Sigurður J. Sigurðsson
Sigurður J. Sigurðsson
Eftir Sigurð J. Sigurðsson: "Þessi aðferð við að reikna afgjald af fasteignum í sveitarsjóði sem byggist á fasteignamati er röng."

Í byrjun febrúar 2019 skrifaði ég grein í Morgunblaðið um fasteignaskatta og á hvern hátt væri hægt að slíta sundur þau tengsl sem nú eru milli þessa tekjustofns sveitarfélaga og fasteignamats.

Nú, rúmum tveimur árum síðar, kemur enn á ný upp sami kvörtunartónninn og oft áður um að hækkanir fasteignamats séu miklar og langt umfram aðra mælikvarða, svo sem neysluvísitölu, vísitölu launa og verðbólguútreikninga.

Sveitarfélögin leggja þennan skatt á flestallar fasteignir, heimili og atvinnuhúsnæði til að standa undir óskilgreindri þjónustu sveitarfélaga. Hvergi kemur fram í lögum um tekjustofna sveitarfélaga til hvers þessar skatttekjur skuli nýta.

Allir sem þekkja til breytinga á fasteignamati vita að slíkar breytingar endurspegla verð fasteigna sem ganga kaupum og sölu. Fyrir þá sem eru að selja eignir eða kaupa er þetta ákveðin mælistika og hið sama gildir um hækkun matsvirðis eigna í atvinnurekstri. Breytingar sem verða langt umfram almenna verðlagsþróun og launabreytingar auka á útgjöld húsnæðiseigenda og endurspeglast í leiguverði.

Þessi aðferð við að reikna afgjald af fasteignum í sveitarsjóði sem byggist á fasteignamati er röng. Sveiflur í fasteignaverði eiga ekki að ákvarða tekjustofna sveitarfélaga. Það er líka óréttlátt að eignir af sömu stærð greiði mismunandi fasteignaskatt eftir aldri eigna í sama sveitarfélagi.

Í nútímaupplýsingakerfum er einfalt að halda utan um stærð fasteigna, breytingar á stærð og skráða eigendur. Þar er líka auðvelt að ákvarða álagningu fasteignaskatts og innheimtu.

Það er síðan ákvörðun stjórnvalda að ákvarða verðmiða skattsins. Mörg sveitarfélög hafa beitt slíkri aðferð gagnvart öðrum fasteignagjöldum, s.s. holræsagjaldi og vatnsgjaldi, sem sýnir hversu einfalt þetta er í framkvæmd og röksemdinni fyrir slíkri breytingu hefur almennt verið vel tekið.

Ég hvet sveitarstjórnarmenn og stjórnvöld til að ígrunda breytingar frá núverandi fyrirkomulagi og auka með því jöfnuð meðal fasteignaeigenda og koma í veg fyrir óhóflegar breytingar tekjustofns milli ára.

Höfundur er fv. bæjarfulltrúi og er áhugamaður um fjármál sveitarfélaga. sigjohsig@internet.is

Höf.: Sigurð J. Sigurðsson