Þorbergur fæddist 9. maí 1943. Hann lést á 27. maí 2021.

Þorbergur var jarðsunginn 7. júní 2021.

Elsku stóri bróðir, þá er komið að ferðalokum. Mikið sakna ég þess að okkar samleið varð ekki lengri. Leiðir okkar skildi og ég tengdist þér meir í veikindum þínum en undanfarin 20 ár ... þú hváðir, og sagðir 30 ár. Einhvern veginn æxluðust hlutirnir þannig að við vorum í litlum samskiptum síðustu ár nema á ættarmótum eða stórviðburðum sem oftast tengdust þá Fríðu systur okkar. Við hringdumst ekki á, en vissum alltaf hvor af öðrum, sem eftir á að hyggja er sorglegt. Við vorum í miklum samskiptum þegar ég var yngri og ég leit upp til þín sem stóra bróður. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hæfileika þína sem flottur málari og listamaður. Einn góður í lokin. Þegar ég var 10 ára fórst þú með mig í bíó, það var verið að sýna Spartakus sem var bönnuð innan 16 ára! Þú sagðir að þú værir pabbi minn hehe ... þú varst rúmlega tvítugur. Góða ferð elsku bróðir í sumarlandið.

Elsku Sirra, börn og ástvinir allir, innilegar samúðarkveðjur.

Þinn bróðir,

Jón Kristinn (Nonni).