Í ham Hrúturinn Hreinn undirbýr atlögu sína að rúðunni á gestastofunni.
Í ham Hrúturinn Hreinn undirbýr atlögu sína að rúðunni á gestastofunni. — Ljósmyndir/Einar Á. Sæmundsen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinar Ingi Kolbeins steinar@mbl.is Einari Á. Sæmundsen, þjóðgarðsverði á Þingvöllum, brá í brún þegar hann kom til vinnu í vikunni. Augljóst var að tilraun hafði verið gerð til innbrots. Við nánari athugun virtist málið þó hið einkennilegasta.

Steinar Ingi Kolbeins

steinar@mbl.is

Einari Á. Sæmundsen, þjóðgarðsverði á Þingvöllum, brá í brún þegar hann kom til vinnu í vikunni. Augljóst var að tilraun hafði verið gerð til innbrots. Við nánari athugun virtist málið þó hið einkennilegasta. „Rúðan á hurðinni var brotin og hurðarhúnninn, rammgerður úr stáli, var kengboginn út í loftið,“ segir Einar. Þá var ekki búið að stela neinum munum úr húsinu. Nokkru síðar stóð Einar ásamt samstarfsmanni sínum í anddyri gestastofunnar og þá lét þrjóturinn sjá sig. Um var að ræða hrút sem gengið hafði laus um svæðið í nokkurn tíma.

Sturlaðist út í sjálfan sig

„Þeir fóru þrír og gerðu sig líklega til þess að reka hrútinn á brott. Brást þá hrúturinn ókvæða við og ætlaði að hjóla í þá,“ segir Einar er hann lýsir atburðarásinni. Á endanum snerist hann um hæl, horfði á sjálfan sig speglast í rúðunni á gestastofunni og sturlaðist. Hrúturinn óð af öllu afli í spegilmyndina af sjálfum sér, í þrígang, og tókst að splundra rúðunni og skemma aðra í leiðinni.

Hrúturinn stakk þá af eftir átökin við sjálfan sig. Hann fannst svo nokkrum dögum síðar, en með honum var annar yngri hrútur. „Sá yngri bar þó ekki ábyrgð á skemmdarverkunum eða innbrotstilrauninni, en hann hefur eflaust lært ýmislegt af þeim eldri síðustu dagana,“ segir Einar.

Fæddir og uppaldir í þjóðgarðinum

Við nánari skoðun á hrútunum kom í ljós að þeir voru ómarkaðir og því í raun eigandalausir. Höfðu báðir fæðst og lifað í þjóðgarðinum. Þrátt fyrir að lausafé sé alla jafnan rekið skipulega út úr þjóðgarðinum þá verður stundum nokkuð fé eftir og gjarnt á að fela sig í runnum og skógum í Þingvallaþjóðgarði. „Svo grænkar fyrst grasið á tjaldsvæðunum og þá kemur féð út úr skóginum til þess að gæða sér á grasinu,“ segir Einar.

Færist ofar á forgangslistann

„Þjóðgarðurinn er afgirtur allan hringinn.Við höfum verið duglegir við að viðhalda vesturhluta girðingarinnar, en vitum af nokkrum gloppum á girðingunni á austurhliðinni,“ segir Einar. Vegna stöðugs straums ferðamanna undanfarin ár hefur viðhald á girðingum ekki verið efst á forgangslistanum en mögulega verður breyting þar á. Enda ljóst að lausafé getur valdið meiri skaða en bara á grasi tjaldsvæða Þingvalla. „Tjónið af þessu reiðikasti hrútsins er sennilega um ein milljón króna.“