Geir Hallgrímsson heldur ræðu á Austurvelli á þjóðhátíðardaginn 1977. Þá var hann ekki lengur borgarstjóri, heldur orðinn forsætisráðherra Íslands.
Geir Hallgrímsson heldur ræðu á Austurvelli á þjóðhátíðardaginn 1977. Þá var hann ekki lengur borgarstjóri, heldur orðinn forsætisráðherra Íslands. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
„Við Íslendingar ætlumst til þess af öðrum þjóðum og leiðtogum, að þeir leysi deilumál sín friðsamlega. Við kunnum ekki að meta þá ættjarðarást, sem er fólgin í því að hata aðrar þjóðir.

„Við Íslendingar ætlumst til þess af öðrum þjóðum og leiðtogum, að þeir leysi deilumál sín friðsamlega. Við kunnum ekki að meta þá ættjarðarást, sem er fólgin í því að hata aðrar þjóðir. Hin raunverulega ættjarðarást er fólgin í óeigingjörnu starfi í þágu eigin þjóðar, starfi, sem m.a. miðar að því að efla skilning og samúð með öðrum þjóðum.“ Þannig komst Geir Hallgrímsson borgarstjóri að orði í ræðu hinn 17. júní 1961.

Hann sagði að til lengdar stæði sá einstaklingur og sú þjóð sterkast að vígi, sem gæti kynnt sér hvert ágreiningsmál með rólegri yfirvegun og tekið síðan afstöðu og framfylgt henni.

„Áhuga- og ágreiningsmál á Íslandi eru oft talin varða sjálfstæði landsins og mörg minni háttar mál þar nefnd. Það slævir meðvitund þjóðarinnar, þannig að hættara er við, að hún verði ekki á verði, þegar sjálfstæði hennar er í raun og veru í veði. En víst er, að það, sem sker úr um, hvort Íslendingar halda sjálfstæði sínu út á við og vernda lýðræði sitt inn á við, er, að þeir gefi sér tíma til að kynna sér deilumál í öðru ljósi en sínu eigin, yfirvegi þau með skynsemi, efli með sér skilning og góðvild og þroski með sér tilfinningu fyrir réttu og röngu.“