Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson
Veronika Steinunn Magnúsdóttir veronika@mbl.is Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir niðurstöðu prófkjörsins í Suðvesturkjördæmi bera vott um stuðning til þingmanna kjördæmisins.

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir niðurstöðu prófkjörsins í Suðvesturkjördæmi bera vott um stuðning til þingmanna kjördæmisins. Bjarni bauð sig einn fram til forystu í kjördæminu og hlaut sannfærandi kosningu í oddvitasætið, eða 3.825 atkvæði.

Í öðru sæti hafnaði Jón Gunnarsson, ritari flokksins, en hann hlaut 1.134 atkvæði í 1.-2. sæti. Einungis munaði þrettán atkvæðum á honum og Bryndísi Haraldsdóttur, sem hlaut 1.121 atkvæði í 2. sæti, en hún fékk þriðja sætið á listanum með samtals 1.616 atkvæði í 1.-3. sæti.

Spurður hvernig úrslitin horfi við honum segir Bjarni: „Ég auðvitað gleðst yfir því að fá mikinn stuðning. Mér fannst fín þátttaka í þessu prófkjöri og það er nú oft sagt að það sé erfitt að hreyfa við þingmönnum í prófkjörum en það er nú ekki algilt. En það er ljóst að niðurstaðan sýnir stuðning við þingmenn kjördæmisins,“ segir Bjarni.

Hann bætir við að prófkjör séu af hinu góða og þátttakan muni veita flokknum mikinn styrk inn í haustið. „Síðan er ég nú bara mjög ánægður með hvernig prófkjörið fór fram. Það var uppbyggilegur tónn og mjög bjart yfir þeim sem tóku þátt,“ segir Bjarni.

Bryndís Haraldsdóttir er eina konan sem náði kjöri í efstu fimm sætin en Sigþrúður Ármann hafnaði í því sjötta. Vakti hún máls á því í samtali við mbl.is í gær að sér hefði þótt listinn sterkari með fleiri konur í efstu sætum. Spurður um þessi ummæli segir Bjarni: „Ég virði alveg þessa skoðun og það má vera að þetta sé rétt. Ég held engu að síður að þetta sé sterkur listi og vonast til þess að hún verði með okkur í sjötta sætinu og að við getum farið í kosningabaráttuna til þess að bæta við okkur þingmönnum,“ segir hann.

Öllum prófkjörum flokksins er nú lokið að Norðvesturkjördæmi undanskildu, þar sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýsköpunar- og ferðamálaráðherra, og Haraldur Benediktsson þingmaður berjast um fyrsta sætið.