Guðný Egilsdóttir fæddist í Byggðarholti í Lóni, Austur-Skaftafellssýslu, 27. desember 1936. Hún lést föstudaginn 28. maí 2021 á Hrafnistu Sléttuvegi.

Foreldrar hennar voru Egill Benediktsson, f. 7.2. 1907, d. 18.11. 1986 og Guðfinna Sigurmundsdóttir, f. 25.1. 1911, d. 25.8. 1999. Systkini Guðnýjar eru Benedikt, f. 13.4. 1934, Óttar, f. 30.10. 1935, d. 16.4. 1950, Stefán, f. 19.1. 1940, d. 28.1. 1973 og Kristín, f. 13.3. 1949.

Guðný giftist 30. október 1959 Sigurði Einarssyni frá Hvalnesi í Lóni, f. 23.6. 1925, d. 29.1. 2009. Foreldrar hans voru Einar Eiríksson, f. 10.6. 1883, d. 3.1. 1973 og Guðrún Þórðardóttir, f. 14.9. 1884, d. 9.7. 1926.

Dóttir Guðnýjar var Hulda Árdís Guðnýjardóttir, f. 22.8. 1954, d. 9.6. 1957.

Dætur Guðnýjar og Sigurðar eru: 1) Oddný Þóra, f. 20.2. 1960. Maki Hrafn S. Melsteð, f. 15.10. 1959. Synir þeirra eru: Sigurður Már, f. 11.4. 1994 og Sigursteinn Orri, f. 8.8. 1996. 2) Hildur Árdís, f. 27.6. 1961, d. 26.7. 2020. Barnsfaðir Brynjar Einarsson, f. 9.2. 1965. Börn þeirra eru: a) Einar, f. 2.3. 1990. Maki Aldís Gróa Sigurðardóttir, f. 10.9. 1992. Börn þeirra eru: Guðný Líf, f. 14.2. 2016 og tvíburarnir Telma Lovísa og Sigurður Leó, f. 24.3. 2020. b) Guðný Hödd, f. 29.12. 1992, d. 31.5. 2004. 3) Eva Guðfinna, f. 8.6. 1962. 4) Erna Guðrún, f. 8.6. 1962. 5) Anna Signý, f. 13.9. 1963. Maki Kamel Benhamel, f. 18.2. 1967. Börn þeirra eru: Örn Calvin, f. 26.7 1993, Sólon, f. 24.9. 1997 og Embla Signý, f. 1.9. 2003.

Guðný ólst upp í Byggðarholti og síðar í Þórisdal í Lóni. Æska Guðnýjar litaðist af erfiðum áföllum. Hún veiktist ung af berklum og dvaldi langtímum saman á spítala vegna eftirkasta og hamlaði það frekari skólagöngu hennar. Guðný fluttist til Reykjavíkur upp úr tvítugu og vann á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur og fór í Hússtjórnarskóla Reykjavíkur. Hún og Sigurður byrjuðu búskap sinn í Reykjavík 1958 og fluttu síðar austur á heimaslóðir til Hafnar í Hornafirði árið 1959 og bjuggu þar til ársins 1989, lengst af í húsi sínu Miðtúni 1. Guðný var að mestu heimavinnandi framan af með stórt heimili, 5 börn og aldraða föðursystur Sigurðar, Oddnýju Sigríði Eiríksdóttur, sem gengið hafði honum í móðurstað. Auk þess bjó Stefán bróðir hennar um tíma hjá þeim. Heimili þeirra stóð ávallt opið öllum sem þangað vildu koma og var mikill gestagangur í gegnum tíðina.

Guðný vann vertíðarbundið við fiskvinnslu. Lengst af vann hún ýmis verslunarstörf bæði hjá tengdaföður sínum og síðar í Kaupfélaginu. Auk þess var hún umboðsmaður Morgunblaðsins og Dagblaðsins og sá um dreifingu þeirra til margra ára.

Árið 1989 fluttu Guðný og Sigurður til Reykjavíkur og áttu heimili á Ásvallagötu 17. Voru þau þá í meiri nálægð við dætur sínar og barnabörn. Guðný hélt áfram að vinna við verslunarstörf og þá hjá Pennanum í Austurstræti. Árið 2014 flytur Guðný í Bólstaðarhlíð 41, þá orðin ekkja og nýlega greind með parkinson. Hún flytur síðan á hjúkrunarheimili Hrafnistu á Sléttuvegi 25 fyrir rúmu ári þar sem hún kvaddi skyndilega.

Útförin fer fram frá Háteigskirkju í dag, 14. júní 2021, klukkan 15.

Við kvöddumst alltaf með faðmlögum og kossaflensi en hvernig kveð ég þig nú í hinsta sinn, elsku mamma mín? Allar minningarnar í gleði og sorg sem koma fram í þúsundum myndbrota sem ná yfir allt mitt líf. Sá tími er langur þar sem ég var mjög ung þegar ég byrjaði að safna í minningabankann. Söknuðurinn og sorgin er mikil yfir að minningarnar verði ekki fleiri en ég veit að „þegar þú ert sorgmæddur skoðaðu þá aftur huga þinn og þú munt sjá að þú grætur vegna þess sem var gleði þín“. (Kahil Gibran)

Ljóð Davíðs Stefánssonar, þíns uppáhaldsskálds, hljómar fyrir mér eins og það hafi verið samið við dánarbeð þinn, sem var svo fallegt alveg eins og þú.

Við sjáum, að dýrð á djúpið slær,

þó degi sé tekið að halla.

Það er eins og festingin færist nær

og faðmi jörðina alla.

Svo djúp er þögnin við þína sæng,

að þar heyrast englar tala,

og einn þeirra blakar bleikum væng,

svo brjóst þitt fái svala.

Nú strýkur hann barm þinn blítt og hljótt,

svo blaktir síðasti loginn.

En svo kemur dagur og sumarnótt

og svanur á bláan voginn.

Eins og sólin kemur alltaf upp aftur, þá átt þú alltaf þinn stað í hjarta mér og þín trú, von og kærleikur.

Mín hinsta kveðja er:

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.“

(Valdimar Briem)

Þín

Oddný.

Elsku mamma, þá er hún komin, kveðjustundin okkar. Engar fleiri heimsóknir, engar skemmtilegar samræður og faðmlög. Engar rúsínur eða brjóstsykur í skál, engar veitingar úr eldhúsinu, ekkert rölt um nágrennið né kaffihúsaferðir, engir ísbíltúrar og nú er bara þögn. Engin símtöl, röddin þín horfin. Ég heyri þig segja: Ætlið þið kannski að kíkja? Að fá að sjá ykkur, fjölskylduna mína er það sem ég lifi fyrir, sagðir þú og horfðir svo fallega í augun mín. Fjölskyldan var þér allt. Allar okkar stundir saman. Elsku mamma mín, hve sárt er að kveðja svo snögglega þó svo að við vitum öll að tíminn okkar kemur alltaf að lokum, þó við vitum ekki alltaf hvenær eða hverjir það eru sem eru næstir. Það þekkjum við svo vel. Þú varst samt sannfærð um að núna værir þú alveg örugglega næst. Það var ekki auðvelt fyrir þig að kveðja þína eigin dóttur síðastliðið sumar svo skyndilega og nú ert þú farin líka. Tvö síðustu ár voru þér ekki auðveld þó svo að þú ættir svo sannarlega þína góðu daga og gleðistundir. Að missa heilsuna, vera ófær um að búa á eigin heimili var svo sárt. Og við tók biðtími á þremur sjúkrastofnunum áður en þú varst svo heppin að fá inni á Sléttunni og þar áttum við saman yndislegar stundir þrátt fyrir lokanir og höft. Þú svo verkjuð en alltaf svo glöð að fá að sjá fólkið þitt á þessum erfiðu tímum hvort sem var innlit í gegnum glugga, símhringingar eða myndsímtal og best af öllu voru auðvitað heimsóknirnar. Og nú vorum við farin að hlakka til sumarsins. Nú ertu farin, elsku mamma mín, og eftir sit ég hér og sakna þín. Ég ætla að muna allar góðu gleðistundirnar og sorgirnar sem við áttum saman. Þú studdir mig alltaf, allt mitt líf og það kom að þeim degi sem ég gaf þér minn stuðning eins og ég gat og í hjarta mínu veit ég að við báðar gerðum alltaf allt okkar besta fyrir hvor aðra og ég veit að þú gerðir það líka fyrir alla aðra. Elsku mamma, ég kveð í þakklæti fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig, fyrir allt sem þú ert mér og allt sem þú kenndir mér og ég veit og ég vona að í mér búi eitthvað frá þér. Ég hef svo oft átt þá ósk að geta málað fallegri heim fyrir þig, elsku mamma mín. Ég sé fyrir mér ótal tímaskeið og fallega andlitið þitt í gegnum breytingar lífsins. Ég sé fallega, brosandi, sterka og hjartahlýja konu sem gafst aldrei upp. Lífið gaf þér hamingju, gleði og sigra og beygði þig og sveigði og særði þig djúpum sorgarsárum. Þú hélst alltaf áfram, elsku fallega mamma mín, alltaf, jafnt í gleði og sorg, þú gekkst leiðina þína og ég ætla að muna það fyrir mig. Þú hélst alltaf í trúna, vonina og kærleikann sama hvað gekk á. Táknmynd þess barst þú um hálsinn síðustu áratugina, þetta fallega men, svo nátengt þér og táknrænt fyrir þitt líf. Ég veit að innra með þér bjó óvenjumikill styrkur, óbilandi styrkur til að taka öllu því sem lífið gaf og halda alltaf áfram. Elsku mamma, nú ertu horfin að eilífu úr þessu lífi, inn í sumarlandið bjarta og ég ætla að geyma fallegu myndina af þér ávallt í hjarta mér.

Hún bar þig í heiminn og hjúfraði að sér.

Hún heitast þig elskaði og fyrirgaf þér.

Hún ávallt er vörn þín, þinn skjöldur og hlíf.

Hún er íslenska konan sem ól þig og helgar sitt líf.

Og loks þegar móðirin lögð er í mold

þá lýtur þú höfði og tár falla á fold.

Þú veist hver var skjól þitt þinn skjöldur og hlíf.

Það var íslenska konan sem ól þig og gaf þér sitt líf.

En sólin hún hnígur og sólin hún rís.

Og sjá þér við hlið er þín hamingjudís,

Sem alltaf er skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.

Það er íslenska konan, tákn trúar og vonar.

(Ómar Ragnarsson)

Takk fyrir allt og allt, elsku mamma mín.

Eva.

Ástkæra mamma mín hefur nú kvatt þetta jarðneska líf.

Það er góð og falleg minning, síðasta samveran okkar saman, degi fyrir andlátið. Ég sitjandi á bekk við hliðina á mömmu í hjólastólnum þar sem við nutum þess að vera saman í ró og næði, vera í hjartanu, hlusta á kyrrðina, eins og sálir okkar töluðu saman. Rabba saman og njóta sumarkomunnar. Finna ilminn, nýútsprungnir fíflar. Allt var að byrja að spretta, lifna við og springa út á sama tíma og sálin þín var á förum, hefja nýtt líf, sumarið þitt var að koma, elsku hjartans mamma mín. Fuglarnir sungu fyrir okkur. Við fylgdumst með og þú með fífil í hendi. Ég barnið þitt gaf þér fífil eins og ég væri ég lítil enn á ný. Gleði þín var hrein, gleði þín varð gleði í mínu hjarta eins og svo oft.

Það var alltaf svo gott að vera með þér og við leyfðum okkur að hlakka til sumarsins saman. Ég er óendanlega þakklát fyrir þessa fallegu stund og allar stundirnar með þér, lífið okkar saman.

Elsku mamma sem var svo ljúf og góð, með fallegt bros og nærveru. Mamma mín sem hefur lifað svo margt. Svo kærleiksrík, falleg, næm og þolinmóð, svo ótrúlega þrautseig og sterk. Við höfum lifað svo ótalmargt saman. Góðar og dýrmætar gleðistundir jafnt sem stór áföll og dimmar og þungar sorgir. Lífið gefur og lífið tekur, verkefnin eru misjöfn sem við mannfólkið fáum. Hvernig þú vannst úr þínu fannst mér alltaf aðdáunarvert. Þú hélst alltaf áfram eins vel og þú gast og sagðir svo oft „annað getur maður ekki gert“. Í mínum huga gerðir þú allt á eins fallegan hátt og mögulegt var, með óbilandi styrk og mikilli reisn. Það gerðir þú líka þegar kallið þitt kom, þú fórst ein, í friði og ró.

Fjölskyldan var mömmu allt og hún hélt ávallt svo fallega utan um alla. Mamma, kletturinn í lífi mínu ásamt pabba, þau voru svo samstiga og kærleiksrík.

Í hjarta mínu og huga er djúpt þakklæti fyrir tímann og stundirnar okkar saman og það að hafa getað stutt mömmu og styrkt þegar hún þurfti á að halda og fá að halda utan um hana eins og hún hefur haldið svo fallega og vel utan um mig, alltaf. Það var bæði hlegið og það var grátið saman. Mamma kenndi mér svo margt, hefur alltaf styrkt mig og stutt í gegnum lífið.

Ég er óendanlega þakklát fyrir okkar fallega og nána samband, allt fram á síðasta dag.

Ekkert er gefið í þessu lífi, aldrei, en ástina og kærleikann tekur enginn frá manni.

Megi sálin hennar mömmu lýsa fallega þar sem hún er nú, falleg og blíð, skær og björt, ástrík og kærleiksrík, eins og hún.

Minning um góða móður sem elskaði og gaf óskilyrt lifir í hjarta mínu og er með mér ávallt.

Óendanlegt þakklæti og ást til þín, elsku mamma mín.

Erna.

Elsku mamma verður borin til hinstu hvílu í dag. Lífið er fallegt og líka erfitt, elsku mamma þekkti það. Mamma stóð af sér mikla storma þó farangurinn hafi oft verið mjög þungur og maður skildi ekki hvernig hún fór að. Hún þurrkaði tárin mín, tár hennar runnu líka en oft innra með henni, tárin sem er svo erfitt að þerra. Nú græt ég án þín í fyrsta skipti, dauði þinn er fyrsta sorg mín sem ég tekst á við án þín. Ég elska mömmu nánast án þess að vita af því. Þegar hún er farin finn ég hvað ræturnar liggja djúpt og munu aldrei hverfa. Mamma var alltaf til staðar, hvatti mig áfram, vafði mig umhyggju, kenndi mér svo margt.

Mamma gaf mér fallegt hálsmen og eyrnalokka í mars fyrir ári, skart sem ég met mikils, við giftum okkur báðar með það. Daginn sem hún sagði mér að nú skyldi ég taka það og varðveita þá hringdi síminn og hún fékk pláss á hjúkrunarheimili sem hún var búin að bíða eftir. Þá sagði hún: „Það borgar sig að gefa, maður fær það alltaf margfalt til baka.“ Þessi saga minnir mig á aðra sögu, þegar ég var lítil stelpa á Höfn, mamma var að taka saman föt sem átti að senda til bágstaddra í Biafra. Hún hafði tekið rauða flauelspilsið mitt með. Ég var ekki alveg sátt með það en henni tókst að sannfæra mig. Þegar fréttir komu í sjónvarpinu frá Biafra um sendinguna, þá horfðum við á og hún benti mér á litla káta stelpu í rauða pilsinu mínu. Ég fattaði það ekki fyrr en löngu seinna hvað hún var heppin að myndirnar hefðu verið í svarthvítu. Ég sé enn litla káta stelpu í rauða pilsinu.

Börnin mín fengu líka að njóta ástar hennar og umhyggju. Það var alltaf svo gaman þegar afi og amma komu til Lyon. Svo amma ein, börnin mín nutu þess að deila sínu daglega lífi með ömmu. Amma kom og sótti þau í skólann, fór með þeim upp í „garðinn okkar“. Embla var svo glöð þegar amma kom á danssýningu hjá henni, þau spiluðu ólsen-ólsen saman. Amma kenndi þeim vísur sem þau kunna enn. Örn-Calvin, Sólon og Embla-Signý dáðu og dýrkuðu ömmu sína og sama var með Kam eiginmann minn. Þegar mamma hitti Kam í fyrsta sinn myndaðist strax gagnkvæm virðing milli þeirra og þó þau töluðu ekki sama tungumál myndaðist sterkt samband á milli þeirra. Örn-Calvin og Embla gátu því miður ekki verið með okkur í dag, hugur þeirra er hjá okkur. Við vorum orðin vön því að margir kílómetra skildu á milli en samt vorum við öll saman. Ég vissi þegar mamma kom fyrir áttræðisafmælið sitt til Frakklands með systrum mínum að það væri síðasta ferðin til Frakklands. En ég vonaði að við ættum eftir að koma oftar til Íslands til að sjá mömmu. Næsta ferð var plönuð í ágúst, ég trúði því að við myndum sjást einu sinni enn þó ég hafi á seinni árum oft haldið að þetta væri í síðasta sinn sem við hittumst.

Þetta einstaka orð mun ég aldrei segja framar við neinn: Mamma!

Elsku mamma, ég elska þig. Hvíldu í friði.

Anna Signý.