Ásta Svanhvít Þórðardóttir fæddist í Hvammi í Arnarnes-hreppi 28. júlí 1936. Hún lést á Öldrunarheimilinu Hlíð, Akureyri, 8. maí sl. Foreldrar hennar voru Þórður Sigurvin Sigurjónsson, bóndi og bókbindari, f. 27. ágúst 1886 í Dagverðartungu , Bæg-isársókn, Eyjafirði, d. 23. des. 1944 og Magðalena Sigurgeirsdóttir, húsfreyja í Hvammi, f. 8. okt. 1896 á Vöglum á Þelamörk í Eyjafirði, d. 25. feb. 1981.Systkini Ástu voru: Þórður Guð-mundur, f. 11. júlí 1930, d. 25. maí 2011, og Halldór Hlöðver, f. 19. mars 1935, d. 21. des. 2013, og sam-mæðra systur Ástu voru: Ólöf Sig-urrós, f. 24. apríl 1916, d. 6. okt. 1971 og Magðalena Soffía, f. 16. apríl 1921, d. 18. júní 2003.Ásta flutti til Reykjavíkur nítján ára gömul og átti lengst heima þar, bjó einnig í Hafnarfirði og síðar á Akureyri frá árinu 2012.Ásta eignaðist fyrsta barn sitt í Hvammi í Arnarneshreppi, Þórð Magna Eyfjörð, f. 12. apríl 1955, býr í Þýskalandi.Fyrri eiginmaður Ástu var Gísli Angantýr Magnússon, f. 16. mars 1927, d. 25. okt. 2003, dætur þeirra eru: Björg Guðrún, f. 2. okt. 1956 og Kolbrún, f. 14. ágúst 1960, og barnsfaðir Ástu var Svavar Ágústs-son, f. 8. okt. 1941, d. 27. júlí 2016, dóttir þeirra er Sif, f. 3. sept. 1961.Ásta giftist Einari Vigfússyni sjó-manni 15. nóv. 1962, f. 5. maí 1938 í Reykjavík en hann lést 23. des. 2017. Dætur þeirra eru Katrín Guð-munda, f 20. feb. 1963 og Magða-lena Ósk, f. 15. júlí 1966.Afkomendur Ástu eru 47 og 5 stjúp- langömmubörn.Ásta vann hin ýmsu störf á ævi sinni, t.d. gangastúlka á Borgarspítalanum, afgreiðslukona hjá sparimarkaði SS í Austurveri og síðar í blómabúð í Eddufelli, sem átti afar vel við hana.Útför Ástu fer fram í dag, 19. júní 2021, frá Möðruvallakirkju í Hörgárdal klukkan 14.

Við móðurmissi slitnar naflastrengurinn endanlega. Þannig leið mér þegar mamma gaf frá sér síðasta andardráttinn, skyndilegt rof og mamma flogin á brott úr líkama sem sjúkdómurinn alzheimer hafði herjað á í fjórtán ár. Mamma var auðvitað löngu lögð af stað í ferðalag gleymsku og óráðs en vegna persónuleika síns faldi hún einkenni sjúkdómsins eins vel og hún hafði mátt til. Hún viðurkenndi aldrei meðan hún lifði þá greiningu sem læknirinn gaf henni fyrir fjórtán árum.

Mamma var einstaklega stolt kona og lét aldrei deigan síga þótt á móti blési. Hún stóð hnarreist í gegnum storma lífs síns og sagði oft: „Ég mun aldrei gefast upp þótt ég bogni og það skal engum takast að brjóta mig niður.“ Þetta viðhorf einkenndi mömmu því hún var þrjóskari en andskotinn og lét illa að stjórn. En mamma var líka glaðvær og hafði húmor fyrir sjálfri sér og lífinu. Hún kenndi mér kurteisi, fallega borðsiði og sagði alltaf: „Komdu fram við aðra eins og þú vilt að sé komið fram við þig.“ Ég elskaði hana alltaf.

Líf mömmu hafði afgerandi áhrif á líf mitt og mínar ákvarðanir í lífinu og gerði mig að þeirri manneskju sem ég er í dag og er ég þakklát fyrir það.

Þú stoppaðir á veginum og hvarfst inn í þig

án þess að kveðja mamma

þú starandi augum horfðir í gegnum mig

og mig langaði svo að kveðja þig mamma

En um leið og lífsbönd þín bresta

og þú flýgur á brott

til himins í blárri birtu

þá munu að lokum augu þín grænu

brosa á ný

í frelsi og nýjum heimum.

Svo mun ég í eilífðinni vekja þig

með blaktandi vængjaslætti

og þá tökum við okkur sæti í mosanum

og segjum sögur af baráttu litla blómsins

sem ávallt teygði sig upp til himins.

(Björg Guðrún Gísladóttir)

Hvíl í friði, elsku mamma, og takk fyrir allt og allt.

Þín dóttir,

Björg.