manni. En þann dag í dag geri ég mér enga grein fyrir því hvað hann sá í þessum þvengmjóa borgardreng, sem verður sjóveikur af því að ganga fjöruborð í rólegheitum. Af óskyldum ástæðum varð ekkert úr sjómennsku minni. Nú er Addi farinn í síðustu ferðina, frjáls og óheftur. Stendur við stýrið, tekur stefnuna og andar að sér fersku sjávarlofti. Múkkinn gargar á hann og honum er alveg sama, það er engin fyrirstaða nokkurs staðar. Við minnumst klettsins sem naut sín, gaf af sér og tók þeim leiðum í lífinu sem í boði voru. Við söknum og syrgjum á sama tíma og gleðitár styrkja þá leið sem Addi Óli er kominn á, laus úr viðjum sársauka og þróttleysis.

Vertu sæll meistari.

Sendi Hönnu Birnu, Óla, Jóhanni, Önnu og fjölskyldum mína innilegustu samúðarkveðju.

Jóhann Gylfi.