Ein táknrænasta mynd dagsins er af eldgosi í miðjum jarðvangi. Eldgosið í Geldingadölum braust upp í miðjum Reykjanes jarðvangi og staðfestir grundvöllinn að tilvist hans. Þeir jarðfræðilegu atburðir sem hafa staðið yfir frá byrjun árs 2020, fyrst með jarðskjálftum í nágrenni Grindavíkur og síðan með öflugri jarðskjálftahrinu í byrjun árs 2021, sem endaði með því að eldgos braust upp í Geldingadölum við Fagradalsfjall, eru lifandi skýring á því hver er forsenda Reykjanes jarðvangs. Enda er eldgosið og það hraun sem frá því flæðir nánast í miðjum jarðvanginum.
Undirbúningur að stofnun Reykjanes jarðvangs hófst árið 2012 en Reykjanes Geopark fékk alþjóðlega vottun og aðild að samtökunum European Geoparks Network árið 2015. Fyrrnefnd samtök eru samtök svæða sem þykja jarðfræðilega merkileg og njóta þau stuðnings UNESCO, Mennta-, menningar- og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna.
Reykjanes Unesco Geopark nær yfir öll sveitarfélögin á Reykjanesi og er hann 829 km
Jarðvangurinn nær yfir jarðmyndanir á svæðinu, sem grundvallast af Atlantshafshryggnum sem kemur á land við Reykjanesið og hefur Brú milli heimsálfa sem táknmynd. Reykjanes jarðvangur er vottaður af UNESCO, hefur hið alþjóðlega heiti Reykjanes UNESCO Global Geopark og á aðild að evrópskum og alþjóðlegum samtökum jarðvanga, sem eru víða um heiminn. Á Íslandi eru tveir viðurkenndir jarðvangar, auk Reykjanes jarðvangs er Kötlu jarðvangur á Suðurlandi.
Innan Reykjanes jarðvangs eru margar jarðmyndanir, margskonar jarðfræðileg fyrirbæri svo sem jarðhiti sem er nýttur í þágu samfélaganna á svæðinu og til margs konar atvinnustarfsemi. Mannlíf og atvinnulíf hefur í gegnum tíðina mótast af tilverunni á svæðinu og nálægðinni við náttúruna og náttúruöflin og svo mætti lengi telja. Þá má nefna að það er líklega einsdæmi á heimsvísu að alþjóðaflugvöllur heillar þjóðar sé staðsettur innan jarðvangs og að í næsta nágrenni hans standi yfir eldgos, án þess að það ógni umsvifum og starfsemi flugvallarins. Landsvæðið innan jarðvangsins er fjölbreytt að grunni til, til dæmis annars vegar virkt jarðskjálftasvæði með eldvirkni austan til og hins vegar svæði með mun eldri jarðlögum og sem er óvirkt vestan og norðan til. Sem dæmi er flugvöllurinn ekki staðsettur á virku jarðskjálftasvæði eða svæði þar sem líkur eru á að eldgos brjótist upp.
Það er full ástæða til þess að vekja athygli á framangreindum staðreyndum og því sérstaklega að eldgosið og öll atburðarásin í tengslum við það á sér stað nánast í miðjum Reykjanes jarðvangi. Jarðvangurinn hefur unnið að því að endurnýja gestastofu í DUUS húsum í Reykjanesbæ, þar sem eru upplýsingar og fræðsla um jarðvanginn. Þá hefur stjórn Reykjanes jarðvangs ákveðið að byggja einnig upp gestastofu og upplýsingamiðstöð í Grindavík, í samstarfi við Grindavíkurbæ, þar sem verða ýmsar upplýsingar og fræðsla um jarðvanginn, jarðsöguna og þá mögnuðu jarðfræði sem liggur að baki. Þannig hafi þeir gestir sem heimsækja gossvæðið, ganga að því og upplifa það, tækifæri til þess að kynna sér hvað liggur að baki slíkum atburðum sem eldgos eru. Það er einmitt eitt af lykilhlutverkum jarðvanga að veita fræðslu og upplýsingar. Reykjanes jarðvangur hefur staðið vel að þeim málum og það er ein af forsendum þess að UNESCO hefur veitt jarðvanginum alþjóðlega vottun sem UNESCO Global Geopark.
Höfundur er bæjarstjóri og formaður stjórnar Reykjanes jarðvangs/Reykjanes UNESCO Global Geopark. magnus@sudurnesjabaer.is