Hjörleifur Hallgríms
Hjörleifur Hallgríms
Eftir Hjörleif Hallgríms: "Það er alltaf sama sagan; ólíkt hefst fólk að, ekki síst þegar eldri borgarar eiga í hlut."

Tvær mektarkonur, talskonur eldri borgara, hafa boðið sig fram til þings en því miður sýnast þær ekki munu hljóti brautargengi, því er verr. Þær eru Þórunn Sveinbjarnardóttir, fv. formaður landssambands eldri borgara, LEB, og Ingibjörg H. Sverrisdóttir, formaður félags eldri borgara, FEB. Þórunn fór í framboð fyrir Framsókn þar sem situr svikull formaður en Ingibjörg bauð sig fram fyrir Sjálfstæðisflokkinn þar sem er engu skárri formaður og svikull gagnvart eldri borgurum og sýnir hvernig fólk í þeim flokki hugsar yfirleitt til eldri borgara þar, sem sýnist að Ingibjörg fái ekki mikið brautargengi. Ég hélt reyndar, sem er önnur saga, að Ingibjörg væri að hallast að Miðflokknum eftir mjög svo skelegga framkomu hennar með miðflokksþingmönnum í orkupakka 3-málinu, þar sem sjálfstæðismenn kusu að afhenda ESB, þeirri örmu stofnun, auðlindir Íslands.

Miðflokkurinn, undir forystu þess ágæta manns Sigmundar Davíðs, sem aftur á móti er ekki reyndur að svikum, hefði tekið fúslega á móti baráttukonu fyrir málefnum eldri borgara. Eitt verð ég að benda ágætri Þórunni á, sem mikla áherslu hefur lagt á uppbyggingu sjúkraheimila, sem er auðvitað hið besta mál en þó ekki alveg aðalatriðið heldur hvernig Bjarni fjármálaráðherra heldur ellilífeyrisþegum í þúsundatali svo illa höldnum fjárhagslega að þetta fólk á sér ekkert líf. Hver vill lifa á strípuðum 260 þúsund krónum á mánuði frá Tryggingastofnun? Í mörgum tilfellum vill þetta fólk búa sem lengst heima hjá sér, með þá einhverri heimilishjálp, en sér sér ekki fært peningalega og fer þá gegn vilja á sjúkraheimili til að forðast peningaáhyggjur.

Það má flokka ellilífeyrisþega í þrennt: Í fyrsta lagi opinbera starfsmenn, sem fá góðar greiðslur úr lífeyrissjóðum auk bóta frá Tryggingastofnun og hafa það nokkuð gott. Í öðru lagi menn úr iðnaðargeiranum með þokkalegar eftirlaunagreiðslur og hafa það bara nokkuð í lagi. Í síðasta lagi er svo fólkið sem lifir við sult og seyru á strípuðum bótum frá Tryggingastofnun eða 260 þúsund krónum á mánuði eins og fyrr segir. Ég fullyrði að enginn vandi væri að leysa mál þeirra verst settu ef illvilji Bjarna fjármálaráðherra stæði ekki þar í vegi. Gamla máltækið „búum öldruðum áhyggjulaust ævikvöld“ er orðið hjóm eitt í hans huga.

Þriðja konan, sem hafði erindi sem erfiði, er Ingibjörg Ísaksen, bæjarfulltrúi á Akureyri, sem leiðir lista Framsóknar í NA-kjördæmi og Ásmundur Einar barnamálaráðherra skipaði til að leiða vinnuhóp í málefnum aldraðra og vonandi að hún standi sig betur á þeim vettvangi en hún hefur t.d. staðið sig í húsnæðismálum hjá eldriborgarafélagi Akureyrar, EBAK. Ekki er vitað til að Ingibjörg hafi beitt sér eða talað fyrir stækkun á allt of litlu húsnæði í Bugðusíðu, sem er til háborinnar skammar fyrir bæjarstjórnina að bjóða 1.800 manna EBAK upp á til funda og annars samkomuhalds. Ingibjörg þessi er samt sögð hafa komið verulega að málum við uppbyggingu Listasafnsins á Akureyri í gamla Mjólkursamlagshúsinu, sem fór hálfan milljarð fram úr áætlun, nokkuð vel að verki staðið, en þar virðist ekki hafa vantað peninga, fyrir svo utan það að mál margra er að allt öðruvísi hefði verið hægt að standa að málum.

Höfundur er eldri borgari á Akureyri.

Höf.: Hjörleif Hallgríms