Landsréttur Sýknaði í manndrápsmáli. Saksóknari segir áfrýjun ólíklega.
Landsréttur Sýknaði í manndrápsmáli. Saksóknari segir áfrýjun ólíklega. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Oddur Þórðarson oddurth@mbl.is Arturas Leimontas var í gær sýknaður af ákæru um manndráp fyrir Landsrétti. Honum var gefið að sök að hafa veist með ofbeldi að Egidijus Buzleis, 9.

Oddur Þórðarson

oddurth@mbl.is

Arturas Leimontas var í gær sýknaður af ákæru um manndráp fyrir Landsrétti. Honum var gefið að sök að hafa veist með ofbeldi að Egidijus Buzleis, 9. desember árið 2019, og hent honum fram af svölum á íbúð sinni á þriðju hæð að Skyggnisbraut í Reykjavík.

Arturas hafði verið dæmdur fyrir manndráp í Héraðsdómi Reykjavíkur til 16 ára fangelsisvistar.

Í dómi Landsréttar kemur fram að ekkert vitni bæri um það sem Arturas væri gefið að sök og sýnileg sönnunargögn sönnuðu ekki háttsemina. Meðal þess sem Arturas bar fyrir sig var að Egidijus hefði ætlað að stökkva fram af svölunum með þeim hætti sem þeir höfðu lært í litháíska hernum, en þeir voru báðir Litháar. Ákæruvaldið hafði ekki rannsakað þann möguleika nægjanlega gaumgæfilega Því væri ekki yfir allan vafa hafið að Arturas hafi gerst sekur um manndráp.

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari segist hissa á niðurstöðunni. „Það er alveg ljóst að ef hann var að reyna að stökkva þarna fram af, einn og í gamni sínu, eins og hann hafði lært í sovéska hernum þrjátíu árum áður, þá skýrir það ekki þessar deilur milli hans og ákærða. Eins það að hann hafi verið með áverka sem höfðu komið til fyrr um daginn, fyrir stökkið. Er það bara einhver tilviljun?

Svo er það þessi skýring ákærða að hann hafi verið að gera eitthvert hermannastökk sem hann hafði lært þrjátíu árum áður, þetta var 57 ára gamall maður, bara einn úti á svölum, það er enginn að horfa á hann og enginn sem getur þá séð það sem hann ætlaði að sýna fram á að hann gæti gert,“ segir Helgi Magnús.