G7 Leiðtogarnir sjö ásamt fulltrúum Evrópusambandsins.
G7 Leiðtogarnir sjö ásamt fulltrúum Evrópusambandsins. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Leiðtogar sjö helstu iðnríkja heims hétu því að þeir myndu gefa einn milljarð skammta af bóluefnum gegn kórónuveirunni til fátækari ríkja heims, en leiðtogafundi þeirra, sem haldinn var í Cornwall, lauk í gær.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Leiðtogar sjö helstu iðnríkja heims hétu því að þeir myndu gefa einn milljarð skammta af bóluefnum gegn kórónuveirunni til fátækari ríkja heims, en leiðtogafundi þeirra, sem haldinn var í Cornwall, lauk í gær.

Samþykktu leiðtogarnir einnig að herða á baráttunni gegn hlýnun jarðar, en þeir beindu spjótum sínum einnig gegn Rússum og Kínverjum. „Við munum beisla kraft lýðræðisins, frelsis, jafnréttis, réttarríkisins og virðingu fyrir mannréttindum til þess að svara stærstu spurningunum og mæta mestu áskorununum,“ sagði í sameiginlegri yfirlýsingu fundarins, sem jafnframt var fyrsti fundur Joes Bidens Bandaríkjaforseta með helstu bandamönnum Bandaríkjanna.

Sagði Biden á fréttamannafundi við lok leiðtogafundarins að hann og kollegar hans væru sammála um að „Bandaríkin væru aftur komin að borðinu“, en Biden mun næst halda til Brussel og sækja þar leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins. Sagði Biden að sameiginlegar varnir bandalagsríkjanna væru „heilög skylda“ Bandaríkjamanna.

Á miðvikudaginn mun Biden svo funda með Vladimír Pútín Rússlandsforseta í Genf, en Biden sagði að hann leitaðist ekki eftir „ágreiningi“ við Rússland eða Kína. Engu að síður myndi hann setja fram skýr skilyrði sem þyrfti að uppfylla áður en samskipti stórveldanna tveggja gætu batnað.

Boris Johnson, forsætisráðherra Breta og gestgjafi fundarins, hrósaði Biden í hástert og sagði að iðnríkin sjö stæðu nú sameinuð á ný vörð um hin „lýðræðislegu gildi“.

Gagnrýnendur sögðu hins vegar að loforð leiðtoganna hrykkju skammt til þess að mæta þörf fátækari ríkja á bóluefnum, en áætlað er að 11 milljarða skammta sé þar þörf.

Biden fékk sér te með Englandsdrottningu

Joe Biden Bandaríkjaforseti og forsetafrúin Jill Biden hittu Elísabetu 2. Englandsdrottningu í Windsor-höllinni í gær. Biden-hjónin ferðuðust frá Cornwall með Air Force-þotu forsetans til London og tóku síðan þyrlu frá Heathrow-flugvellinum til Windsor. Heimsóknin stóð yfir í um klukkustund og greinir BBC frá því að forsetinn hafi drukkið te með drottningunni. Heimsóknin var í kjölfar leiðtogafundar G7-ríkjanna.