Guðmundur Jóhannsson
Guðmundur Jóhannsson
Eftir Guðmund Jóhannsson: "Fyrsti snjallsíminn er oft fyrsta snerting barna við netið, en þar geta leynst hættur. Foreldrar ættu að skoða tól til að stýra notkuninni."

Því fylgir eðlilega oft mikil spenna og gleði þegar börnin okkar eignast sinn fyrsta snjallsíma. Þar opnast nýr heimur samskipta við vini og fjölskyldu og nægtarborð skemmtunar og fróðleiks bíður þeirra. En eins frábær og öll þessi öpp eru ásamt netinu sjálfu leynast hætturnar víða. Það er því okkar sem foreldra og uppalenda að leiðbeina og halda í hönd þeirra á meðan þau stíga sín fyrstu skref í stafrænum heimi.

Við sem foreldrar ættum að vera meðvituð um eigin skjátíma, skjáhegðun og notkun okkar á netinu. Börnin okkar eru mörg hver vel meðvituð um skjátíma fullorðinna og þótt það sé oft snúið þurfum við að vera fyrirmyndir í notkun stafrænnar tækni rétt eins og við reynum að vera það í lífinu almennt.

Nútímatækni getur verið flókin, en blessunarlega eru til gjaldfrjáls og góð tól til að stýra skjánotkun yngri kynslóðarinnar þannig að hún geti notið tækninnar í öruggara umhverfi. Þessi tól gefa foreldrum hugarró og veita þeim möguleikann á að loka á óæskilegt efni, stýra hvaða forrit eru sett upp í snjalltækinu, stjórna skjátímanum og sjá staðsetningu tækjanna. Dæmi um gjaldfrjáls og þægileg tól eru t.d. Apple Screen Time fyrir iPhone og iPad og Google Family Link fyrir Android-tæki sem vert er að mæla með.

Netið sjálft er opið en við viljum helst ekki að það sé galopið fyrir þau sem yngri eru. Því er sniðugt að foreldrar setji að minnsta kosti sjálfvirkar netsíur á, sem loka sjálfkrafa á ákveðin vefsvæði sem talin eru ekki henta yngri netnotendum. Að auki geta foreldrar auðveldlega bætt við öðrum heimasíðum sem þau vilja ekki að börnin heimsæki. Þannig er hægt að loka á heimasíður þar sem t.d. neteinelti og óæskileg umræða fer fram og þannig hafa foreldrar ákvörðunarvaldið um hvaða heimasíður virka á tæki barnanna sinna.

Að sama skapi er hægt að stýra hvaða forrit er hægt að ná í, þannig kemur tilkynning í síma skilgreinds forráðamanns sem samþykkir eða hafnar að snjalltæki barnsins megi ná í viðkomandi forrit. Þótt mörg forrit í snjallsíma virki sakleysisleg og skemmtileg er það ekki alltaf raunveruleikinn. Það er góð regla að kynna sér þau forrit sem barnið óskar eftir að ná í þar sem t.d. margir tölvuleikir eru með innbyggðri spjallvirkni, kannski viljum við ekki að hver sem er geti haft samskipti við börnin okkar í gegnum tölvuleik. Svo er vert að taka fram að margir tölvuleikir og samfélagsmiðlar eru með skilgreind aldurstakmörk sem oft eru um 13 ára aldur.

Til eru viðmið um æskilegan skjátíma barna og unglinga sem gott er að miða við. Þannig er með auðveldum hætti hægt að stýra skjátíma tækja þannig að þau hætti að virka þegar skjátíminn rennur út en þó þannig að barnið geti alltaf hringt eða sent skilaboð í t.d. síma foreldra sinna og því tækið ekki óvirkt sem öryggistæki þótt skjátíminn sé uppurinn. Sömuleiðis er sniðugt að setja upp ákveðinn niðritíma, að tæki sé óvirkt fyrir og eftir ákveðnar tímasetningar en slíkar stillingar hjálpa til við mögulega skjáfíkn og tryggja að ekki sé verið að laumast í tækin.

En þótt skjátíminn sé uppurinn er hægt að veita undanþágur með einföldum hætti enda er skjátími ekki í eðli sínu neikvæður, það fer auðvitað eftir því hvað er verið að gera hverju sinni. Þannig er hægt að gefa meiri tíma þegar verið er að lesa sér til gagns, læra á hljóðfæri, spila þroskandi tölvuleik o.fl.

Ekkert tól er fullkomið og börn eru í mörgum tilvikum með betri tæknikunnáttu en foreldrarnir. Því má ekki gleyma að samtal foreldra við börn sín um ábyrga netnotkun og hvað beri að varast á netinu er mikilvægasta tólið. Við eigum að hvetja til áhorfs og notkunar á áhugaverðri og uppbyggilegri afþreyingu í snjalltækjum, huga að almennu netöryggi og njóta tækninnar saman með börnunum okkar.

Höfundur er samskiptafulltrúi Símans. gudmundurjoh@siminn.is

Höf.: Guðmund Jóhannsson