[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eins og eflaust margir er ég týpan sem þarf alltaf að lesa nokkrar ólíkar bækur í einu, því þar sem ég er ekki alltaf í skapi fyrir vissa bókmenntagrein, finnst mér svo skratti gott að hafa aðra handhæga á náttborðinu.

Eins og eflaust margir er ég týpan sem þarf alltaf að lesa nokkrar ólíkar bækur í einu, því þar sem ég er ekki alltaf í skapi fyrir vissa bókmenntagrein, finnst mér svo skratti gott að hafa aðra handhæga á náttborðinu.

Á bókasafninu greip ég bækur úr bókaröðinni Handbók fyrir ofurhetjur eftir Elias og Agnesi Våhlund. Þessar vinsælu myndabækur eru mjög einfaldar aflestrar og í framsetningu, og því lesvænar fyrir alla, sama hver lestrargetan er. Ég skil vel að þær hitti í mark hjá litlum lesendum sem líklega dreymir marga um að vera með ofurkrafta, ekki bara til að ráða við eineltispúkana, heldur líka til að öðlast meira vald og sterkari rödd í samfélaginu til að geta sýnt hvers megnug þau í raun eru, alveg eins og aðalsöguhetjan Lísa gerir.

Á bókamarkaðinum í Laugardalshöll keypti ég Sögu Borgarættarinnar eftir Gunnar Gunnarsson og kom bókin mér mjög á óvart. Eins og flestir vita segir hún frá ævilöngum átökum milli hins örláta og réttsýna Örlygs bónda á Borg og illa bróður hans síra Ketils, sem og sonar Örlygs, hins fjölhæfa og hjartagóða Ormars Örlygssonar, fiðlusnillings og viðskiptasénís. Og hvílíkur texti! Ég hef svei mér aldrei lesið jafn tilfinningaþrungna bók; þéttskrifaðar ofur hástemmdar lýsingar á tilfinningum persónanna sem velkjast um í rosalega melódramatískum örlögum sínum. Á þessum tilfinningum smjattaði ég hátt.

Bróðir minn í Svíþjóð keypti fyrir mig bókina Hästpojkarna eða Hestadrengirnir , eftir Johan Ehn. Hún var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í ungmennaflokki, enda einstaklega falleg og snilldarlega skrifuð bók. Þar segir frá ungum rótlausum og samkynhneigðum manni sem fær vinnu í heimaþjónustu við eldri borgara. Hann er sendur til austurevrópsks ofursérvitrings, og þótt sá hafi verið sirkuslistamaður, m.a. í Þýskalandi nasismans, reynast þeir félagarnir eiga margt sameiginlegt.

Vinkona mín í Frakklandi færði mér bókina Betty Boob eftir Vero Cazot og Julie Rocheleau í fimmtugsafmælisgjöf. Síðan eru liðin þrjú ár og ég er enn að lesa, skoða og dást að bókinni. Þetta er myndasaga um unga konu sem fær krabbamein og þarf að fara í brjóstnám. Það veldur henni miklum andlegum þjáningum og kemur hart niður á lífi hennar. Í örvinglan sinni lendir hún á hálfgerðum vergangi og endar loks í „burlesque“-ferðaleikhópi þar sem hún öðlast nýja sjálfsmynd með hjálp skrautlegra félaga sinna. Dásamlega myndskreyttur óður til líkamlegs og veraldlegs frelsis.