Barnamenningarhátíð Lagið Fljúgandi furðuverur var vinsælt í krakkakaríókí á barnamenningarhátíðinni.
Barnamenningarhátíð Lagið Fljúgandi furðuverur var vinsælt í krakkakaríókí á barnamenningarhátíðinni. — Ljósmynd/Harpa Rut Hilmarsdóttir
Hólmfríður María Ragnhildardóttir hmr@mbl.is Barnamenningarhátíðinni í Reykjavík lauk formlega um helgina með þéttri dagskrá á Árbæjarsafni en hátíðin hófst 20. apríl síðastliðinn.

Hólmfríður María Ragnhildardóttir

hmr@mbl.is

Barnamenningarhátíðinni í Reykjavík lauk formlega um helgina með þéttri dagskrá á Árbæjarsafni en hátíðin hófst 20. apríl síðastliðinn.

Góð mæting þrátt fyrir veður

Harpa Rut Hilmarsdóttir, verkefnastjóri barnamenningar, kveðst ánægð með hversu vel hefur gengið og segir hún gesti hátíðarinnar ekki hafa látið veðrið á sunnudaginn á sig fá en fólk mætti vel klætt og gat dansað úti í rigningunni.

Harpa segir góða mætingu hafa verið en fjölbreyttur hópur Reykvíkinga og nærsveitunga lét sjá sig báða dagana. „Fólk kemur hingað [í Árbæjarsafn] og er að njóta allan daginn. Þeir sem mættu í gær komu meira að segja aftur í dag,“ segir Harpa Rut.

Hátíðin í ár var ekki með hefðbundnu sniði vegna heimsfaraldursins en dagskráin teygðist yfir tveggja mánaða tímabil en ekki sex daga eins og vaninn er. Auk þess voru ekki jafn margir stórir viðburðir og áður. Var þá lögð meiri áhersla á að hafa fleiri en færri viðburði vegna sóttvarna.

Skapandi vettvangur fyrir börn

Lag barnamenningarhátíðarinnar heitir Fljúgandi furðuverur og var samstarfsverkefni fjórðu bekkinga í Reykjavíkurborg ásamt tónlistarfólkinu Bríeti Ísis Elfar og Pálmari Ragnari Ásgeirssyni. Voru krakkarnir beðnir um að skrifa niður á blað hvað það væri sem þeim þætti raunverulega skipta máli í lífinu og fengu Bríet og Pálmar það verkefni að semja lag og texta út frá þeim niðurstöðum. Fjallar lagið meðal annars um mikilvægi þess að vera þú sjálfur, flokka plast og ræða heimsmálin.

Einn af dagskrárliðum hátíðarinnar var krakkakaríókí og virtust flestir krakkarnir vera með texta lagsins á hreinu en að sögn Hörpu Rutar var þetta lag afar vinsælt. „Þetta var svona fjórða hvert lag í karíókíinu. Þau kunna textann algjörlega.“

Segir Harpa mikilvægt að barnamenningarhátíðin sé vettvangur þar sem börn fái tækifæri til að skapa. „Það er alveg ótrúlegt þegar vettvangurinn er til staðar, hvað það býr mikið í krökkunum og hvað þeir geta mikið.“