Kristjana Friðbertsdóttir (Systa) fæddist 22. september 1939. Hún lést 24. maí 2021.

Útförin fór fram 12. júní 2021.

Það sem ég á eftir að sakna hennar stóru systur minnar, en hún var af flestum kölluð Systa. Við ólumst upp við leik og störf í sveitinni, hún fór ung að vinna í Kaupfélagi Súgfirðinga og þegar ég fór að vinna á sama stað, var hún búin að stofna heimili og fjölskyldu og fékk ég fæði hjá þeim Hadda og aðgang að saumavél. Svo flutti ég til Reykjavíkur, en oft var gist í fríum hjá þeim á Suðureyri. Systa var mjög greiðvikin, félagslynd og glaðvær. Það kom oft í hennar hlut að hugsa um börn og bú þar sem Haddi var oft í burtu vegna starfa sinna sem sjómaður. Við fjölskyldan komum vestur með okkar yngsta barn mánaðargamalt og þá var drifið í að láta skíra stelpuna og sló Systa upp skírnarveislu eins og ekkert væri. Hún passaði svo þetta stelpuskott, Svölu eins árs, þegar við hjónin fórum til útlanda í þrjár vikur.

Þegar þau fluttu í Þorlákshöfn þá styttist á milli heimsókna og svo heimsóttu þau okkur meðan við vorum í Danmörku. Eftir að við komum heim aftur fékk ég vinnu hjá þeim í Bókabúð Breiðholts, en þá voru þau flutt til Reykjavíkur og jókst þá samvera okkar. Við fylgdumst að í starfi Kiwanis, Súgfirðingafélagsins, frænkufundi og öðrum heimsóknum og svo áttum við yndislegar stundir með þeim í sumarbústaðnum í Borgarfirði, þeirra Paradís.

Þau voru dugleg að ferðast og góðir ferðafélagar og eru eftirminnilegar margar ferðirnar, Taíland, Ríó, Egyptaland, siglingar í Miðjarðarhafi og Karabíska. Þá kynntu þau okkur fyrir Kanaríeyjum og góðar voru ferðirnar þangað. Síðasta ferðin með þeim var til Benidorm þar sem þau ætluðu að stinga af í tilefni 80 ára afmælis þeirra 2019. Þegar við fengum að vita það pöntuðum við Baldur líka í sömu ferð og sama gerðu Ásta og Kjartan. Þau fengu ekki að vita um það fyrr en skömmu fyrir brottför. Þarna fengum við yndislegan tíma saman í systraferð. Svo kom Covid og setti stopp á allar utanlandsferðir. Nokkrar systraferðir voru líka farnar innanlands og voru góðar útilegur. Við Systa fórum stundum í bæjarferðir, svona til að „toga í tuskur“, fá okkur svo kaffi og tertu og ræða málin.

Eftir að hún flutti nær mér dró ég hana með mér í línudans og prjónakaffi í Gerðubergi og það síðasta fjórum dögum áður en hún dettur og var flutt á sjúkrahús þar sem æxlið fannst sem dró hana að lokum til dauða, tók aðeins tvo mánuði. Svo erfitt sem það var tók hún því af æðruleysi eins og hennar var von og vísa, hafði meiri áhyggjur af fjölskyldu sinni sem eftir yrði og sumir langt í burtu. Hún gat búið heima í einn mánuð þar sem allir reyndu að hlúa að henni sem best og Haddi snerist í kringum hana allan sólarhringinn, en eftir að hún dettur aftur, þá lömuð á vinstri hlið, beið aðeins sjúkrahúsvist, síðast á líknardeildinni þar sem hún lést 24. maí. Það verður erfitt að sætta sig við að hittast ekki óvænt eða í boði hjá okkur eða þeim.

Elsku Haddi og fjölskylda öll, hugur okkar fjölskyldu er hjá ykkur. Við þökkum yndislega samfylgd og geymum ljúfar minningar um hana Systu okkar.

Kristín.