Í heimspressunni Þetta er myndsem birtist m.a. á CNN og fleiri fréttamiðlum þegar Sveinn Snorri kom fram nakinn í gosinu í Geldingadal.
Í heimspressunni Þetta er myndsem birtist m.a. á CNN og fleiri fréttamiðlum þegar Sveinn Snorri kom fram nakinn í gosinu í Geldingadal.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sveinn Snorri Sighvatsson fæddist 14. júní 1971 í Reykjavík og þegar hann var fimm ára gamall flutti fjölskyldan í Garðabæinn þar sem hann ólst upp. „Ég var í sveit hjá móðursystur minni á Raufarhöfn og þar náði ég í þessa náttúru sem ég er svo hrifinn af. Ég elskaði að vera í sveitinni, veiða minka og silung. Ég var þarna fleiri sumur og þar hófst hrifning mín af landinu okkar fagra.

Sveinn Snorri Sighvatsson fæddist 14. júní 1971 í Reykjavík og þegar hann var fimm ára gamall flutti fjölskyldan í Garðabæinn þar sem hann ólst upp. „Ég var í sveit hjá móðursystur minni á Raufarhöfn og þar náði ég í þessa náttúru sem ég er svo hrifinn af. Ég elskaði að vera í sveitinni, veiða minka og silung. Ég var þarna fleiri sumur og þar hófst hrifning mín af landinu okkar fagra.

Áföll leiddu til ákvörðunar

Sveinn gekk í Hofsstaðaskóla í tvö ár og fór þaðan í Flataskóla og síðan í unglingadeildina í Garðaskóla. „Vinafólk foreldra minna bjó í Aratúninu og foreldrar mínir fluttu í sömu götu. Þar kynntist ég æskuvini mínum, Ívari Helga Óskarssyni, en við vorum miklir vinir í gegnum æskuna, enda vorum við í sama bekk í gegnum skólakerfið alveg upp í Fjölbrautaskólann í Garðabæ. Sveinn átti þó eftir að upplifa mikla sorg, en Ívar Helgi lést árið 1991 og var það mikill harmdauði. Fleiri vinir og kunningjar hans létust langt fyrir aldur fram, og árið 2011 voru fimm úr vinahópnum látnir. Það hafði djúpstæð áhrif á Svein. „Ég segi alltaf að það hafi markað mig fyrir lífstíð og gert það að verkum að ég sá að ég yrði að ákveða hvernig ég ætlaði að lifa lífinu. Ég ákvað að njóta augnabliksins bara hér og nú, því eftir allan þennan missi, þá horfi ég á lífið allt öðruvísi og vil njóta hverrar mínútu sem ég hef. Þannig lifi ég lífinu enn þann dag í dag og ég geri ekkert sem er leiðinlegt heldur einbeiti mér að því sem ég hef gaman af.

Sveinn byrjaði í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ en færði sig yfir í Fjölbrautaskólann í Breiðholti og lærði rafvirkjun með áherslu á ensku. „Ég var svolítið að ströggla í náminu á þessum tíma, og tók mér pásu og lauk náminu seinna og fór þá líka í eitt ár í ensku í Háskólann í Reykjavík. Í náminu var ég að vinna hjá Samútgáfunni Korpus sem gaf út tímarit og var að taka ljósmyndir og fara í sendiferðir og fleira. Ég fann að sá hreyfanleiki og fjölmiðlunin átti vel við mig, en ég get ekki hugsað mér að sitja við skrifborð heilu og hálfu dagana. Ég var síðan aðeins að vinna við rafvirkjun, en fann mig ekki þar. Fjöllin og ævintýramennskan kölluðu alltaf í mig.“

Sveinn byrjaði að vinna í útvarpi 1988 og var lengst á Bylgjunni og var með ýmsa þætti, t.d. Reykjavík síðdegis með Þorgeiri Ástvalds og Hvata (Sighvati Jónssyni). „Starfið var fjölbreytt og fjölmiðlun átti vel við mig að mörgu leyti, en það var mikill hraði sem mér fannst gaman, en eftir á að hyggja var hraðinn kannski of mikill.“ Sveinn hélt alltaf tengslum við íslenska náttúru og var í Hjálparsveit skáta í Garðabæ og Björgunarhundasveit Íslands frá 1990 fram að 2007, auk þess að vera í Oddfellow. „Ég hætti í fjölmiðlun árið 2003 og fór að vinna sem öryggisráðgjafi og sölustjóri, en árið 2010, eftir kreppuna miklu, tók ég snarpa beygju og gerðist leiðsögumaður. Þar finn ég mig og vissi að fara um Ísland með fólki og vera úti í náttúrunni var lífið sem ég vildi lifa.“

Núna þegar þjóðin og allur heimurinn var í einangrun í heimahúsum og margir orðnir ansi framlágir sá Sveinn tækifærið í stöðunni, og smíðaði hlaðvarpsstúdíó. „Já, ég og Linda Baldvins, sem er pistlahöfundur á Morgunblaðinu líka, erum með hlaðvarpið 180 gráður Lindu og Svenna og hægt er að hlusta á það á hlaðvarpi Morgunblaðsins og á Spotify.

Berrassaður í eldgosi

Sveinn komst í fréttir fyrr á árinu þegar myndir af honum berrössuðum við gosið í Geldingadal fóru eins og eldur í sinu á Tik Tok út um heiminn. „Við vorum á þriðja degi uppi við gosstöðvar, margir leiðsögumenn og allir atvinnulausir eftir Covid. Það voru líklega 500 manns í fjallinu að horfa á gosið. Ein góð vinkona mín hnippir í mig og segir að það væri nú flott að láta taka af sér myndir nöktum með gosið í baksýn. Það þurfti ekki að segja mér það aftur, þvílík er hvatvísin, og ég hugsaði hvað gæti verið meira "extreme" en að vera nakinn með sólgleraugu að pósa með eldglæringarnar í baksýn. Svo ég reif mig úr fötunum, henti sólgleraugunum á nefið og stillti mér upp. Einhver tók þetta upp á Tik Tok og það fór hringinn um jörðina á innan við sekúndu. Viðbrögðin sem ég hef fengið við þessu eru alveg ótrúleg.“

Það er víst að tiltækið er góð auglýsing fyrir Svein og leiðsögumennskuna og alveg í takt við lífsspeki hans að grípa tækifærin og njóta augnabliksins. Sveinn lét húðflúra á handlegginn á sér: „Allir dagar eru góðir dagar“ til þess að hafa afstöðu sína skjalfesta á eigin skinni og hann sýnir það í verki hvað það getur verið skemmtilegt að njóta augnabliksins og vera frjáls eins og fuglinn.

Fjölskylda

Lífsförunautur Sveins er Holly Elizabeth Spice, f. 13.8. 1990, leiðsögumaður og doktor í jarðfræði. Fyrri maki Sveins er Sigríður Linda Kristjánsdóttir, f. 17.12. 1968, skristofustjóri. Barn Sveins og Sigríðar er Arnar Helgi Linduson, f. 5.8. 2005, nemi. Fóstursynir Sveins eru Daníel Freyr Sævarsson, f. 11.2. 1993, nemi og Dagur Snær Sævarsson, f. 17.12. 1986, nemi. Systkini Sveins eru Anna Þorbjörg Thoher, f. 14.3. 1960, listfræðingur og Andrés Birkir Sighvatsson, f. 21.6. 1974, forritari.

Foreldrar Sveins eru hjónin Arna Borg Snorradóttir, f. 6.4. 1944, skrifstofukona og Sighvatur Sveinsson, f. 27.1. 1941, rafvélameistari. Þau búa í Garðabæ.