Stjórnarandstaðan grét jafnvel frumvörp sem hún var mótfallin

Alþingi lauk störfum um helgina og mun að líkindum ekki koma saman á ný fyrr en að kosningum loknum. Þingið bar vitaskuld merki komandi kosninga og þess vegna er ekki ástæða til að taka öllu sem þar var sagt nema í því samhengi.

Engu að síður var athyglisvert að fylgjast með umræðunum undir lokin, ekki síst þeim sem Píratar buðu upp á og þá einnig flokkarnir tveir sem í öllum meginatriðum mega teljast systurflokkar þeirra, Samfylking og Viðreisn.

Hörð gagnrýni kom frá þessum flokkum á stjórnarflokkana fyrir að hafa ekki afgreitt fleiri mál og virtist þar engu skipta hvort systurflokkarnir væru hlynntir málunum eða ekki, þeir vildu ólmir að þau fengju umræður og afgreiðslu.

Tvö áberandi dæmi voru stjórnarfrumvarp um hálendisþjóðgarð og þingmannafrumvarp forsætisráðherra um stjórnarskrárbreytingar. Þingmenn systurflokkanna þriggja ræddu mjög um hve ómögulegt stjórnarskrárfrumvarpið væri og virtust alls ekki geta fellt sig við það, en hafa engu að síður gagnrýnt harðlega að það fengi ekki afgreiðslu!

Staðreyndin er sú að engin sátt er um þær hugmyndir sem fram hafa komið um breytingar á stjórnarskránni og lítil von um slíka sátt á meðan flokkar á borð við Pírata eru háværastir í umræðunni og líta á alla þá sem hafa aðrar skoðanir sem óvini sem útiloka eigi frá völdum og reyna að valta yfir í þinginu. Slíku ofríki vill þessi litli flokkur beita stærsta þingflokkinn, þann sem er með langmestan stuðning meðal landsmanna, og það skal allt gert í nafni lýðræðis.

Þessir þrír flokkar grétu það líka að ekki væri afgreitt frumvarp um hálendisþjóðgarð, en í því tilfelli, ólíkt stjórnarskrárfrumvarpinu, virtust þeir styðja málið. Þeir vildu knýja málið í gegn þrátt fyrir allan þann fjölda athugasemda sem fram hefur komið og þær augljósu efasemdir sem uppi eru í þjóðfélaginu, ekki síst hjá þeim sem mestra hagsmuna eiga að gæta. Afar mikilvægt er að þetta mál skuli ekki hafa verið afgreitt og gildir þá einu hvort það var gert með þeim óvenjulega hætti sem raun varð á eða hvort það hefði fengið að sofna í nefnd.

Breytingar á stjórnarskránni er mál sem ekkert kallar á og farsælast væri að legðist í dvala í drjúgan tíma svo áhugamenn um það fengju tóm til að endurmeta afstöðu sína og gætu losnað úr þeim klóm þráhyggjunnar sem þeir hafa verið fastir í um árabil.

Hálendisþjóðgarðurinn er annars eðlis. Þar er á ferðinni varasöm hugmynd sem full ástæða er til að fáist rædd nú í aðdraganda kosninga og að flokkarnir geri skýra grein fyrir afstöðu sinni til málsins. Inn í það verða að fléttast umræður um rammaáætlun og það ferli allt, sem í ljós hefur komið að dugar engan veginn til að taka afstöðu til virkjanakosta eða stuðla að eðlilegum framkvæmdahraða þar sem á annað borð þykir ástæða til að ráðast í framkvæmdir.