Í Vísnahorni á fimmtudag fór ég rangt með nafn Stefáns Bergmanns Heiðarssonar, sem ég bið hann afsökunar á. Ég sagði hann Hreiðarsson en ekki Heiðarsson og er auðvitað athyglisbresti hjá mér um að kenna.

Í Vísnahorni á fimmtudag fór ég rangt með nafn Stefáns Bergmanns Heiðarssonar, sem ég bið hann afsökunar á. Ég sagði hann Hreiðarsson en ekki Heiðarsson og er auðvitað athyglisbresti hjá mér um að kenna. En staka hans er svona:

Innihaldið ekki neitt

enda vondur penni.

Vísnahornið þunnt og þreytt,

þumbast gamalmenni.

Ingólfur Ómar laumaði að mér hestavísu og voru tildrögin þau, að hann átti einu sinni jarpan klár sem var afskaplega frár á fæti og viljugur eftir því. Þegar hann leit til baka varð þessi vísa til.

Sporagreiður spænir rót

sperrtur reiðargarpur.

Yfir heiðar, urð og grjót

ólmur skeiðar Jarpur.

Á Boðnarmiði yrkir Guðmundur Arnfinnsson og kallar „Vinslit“:

Við Eyvi hér áður vorum

einlægt í svipuðum sporum,

milli vina vík

varð í pólitík,

sitt þegar sýndist hvorum.

Hér yrkir Guðmundur um tenórana þrjá:

Fuglinn í fjörunni syngur,

flautar hann spóalingur,

háfleygur tjaldur

og heldur við aldur

á hæstu tónunum springur.

Halldór Halldórsson skrifar: „Þegar ég lít út um gluggann hér á Holtinu og sé kappklætt fólk í göngutúr á vori fer ég að skilja hrísluna mína sem yrkir“:

Vorið um mig næðir napurt,

nákalt finn ég on'í rót;

laufskjól greina lítt og dapurt;

langar bað í sólu mót!

Anna Dóra Gunnarsdóttir segir svo frá: „Jón Jónsson ætlaði á veiðar á heiðum uppi. Þetta varð algjörlega misheppnuð ferð, því að hann náði aldrei að munda frethólkinn“:

Hann lífinu týndi í leiðinni,

er lagð' ann í ferð á heiðinni.

Í holu hann hrundi

og hrelldur þá stundi,

- verst að ég missti af veiðinni –.

Ágúst H. Bjarnason segir svo frá, að skólabróðir og gamall vinur hnauð (hnjóðaði) í hann fyrir að skrifa z. – Ágúst svaraði: „Heilræði til KL“:

Ætíð vanda áttu helzt

eftir beztu getu

allt, sem jafnan tildur telst,

til að mynda z.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is