Ólafur Hrognin eru að koma, gerið kerin klár!
Ólafur Hrognin eru að koma, gerið kerin klár! — Morgunblaðið/Eggert
EM í knattspyrnu hefur farið varlega af stað; maður hefur séð betri leiki. Eyjólfur mun þó ábyggilega hressast þegar meira verður undir í lokaleikjum riðlanna og í útsláttarkeppninni.

EM í knattspyrnu hefur farið varlega af stað; maður hefur séð betri leiki. Eyjólfur mun þó ábyggilega hressast þegar meira verður undir í lokaleikjum riðlanna og í útsláttarkeppninni.

Umfjöllun á EM-rás Stöðvar 2 hefur á hinn bóginn verið vönduð og snörp. Langt síðan stórmót hefur verið þar til húsa og menn augljóslega staðráðnir að gera sitt allra besta.

Gummi Ben. fer fyrir frækinni sveit lýsenda og sparkskýrenda og hrífur mann um leið með sér gegnum óbilandi áhuga og ástríðu. Hugsa að Gummi gæti fengið mig til að sitja tímunum saman yfir umræðum um botsía, ef því er að skipta.

Svo þóttist ég hafa himin höndum tekið þegar ég sá Bubba Morthens í settinu. En, nei, þegar betur var að gáð var það víst Ólafur Kristjánsson þjálfari. Djöfull eru þeir orðnir líkir. Toppmaður, Ólafur, og skeleggur sparkskýrandi en Bubbi hefði samt verið skemmtilegt tvist. Þá fyrst hefðu breiðu spjótin farið á loft. Menn mega til með að bjóða Bubba í einn þátt og hafa hann við hliðina á Ólafi í betri sófanum.

Annars eru lýsingar Gumma listgrein út af fyrir sig. Ég hef sérstakt yndi af því þegar kappinn verður undrandi í miðjum klíðum. Hann er til dæmis mikill áhugamaður um skæri og færist iðulega í aukana þegar menn reyna slík tilþrif. Gleymi því aldrei þegar leikmaður tók „risaskæri“ í einhverjum leik um árið og Gummi ætlaði hreinlega inn á völlinn af hrifningu.

Orri Páll Ormarsson

Höf.: Orri Páll Ormarsson